Karfan er tóm.
María spilaði allan leikinn og skoraði annað mark liðsins í 2-1 sigri í bikarkeppninni.
María Catharina Ólafsdóttir Gros, sem fór frá Þór/KA til Fortuna Sittard í janúar, spilaði allan leikinn í sigri Fortuna Sittard á PEC Zwolle í bikarkeppninni í dag. Hún skoraði seinna mark Fortuna Sittard í 2-1 sigri. Mark Maríu kom á 77. mínútu leiksins og kom hún sínu liði þá í 2-0. Fortuna Sittard er í 3. sæti í deildinni, en PEC Zwolle í 7. sæti.
Við heyrðum hljóðið í Maríu eftir leikinn í dag og lét hún nokkuð vel af sér. „Mér hefur bara gengið vel síðan ég fór út, en auðvitað þurfti ég og er ennþá að venjast öllu hérna,“ segir María. „Það er náttúrlega talað annað tungumál hérna sem ég er að reyna að læra og þau vilja spila allt öðruvísi fótbolta en ég er vön. Ég er bara að reyna að taka einn dag í einu og halda áfram að æfa mig og reyna að hjálpa liðinu að gera betur."
María samdi við Fortuna Sittard í lok janúar. Hún hefur komið við sögu í þremur deildarleikjum, þar af í byrjunarliði í einum þeirra þar sem hún spilaði 70 mínútur og skoraði úr skoti sem átti líklega að vera fyrirgjöf. Hún spilaði síðan í fyrsta skipti í dag allan leikinn og skoraði annað tveggja marka liðsins, eins og áður sagði. Samkvæmt okkar upplýsingum átti hún góðan leik og var ánægð með frammistöðuna.
Liðið mætir Twente, sem er á toppnum í deildarkeppninni, á útivelli í fjórðungsúrslitum bikarkeppninnar 16. mars. Twente sló út næstefsta lið deildarinnar, Ajax, með 2-1 sigrí í 16 liða úrslitunum.