Lengjubikar: Silfur eftir tap í úrslitaleik

Þór/KA lauk keppni í A-deild Lengjubikarsins þetta árið með tapi í úrslitaleik og silfurverðlaunum. Eftir sigur í riðli 1 vann liðið Stjörnuna í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum, en tapaði úrslitaleik gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. Það að tapa úrslitaleik byggir að sjálfsögðu á því að hafa unnið fyrir því að komast í úrslitaleikinn og þangað fóru aðeins tvö lið af 12 sem tóku þátt í riðlakeppni A-deildar Lengjubikarsins. 

Eftir slakan fyrri hálfleik þar sem Breiðablik náði tveggja marka forystu með mörkum á 3. og 24. mínútu komu leikmenn Þórs/KA mun ákveðnari og sterkari út í seinni hálfleikinn. Stelpurnar voru ágengar á vallarhelmingi andstæðinganna og létu finna vel fyrir sér. Það skilaði sér í nokkrum ágætum færum og marki á 56. mínútu þegar Sonja Björg Sigurðardóttir skallaði í markið eftir fyrirgjöf frá Kimberley Dóru Hjálmarsdóttur.

Því miður tókst ekki að fylgja þessum viðsnúningi eftir með fleiri mörkum, aftur á móti kom þriðja mark Breiðabliks um tíu mínútum eftir mark Sonju Bjargar. Þrátt fyrir áframhaldandi tilraunir það sem eftir lifði leiks tókst ekki að minnka muninn, en á móti kom glæsimark heimaliðsins í viðbótartíma og lokatölur því 4-1. Ekki beint lýsandi fyrir seinni hálfleikinn, en að því er ekki spurt þegar upp er staðið.

Breiðablik hirti gullið, en silfrið kom í hlut Þórs/KA. Til að tapa úrslitaleik þarftu auðvitað að vinna þér inn réttinn til þess að spila úrslitaleikinn og það höfðu okkar stelpur sannarlega gert með góðum leikjum og öflugum sigrum í riðlakeppninni og undanúrslitaleiknum. 

Breiðablik - Þór/KA 4-1 (2-0)

  • 1-0 - Samantha Smith (3').
  • 2-0 - Birta Georgsdóttir (24')
  • 2-1 - Sonja Björg Sigurðardóttir (56'). Stoðsending: Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir.
  • 3-1 - Bárbara Sól Gísladóttir (66').
  • 4-1 - Andrea Rut Bjarnadóttir (90+3').
  • Leikskýrslan (ksi.is)

Fróðleikur og tölur

  • 2 - Tvisvar á árunum 2009 til 2025 hefur Þór/KA ekki komist í undanúrslitin.
  • 2 - Tvisvar var riðlakeppni Lengjubikarsins ekki kláruð, árin 2020 og 2021, vegna heimsfaraldursins sem þá gekk yfir.
  • 2 - Tvisvar vann Þór/KA B-deild deildabikarsins, árin 2007 og 2008.
  • 4 - Þór/KA hefur fjórum sinnum farið í úrslit deildarbikarsins og tvisvar unnið. Félagið vann Lengjubikarinn 2009 og 2018, en tapaði í úrslitaleik 2023 fyrir Stjörnunni í vítaspyrnukeppni og svo gegn Breiðabliki í fyrrakvöld.
  • 5 - Sonja Björg Sigurðardóttir skoraði eina mark Þórs/KA í úrslitaleiknum, en hún og Sandra María Jessen skoruðu báðar fimm mörk í mótinu.
  • - Sex leikmenn komu við sögu í öllum sjö leikjum liðsins í Lengjubikarnum: Angela Mary Helgadóttir, Hulda Björg Hannesdóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Margrét Árnadóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir. Þrjár voru að auki á skýrslu í öllum sjö leikjunum en spiluðu ekki í þeim öllum, en það eru þær Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir, Emelía Ósk Krüger og Harpa Jóhannsdóttir. 
  • 7 - Margrét Árnadóttir hefur skorað flest mörk fyrir Þór/KA í Lengjubikarnum, sjö mörk í sjö leikjum. Hún skoraði sex mörk í riðlinum og eitt í undanúrslitaleiknum, auk þess að skora í vítaspyrnukeppni í undanúrslitunum. Margrét er einnig sá leikmaður Þórs/KA sem spilaði flestar mínútur í Lengjubikarnum, samtals 618 mínútur, auk viðbótartíma. Hún spilaði 90 mínútur í öllum leikjunum (auk viðbótartíma), nema í fyrsta leiknum í 9-0 sigri á Tindastóli þar sem hún spilaði 78 mínútur.
  • 9 - Þór/KA hefur níu sinnum tapað í undanúrslitum Lengjubikarsins.
  • 300 - Hulda Ósk Jónsdóttir hefur spilað 300 meistaraflokksleiki með þremur félögum, Völsungi, KR og Þór/KA. Leikirnir eru í A-deild, B-deild, bikarkeppni, deildarbikar, meistarakeppni KSÍ og Evrópukeppni, auk þriggja leikja í Reykjavíkurmóti. Leikirnir fyrir Völsung eru 17, þá 41 leikur með KR og síðan 242 fyrir Þór/KA.