Karfan er tóm.
Hildur Anna Birgisdóttir átti eftirminnilegan dag þegar hún spilaði með Þór/KA gegn Þór/KA 2 í dag. Skoraði mark og lagði upp tvö.
Nokkrir leikmenn hafa verið að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki í leikjum Þórs/KA-liðanna í desember og núna í dag, þó svo formlega teljist þetta ekki með opinberum meistaraflokksleikjum samkvæmt talningu KSÍ þar sem mótið er æfingamót og fer ekki eftir ströngustu reglum um hlutgengi leikmanna og fleira. Að auki eru nokkrar sem komu við sögu í einum leik í sama móti í fyrra og svo aftur í leikjunum það sem af er þessu móti.
Hildur Anna skoraði fyrsta markið í 4-1 sigri Þórs/KA á Þór/KA2 í dag, eftir að Jakobína Hjörvarsdóttir átti fyrirgjöf sem Emilía Björk Óladóttir tók laglega á móti og potaði boltanum áfram til Hildar Önnu - og hún lék síðan á varnarmann og skoraði. Hildur Anna lét ekki þar við sitja heldur átti hún stoðsendingu í næstu tveimur mörkum liðsins. Á fyrstu mínútu seinni hálfleiksins átti hún sendingu inn fyrir á Rebekku Sunnu Brynjarsdóttur sem lék áfram inn í teig og skoraði - en Rebekka Sunna var einnig að spila í fyrsta skipti með meistaraflokki og þar með einnig að skora sitt fyrsta mark. Næst var komið að Söndru Maríu Jessen að fá sendingu frá Hildi Önnu, en það gerðist á 69. mínútu, sending inn fyrir, Sandra komin ein í gegn og skoraði. Staðan hjá Hildi Önnu í meistaraflokki: Einn leikur, eitt mark, tvær stoðsendingar.
En svo þegar fram líða stundir eru þessir leikir ekki taldir með hinum hefðbundnu meistaraflokksleikjum heldur heita þeir „annað/óskilgreint“. Samt er gaman að þessari tölfræði.
Einnig má lesa um leikinn í fyrri frétt hér á heimasíðunni - og þar eru liðsmyndir með öllum nöfnum.