Karfan er tóm.
Þær Amalía Árnadóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir hafa verið lánaðar frá Þór/KA til Völsungs. Þær skiluðu marki og stoðsendingu í fyrsta leik sínum með liðinu, þegar Völsungur sigraði Hamar í Lengjubikarnum.
Þær Amalía og Sonja Björg eru báðar fæddar 2006 og því enn gjaldgengar með 3. flokki. Eftir þessi tímabundnu skipti yfir í Völsung munu þær þó ekki geta spilað með 3. flokki hjá Þór/KA. Aftur á móti geta þær spilað með 2. flokki þar sem ákveðið hefur verið að taka upp samstarf milli Þórs/KA og Völsungs og tefla fram sameiginlegu liði félaganna í 2. flokki kvenna í Íslandsmóti og bikarkeppni. Þór/KA/Völsungur spilar í B-deild í 2. flokki þar sem Þór/KA, sem áður átti sæti í A-deild, tefldi ekki fram liði í Íslandsmótinu í 2. flokki 2020 og 2021.
Amalía og Sonja Björg spiluðu sinn fyrsta leik með Völsungi á fimmtudagskvöldið þegar liðið mætti Hamri í C-deild Lengjubikarsins, riðli 2. Völsungur vann leikinn 3-1, Amalía skoraði eitt markanna og Sonja Björg átti stoðsendingu í einu markinu. Völsungur er nú í efsta sæti riðils 2 í C-deild Lengjubikarsins. Næsti leikur liðsins er á dagskrá í dag, laugardaginn 2. apríl, gegn ÍA á Akranesi.
Í markinu hjá Völsungi spilaði Ísabella Júlía Óskarsdóttir, sem skipti yfir í Völsung í byrjun mars.
Leikskýrslan á vef KSÍ.
Staðan, úrslit og leikjadagskrá á vef KSÍ.
Sonja Björg og Amalía komnar í Völsungstreyjunar.