Lokaleikir 3. flokks

 

Stelpurnar í 3. flokki í Þór/KA/Hömrunum spila lokaleiki sína í A-deild Íslandsmótsins á miðvikudaginn, 8. september, bæði A- og B-lið, gegn Breiðabliki/Augnabliki.

Þessir leikir áttu að fara fram í lok júní, en hefur tvívegis verið frestað vegna annarra verkefna.

A-liðið mætti ÍA/Skallagrími á Akranesi í gær og sigraði, 5-0. Tanía Sól Hjartardóttir skoraði tvö mörk, og þær Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir og Bríet Jóhannsdóttir eitt hver. Með sigrinum á Skaganum varð ljóst að A-liðið endar í 3. sæti A-deildar, en ljóst var fyrir leikinn að liðið ætti ekki möguleika á 2. sætinu. Liðin í tveimur efstu sætunum í A-deild fara í undanúrslit Íslandsmótsins.

B-liðið er sem stendur í 2. sæti í A-riðli og getur náð Val/KH að stigum með sigri í leiknum á miðvikudag.

Þar með lýkur öðru ári sameiginlegs liðs Akureyrarfélaganna í 3. flokki kvenna, undir merkjum Þórs/KA/Hamranna.