María Catharina á leið í sænsku úrvalsdeildina

María Catharina Ólafsdóttir Gros í landsliðstreyjunni. Hún á að baki samtals 33 landsleiki með U16, …
María Catharina Ólafsdóttir Gros í landsliðstreyjunni. Hún á að baki samtals 33 landsleiki með U16, U17, U19 og U23 landsliðum Íslands.

María Catharina Ólafsdóttir Gros hefur samið við sænska úrvalsdeildarfélagið Linköping FC. Samningur Maríu við félagið gildir í þrjú og hálft ár, en keppni í Damallsvenskan, eins og úrvalsdeild kvenna heitir í Svíþjóð, er nú ríflega hálfnuð.

Linköping situr í 6. sæti deildarinnar með 20 stig eftir 14 leiki. Fjórtán lið eru í úrvalsdeildinni. Sænska félagið tilkynnti Maríu sem nýjasta leikmann félagsins á vef sínum í morgun. María á að baki 66 leiki með meistaraflokki Þórs/KA, þar af 46 leiki og fimm mörk í efstu deild.

Spilar í undankeppni Meistaradeildarinnar

Á vef sænska félagsins kveðst María spennt og ánægð að hafa skrifað undir hjá Linköping. „Það hefur verið draumur síðan ég var lítil að fá að spila í Damallsvenskan og ég er stolt og þakklát fyrir að minn fyrsti samningur í Svíþjóð sé við flott félag með mikla sögu. Ég veit að þetta er rétt ákvörðun fyrir mig og Linköping mun hjálpa mér að vaxa sem leikmaður þannig að ég geti lagt mitt af mörkum með reynslu minni og hjálpað liðinu að gera góða hluti í Svíþjóð og nú í ár einnig í Evrópu með undankeppni Meistaradeildarinnar,“ segir María. Hún kveðst hlakka mjög til að koma til félagsins sem eigi sér stórkostlega sögu og hún vilji leggja sitt af mörkum til þeirrar sögu.

Linköping tekur þátt í undankeppni Meistaradeildarinnar í byrjun september og spilar á heimavelli, Linköping Arena. Linköping mætir Sparta Prag 4. september. Sigurlið þeirrar viðureignar mætir sigurliðinu úr viðureign franska liðsins Paris FC og First Vienna FC frá Austurríki.

Yfirþjálfari Linköping, Rafael Roldán, segir í samtali við heimasíðu félagsins að hann sé mjög ánægður að fá Maríu til liðs við félagið. „Hún er leikmaður með gríðarlega mikla möguleika,“ segir hann. María geti með eigin dugnaði og hjálp félagsins þróast sem leikmaður með þessu skrefi á sínum ferli núna. „Við trúum því að hún muni geta hjálpað liðinu að taka skref fram á við. María hefur verið atvinnumaður í mismunandi löndum og deildum svo hún er meðvituð um hvers er krafist og það að hún var ákveðin í að Linköping væri félagið sem hún vildi ganga í gerði okkur mjög stolt,“ segir yfirþjálfarinn.

Meðal leikmanna Linköping er Delaney Baie Pridham sem lék með ÍBV sumarið 2021 og mættust þær María tvisvar það sumarið.

Fyrsti leikurinn með Þór/KA 2018

María er uppalin á Akureyri og á að baki 66 meistaraflokksleiki með Þór/KA og Hömrunum, þar af 46 leiki og fimm mörk í efstu deild. Hún lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki með Þór/KA 15 ára gömul árið 2018. Sumarið 2021 samdi hún við skoska félagið Celtic FC, en snéri aftur heim og lék með Þór/KA seinni hluta sumars 2022. Eftir það samdi hún við hollenska félagið Fortuna Sittard þar sem hún var þar til í lok tímabils í vor. Fortuna Sittard endaði í 3. og 4. sæti þau tvö tímabil sem María spilaði í Hollandi, en veru hennar þar lauk með bikarúrslitaleik gegn Ajax.

María fór til skoska úrvalsdeildarfélagsins Celtic FC um mitt sumar 2021, en gekk aftur í raðir Þórs/KA ári síðar.


María lék með Fortuna Sittard í Eredivise, hollensku úrvalsdeildinni þar til í vor.

María stefndi til Svíþjóðar eftir að samningur hennar í Hollandi rann út, eins og Akureyri.net greindi frá í vor. Það er ekki tilviljun að hún velur Svíþjóð því þangað hefur hún stefnt í háskólanám. María hefur bæði íslenskan og sænskan ríkisborgararétt enda er móðir hennar, sjúkraþjálfarinn Anna Catharina Gros, fædd í Svíþjóð. Foreldrar Maríu fluttu einmitt nýlega til Svíþjóðar.


María ásamt móður sinni, Önnu Catharinu Gros, þegar María kom fyrst við sögu með meistaraflokki Þórs/KA á Valsvellinum í mars 2018.