Karfan er tóm.
Margrét Árnadóttir hefur samið við ítalska félagið Parma Calcio 1913 sem spilar í efstu deild á Ítalíu.
Liðið er sem stendur á botni A-deildarinnar með sex stig eftir 12 leiki, hefur unnið einn leik og gert þrjú jafntefli, en næst fyrir ofan eru fjögur lið með tíu stig.
Margrét er komin í Parma-treyjuna, en félagaskiptin þó reyndar ekki gengin í gegn hjá KSÍ þannig að hún er ekki með í bikarleik liðsins gegn Inter í dag.
Heimasíðuritari heyrði í Margréti þegar þessi tíðindi bárust og spurði hana út í aðdragandann. Margrét segir að þetta hafi allt gerst mjög hratt. „Ég fékk símtal að kvöldi 28. desember um að liðið vildi bjóða mér samning og næsta morgun voru drögin að samningi komin. Ég hafði þá nánast bara dag í að gefa svar og ákvað á endanum að segja já og næsta morgun var kominn samningur,“ segir hún.
Samningur Margrétar er til að byrja með til sex mánaða, en síðan með möguleika á eins árs framlengingu. Fyrsti hluti samningsins stendur þá út yfirstandandi tímabil, en gera má ráð fyrir að framhaldið ráðist af árangri liðsins og hvort það nær að klifra upp töfluna og halda sér í deildinni.
Stöðutaflan í A-deildinni á Ítalíu. Skjáskot af vef Parma-liðsins.
Hefur lengi langað í atvinnumennsku
Aðspurð um atvinnumennskudraumana segir Margrét að sig hafi lengi langað að taka þetta skref. „Mig hefur lengi langað að fara út í atvinnumennsku og hefur alltaf langað að prófa að flytja á meginland Evrópu. Þannig að eftir þetta tímabil ákvað ég aðeins að fara að skoða hvaða möguleika ég ætti,“ segir Margrét, og þetta varð niðurstaðan.
Margrét í leik með Þór/KA síðastliðið sumar. Mynd: Þórir Tryggvason.
Samningur Margrétar við Þór/KA rann út núna um áramótin. Margrét er fædd 1999 og kom fyrst við sögu í meistaraflokki með Þór/KA 2016, fyrst í Lengjubikar 19. mars, en síðan í Pepsi-deildinni og Borgunarbikarnum í framhaldi af því. Hún á að baki 136 meistaraflokksleiki með Þór/KA og hefur skorað 34 mörk. Þar af eru 89 leikir og 20 mörk í efstu deild og fjórir Evrópuleikir. Margrét á að baki sjö leiki með U-landsliðum Íslands og 16 leiki og 12 mörk í vetraræfingamótum.
Margrét hefur verið einn af lykilleikmönnum hjá Þór/KA undanfarin ár enda ein af eldri og reyndari leikmönnum í mjög ungum leikmannahópi. Hún hefur í gegnum tíðina mest leikið sem framherji, en færðist í hlutverk sóknarsinnaðs miðjumanns á síðasta tímabili.
En af hvað varð til þess að hún valdi þetta lið og að fara til Ítalíu? „Það var margt við Parma sem heillaði mig, þótt þær séu í erfiðri stöðu akkúrat núna er þetta mjög professional klúbbur og með mikla sögu. Síðan eru líka nægir leikir til að snúa stöðunni sér í hag,“ segir Margrét – og vonandi verður koma hennar til liðsins til þess að hagur þess vænkist í framhaldinu.
Erfitt að fara, bæði spenningur og stress
Margrét segir tilfinningarnar mjög blendnar á þessum tímamótum. „Auðvitað er mikill spenningur, en samt líka stress. Það er mjög erfitt að fara frá Akureyri, bæði Þór/KA og öllum stelpunum sem ég er að þjálfa, en einhvern tímann verður maður að taka stökkið,“ segir Margrét.
Þór/KA óskar Margréti alls hins besta í nýjum verkefnum og þakkar fyrir allt sem hún hefur gert fyrir félagið, innan vallar sem utan. Margrét er þegar farin til Ítalíu og skrifaði undir samning við ítalska liðið fyrr í dag. Fyrsti leikur liðsins eftir jólafrí er bikarleikur gegn Inter í dag, sunnudaginn 8. janúar, en fyrstu leikur eftir jólafrí í deildinni er 15. janúar og er það útileikur gegn Milan.
Margrét var á lokahófi Þórs/KA í haust verðlaunuð sem besti leikmaður nýafstaðinnar leiktíðar. Hún er ein þeirra kvenna sem tilnefndar eru í kjöri á íþróttakonu K.A. 2022. Mynd: Þórir Tryggvason.
Mótttökurnar sem Margrét fékk í Parma voru ágætar og á meðal heimamanna sem hún hitti hjá klúbbnum var fyrrverandi landsliðsmarkvörður Ítalíu, Gianluigi Buffon. Hann var leikmaður Parma 1995-2001, en átti síðan farsælan feril með Juventus og PSG, áður en hann snéri aftur á heimaslóðirnar og hefur verið leikmaður Parma frá 2021. Að sjálfsögðu bað Buffon um mynd af sér með okkar konu.