Karfan er tóm.
Þór/KA mætir liði Keflavíkur í sjöundu umferð Bestu deildarinnar í dag kl. 18. Leikurinn er mikilvægur báðum liðum, sem sitja í 7. og 8. sæti deildarinnar eftir að þriðjungi hennar er lokið.
Keflavík er stigi ofar en Þór/KA eftir sex umferðir, en liðið hefur unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli. Annar af sigrum liðsins kom gegn Breiðabliki á heimavelli. Þór/KA hefur unnið tvo leiki, eins og Keflavík, en tapað fjórum. Annar af sigrum liðins kom gegn Val á heimavelli. Áhugavert að þessi lið hafa bæði unnið lið sem vinsælt er að spá efstu sætum deildarinnar, en gengið að öðru leyti ekki nógu vel í stigasöfnuninni.
Það er því mikilvægt að Akureyringar þétti raðirnar og fjölmenni á völlinn til að styðja stelpurnar. Öflugur stuðningur úr stúkunni skiptir alltaf máli, það hefur margsýnt sig.
Miðaverð: 2.000 kr. fyrir fullorðna.
Miðasala: Stubbur-app og við hliðið.
Þessi lið hafa 12 sinnum mæst í efstu deild Íslandsmótsins, fyrst í júní 2006. Á meðal leikmanna Keflavíkur í þeim leik var markvörðurinn Þóra Reyn Rögnvaldsdóttir, sem var varamarkvörður í leiknum, en hún hefur komið að þjálfun markvarða hjá Þór/KA í sumar í tengslum við þjálfaranám sitt. Þóra stóð síðan í marki Keflavíkur í fyrsta skipti þegar þessi lið mættust á Þórsvellinum, í september sama ár.
Af þessum 12 viðureignum liðanna í efstu deild hefur Þór/KA unnið sjö leiki, einu sinni hefur orðið jafntefli og fjórum sinnum hefur Keflavík haft sigur. Sigrar Keflavíkur komu í fjórum fyrstu viðureignum liðanna, 2006 og 2007.
Ef litið er á viðureignir liðanna í öllum mótum eru þær samtals orðnar 20. Þór/KA hefur unnið 13 sinnum, einu sinni hefur orðið jafntefli og sex sinnum hefur Keflavík unnið.
Liðin áttust síðast við í febrúar 2022 í A-deild Lengjubikarsins. Þór/KA vann þann leik 3-0.
Félagið og leikmenn meistaraflokks efndu nú á vordögum til glæsilegs happdrættis til fjáröflunar vegna æfingaferðar hópsins til Englands í júlí, en hlé verður gert á deildinni í um sex vikur vegna þátttöku Íslands í lokamóti EM.
Happdrættismiðarnir kosta 2.000 krónur og verður hægt að kaupa slíka í veitingasölunni á leiknum í kvöld. Áhugasöm geta einnig haft samband beint við einstaka leikmenn til að kaupa happdrættismiða og styrkja viðkomandi beint.
Vinningar í happdrættinu eru samtals að verðmæti rúmlega 1,4 milljónir króna. Dregið verður þriðjudaginn 7. júní, aðeins úr seldum miðum. Fjöldi miða er 2.000.