Margrét Árnadóttir heiðruð fyrir 100 leiki

Margrét Árnadóttir, ásamt móður sinni Guðrúnu Unu Jónsdóttur, sem afhenti henni treyjuna fyrir leiki…
Margrét Árnadóttir, ásamt móður sinni Guðrúnu Unu Jónsdóttur, sem afhenti henni treyjuna fyrir leikinn gegn Val, en Guðrún er í stjórn félagsins.

 

Fyrir leik Þórs/KA og Vals í Boganum í gær fékk Margrét Árnadóttir afhenta Þór/KA treyju með „100“ á bakinu þar sem hún hefur leikið yfir 100 leiki fyrir Þór/KA. Margrét hefur spilað 74 leiki í efstu deild, alla fyrir Þór/KA.

Miðað við núverandi uppsetningu á tölfræði leikja í gagnagrunni KSÍ og breytingu sem gerð var nýlega er Margrét komin í 112 leiki í deild, bikarkeppni, deildabikar, meistarakeppni og Evrópukeppni. Breytingin sem hefur orðið er að leikir í Lengjubikarnum eru komnir inn í töluna. Út frá þeirri tölfræði var 100. leikur Margrétar gegn Val á heimavelli þann 24. júlí í fyrra. Þar skoraði hún eina mark Þórs/KA í 1-3 tapi. Dæmið snerist við í gær, Margrét skoraði frábært mark á 75. mínútu og kom Þór/KA í 2-1, sem urðu lokatölur leiksins.

Tölurnar í dag eru eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Auk þessara 112 leikja hefur hún spilað 15 leiki og skorað tíu mörk í öðrum mótum, sem eru Kjarnafæðismótið og Faxaflóamótið, og á einnig að baki sjö leiki og þrjú mörk með yngri landsliðum Íslands.

Upplýsingar um Margréti á vef KSÍ.