Mark og stoðsending í fyrsta leik með Völsungi

Sonja Björg Sigurðardóttir og Amalía Árnadóttir eftir fyrsta leik sinn með Völsungi.
Sonja Björg Sigurðardóttir og Amalía Árnadóttir eftir fyrsta leik sinn með Völsungi.

 

Þær Amalía Árnadóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir hafa verið lánaðar frá Þór/KA til Völsungs. Þær skiluðu marki og stoðsendingu í fyrsta leik sínum með liðinu, þegar Völsungur sigraði Hamar í Lengjubikarnum.

Þær Amalía og Sonja Björg eru báðar fæddar 2006 og því enn gjaldgengar með 3. flokki. Eftir þessi tímabundnu skipti yfir í Völsung munu þær þó ekki geta spilað með 3. flokki hjá Þór/KA. Aftur á móti geta þær spilað með 2. flokki þar sem ákveðið hefur verið að taka upp samstarf milli Þórs/KA og Völsungs og tefla fram sameiginlegu liði félaganna í 2. flokki kvenna í Íslandsmóti og bikarkeppni. Þór/KA/Völsungur spilar í B-deild í 2. flokki þar sem Þór/KA, sem áður átti sæti í A-deild, tefldi ekki fram liði í Íslandsmótinu í 2. flokki 2020 og 2021.

Amalía og Sonja Björg spiluðu sinn fyrsta leik með Völsungi á fimmtudagskvöldið þegar liðið mætti Hamri í C-deild Lengjubikarsins, riðli 2. Völsungur vann leikinn 3-1, Amalía skoraði eitt markanna og Sonja Björg átti stoðsendingu í einu markinu. Völsungur er nú í efsta sæti riðils 2 í C-deild Lengjubikarsins. Næsti leikur liðsins er á dagskrá í dag, laugardaginn 2. apríl, gegn ÍA á Akranesi.

Í markinu hjá Völsungi spilaði Ísabella Júlía Óskarsdóttir, sem skipti yfir í Völsung í byrjun mars.

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Staðan, úrslit og leikjadagskrá á vef KSÍ.


Sonja Björg og Amalía komnar í Völsungstreyjunar.