Karfan er tóm.
Fyrir leik Þórs/KA og Vals í Boganum í gær fékk Margrét Árnadóttir afhenta Þór/KA treyju með „100“ á bakinu þar sem hún hefur leikið yfir 100 leiki fyrir Þór/KA. Margrét hefur spilað 74 leiki í efstu deild, alla fyrir Þór/KA.
Miðað við núverandi uppsetningu á tölfræði leikja í gagnagrunni KSÍ og breytingu sem gerð var nýlega er Margrét komin í 112 leiki í deild, bikarkeppni, deildabikar, meistarakeppni og Evrópukeppni. Breytingin sem hefur orðið er að leikir í Lengjubikarnum eru komnir inn í töluna. Út frá þeirri tölfræði var 100. leikur Margrétar gegn Val á heimavelli þann 24. júlí í fyrra. Þar skoraði hún eina mark Þórs/KA í 1-3 tapi. Dæmið snerist við í gær, Margrét skoraði frábært mark á 75. mínútu og kom Þór/KA í 2-1, sem urðu lokatölur leiksins.
Tölurnar í dag eru eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Auk þessara 112 leikja hefur hún spilað 15 leiki og skorað tíu mörk í öðrum mótum, sem eru Kjarnafæðismótið og Faxaflóamótið, og á einnig að baki sjö leiki og þrjú mörk með yngri landsliðum Íslands.
Upplýsingar um Margréti á vef KSÍ.