Karfan er tóm.
Þór/KA sækir Vestmannaeyjar heim og mæta stelpurnar liði ÍBV í dag kl. 14 á Hásteinsvelli.
Bæði lið hafa unnið einn og tapað einum leik það sem af er móti. ÍBV vann Selfoss í fyrstu umferðinni, en Þór/KA sigraði Stjörnuna. Bæði liðin töpuðu síðan í 2. umferðinni.
Leikir þessara liða í fyrrasumar voru miklar markaveislur. ÍBV vann í Eyjum, 5-4, en jafntefli varð á Akureyri, 3-3. Sandra María Jessen skoraði tvö mörk í báðum leikjunum.
Bæði liðin hafa verið lengi í efstu deild og hafa mæst alls 26 sinnum í Landssímadeildinni, Landsbankadeildinni, Pepsi-deildinni, Pepsi Max-deildinni og Bestu deildinni. Þau hafa mæst á hverju ári í efstu deild frá 2011.
Hnífjafnt er í viðureignum liðanna í efstu deild. Þór/KA hefur unnið tíu sinnum, sex sinnum hefur orðið jafntefli og ÍBV hefur unnið tíu sinnum. ÍBV hefur þó skorað fimm mörkum meira í þessum leikjum. Þór/KA hefur þrívegis haft betur á Hásteinsvelli, 2018, 2019 og 2021.