Lið vikunnar

Leikmenn Þórs/KA fagna marki Margrétar Árnadóttur, sem kom Þór/KA aftur í forystu í leiknum gegn Val…
Leikmenn Þórs/KA fagna marki Margrétar Árnadóttur, sem kom Þór/KA aftur í forystu í leiknum gegn Val. Mynd: Páll Jóhannesson.

 

Þór/KA á tvær í tölfræðiliði annarrar umferðar, tvær fengu tvö M hjá Mogga, tvær í liði vikunnar hjá Mogga.

Val á bestu leikmönnum hvers liðs, hvers leiks eða hverrar umferðar er að sjálfsöðu háð mati þess fjölmiðlafólks sem fylgist með leikjunum og lýsir þeim. En nú er einnig komin fram sú nýjung á vegum Bestu deildarinnar að velja lið vikunnar út frá tölfræðiþáttum.

Heimasíða Þórs/KA vill líka velja stuðningsfólkið okkar í lið vikunnar. Okkar fólk var magnað á pöllunum og á sinn þátt í sigrinum.

Tvær með tvö M

Í einkunnagjöf Morgunblaðsins fengu þær Harpa Jóhannsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir tvö M, og þær Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, Margrét Árnadóttir eitt M. Harpa kemst þó ekki í lið vikunnar, en er ásamt markverði Selfoss nefnd í textanum í Mogga - í „umferð markvarðanna“ eins og það er orðað.

Mynd af síðu Morgunblaðsins föstudaginn 6. maí:

Harpa og Tiffany hjá fotbolti.net

Í skýrslunni á fotbolti.net voru Harpa Jóhannsdóttir og Tiffany McCarty valdar bestar í leiknum.

Tiffany McCarty og Iðunn Rán Gunnarsdóttir voru valdar í sterkasta lið vikunnar hjá fotbolti.net, og þjálfararnir, Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson eru settir í að stýra því liði.

Þar er, eins og annars staðar, getið frammistöðu Hörpu í markinu. 

Sjá frétt á fotbolti.net

 .

Nýjung í sumar - tölfræði leikmanna

Besta deildin birti lið vikunnar byggt á tölfræðinni einni saman og þar eigum við tvo fulltrúa. Iðunn Rán Gunnarsdóttir er þar með 8,2 af 10 og Sandra María Jessen með 7.6.

Þótt ótrúlegt sé nær Harpa Jóhannsdóttir markvörður ekki inni í tölfræðilið vikunnar þrátt fyrir stórkostlega frammistöðu gegn Val. Markvörður Keflavíkur átti einnig stórleik gegn Breiðabliki og var hársbreidd fyrir ofan Hörpu í tölfræðieinkunn. Ætla má að í næstum hvaða annarri umferð sem er hefði frammistaða Hörpu dugað til að komast í lið umferðarinnar og líklega sem leikmaður umferðarinnar. 

Þetta lið er þó ekki síður athyglisvert fyrir það hvaða lið eiga ekki fulltrúa þarna heldur en hvaða lið eiga fulltrúa.