Karfan er tóm.
Lengjubikarinn fór vel af stað hjá okkar liði í gær þegar Þór/KA mæti liði ÍBV í Akraneshöllinni. Sjö marka sigur varð niðurstaðan. Margrét Árnadóttir skoraði þrennu í seinni hálfleik. Bríet Fjóla Bjarnadóttir skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark með fallegu skoti seint í leiknum.
Þór/KA hafði mikla yfirburði í leiknum og færin voru fjölmörg. Færanýtingin gekk ekki alveg sem skyldi í fyrri hálfleiknum, en tvö mörk litu dagsins ljós engu að síður. Amalía Árnadóttir komst ein inn fyrir vörn ÍBV á 34. mínútu eftir sendingu frá Karen Maríu, spilaði áfram inn í vítateig og kláraði færið vel. Nokkur léttir að hafa loksins náð að brjóta ísinn og aðeins þremur mínútum síðar skoraði svo Karen María með skoti úr vítateignum eftir að misheppnað skot Margrétar Árnadóttir breyttist í stoðsendingu.
Okkar konur komu af krafti út í Akraneshöllina eftir leikhléið og röðuðu inn mörkum á upphafsmínútunum, skoruðu þrjú mörk á fimm mínútum. Fyrst var það Margrét Árnadóttir sem skoraði með skalla eftir hornspyrnu, síðan Sandra María af stuttu færi inni á markteig tveimur mínútum síðar og svo Margrét Árnadóttir aftur þremur mínútum eftir það eftir að liðið hafði unnið boltann af Eyjakonum með góðri pressu.
Á 77. mínútu var svo komið að Bríet Fjólu Bjarnadóttur, en hún skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokksleik með fallegu skoti utan vítateigs. Bríet Fjóla hafði þá átt sendingu inn á teiginn þar sem Sandra María var á undan markverði ÍBV, Sandra lagði boltann síðan aftur út á Bríeti sem lskoraði með fallegu skoti. Aðeins annar leikurinn þar sem hún kemur við sögu í meistaraflokki.
Margrét kláraði svo þrennuna á 82. mínútu þegar hún og vann boltann af varnarmanni ÍBV og skoraði með fallegu skoti af um 25 metra færi yfir markvörð ÍBV og í fjærhornið.
Sannarlega verðskuldaður sigur sem hefði getað orðið mun stærri, en góð stemning í liðinu, leikgleði og kraftur. Hildur Anna Birgisdóttir var í byrjunarliðinu í gær, í fyrsta skipti í meistaraflokksleik, en hún og Bríet Fjóla spiluðu hvor sinn hálfleikinn.
Hildur Anna Birgisdóttir og Bríet Fjóla Bjarnadóttir. Hildur var í fyrsta skipti í byrjunarliði í meistaraflokki í gær og Bríet Fjóla skoraði sitt fyrsta mark með meistaraflokki.
ÍBV - Þór/KA 0-7 (0-2)
Næsti leikur liðsins í Lengjubikarnum verður í Boganum föstudaginn 16. febrúar þegar Víkingar koma norður.