Lengjubikar: Sigur í vítaspyrnukeppni og sæti í úrslitaleiknum

Fagnað í leikslok. Mynd: Skapti Hallgrímsson
- - -
Fagnað í leikslok. Mynd: Skapti Hallgrímsson
- - -

Úrslitaleikur Lengjubikarsins er fram undan hjá okkar liði eftir sigur á Stjörnunni í vítaspyrnukeppni í undanúrslitaleik liðanna sem fram fór í Boganum í gærkvöld. Jafnt var eftir 90 mínútna leik, 1-1, en Þór/KA hafði betur í vítaspyrnukeppni, 4-2. Þór/KA mætir Breiðabliki í úrslitaleik mótsins föstudaginn 28. mars kl. 18 á Kópavogsvelli. Varpað var hlutkesti í gærmorgun um það hvar úrslitaleikurinn færi fram.

Margrét Árnadóttir skoraði eina mark Þórs/KA í venjulegum leiktíma og leiddi Þór/KA 1-0 eftir fyrri hálfleikinn. Hrefna Jónsdóttir jafnaði fyrir Stjörnuna eftir rúmlega tíu mínútna leik í seinni hálfleiknum.

Þór/KA - Stjarnan 1-1 (1-0) - 4-2 í vítaspyrnukeppni

  • 1-0 - Margrét Árnadóttir (25'). Stoðsending: Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir.
  • 1-1 - Hrefna Jónsdóttir (56'). 
  • Leikskýrslan (ksi.is)

- - -

  • Vítaspyrnukeppnin:
  • 0-1 - Stjarnan - Andrea Mist Pálsdóttir
  • 1-1 - Þór/KA - Sonja Björg Sigurðardóttir
  • 1-2 - Stjarnan - Hulda Hrund Arnarsdóttir
  • 2-2 - Þór/KA - Karen María Sigurgeirsdóttir
  • 2-2 - Stjarnan - Skot í þverslá
  • 3-2 - Þór/KA - Margrét Árnadóttir
  • 3-2 - Stjarnan - Skot framhjá
  • 4-2 - Þór/KA - Hulda Björg Hannesdóttir


Sonja Björg Sigurðardóttir fékk annað tækifæri eftir að Vera Varis varði spyrnu hennar, en hafði að mati dómaranna farið af línunni áður en spyrnan var tekin. Sonja Björg skoraði af öryggi eins og sjá má. Mynd: Skapti Hallgrímsson.


Karen María Sigurgeirsdóttir var örugg í sínu víti og jafnaði í 2-2. Mynd Skapti Hallgrímsson.


Margrét Árnadóttir setti boltann nokkurn veginn í sömu möskvana í vítaspyrnunni og í markinu sem hún skoraði í fyrri hálfleik. Myndir: Skapti Hallgrímsson.


Hulda Björg Hannesdóttir kláraði dæmið fyrir Þór/KA, úrslitin 4-2. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Tölur og fróðleikur

  • 153 - Áhorfendur á leik Þórs/KA og Stjörnunnar voru 153, samkvæmt talningu gæslumanna í upphafi seinni hálfleiks. Þór/KA er það knattspyrnulið Akureyrar sem nær enn og aftur lengst í Lengjubikarnum, spilaði í gærkvöld undanúrslitaleik og tryggði sér sæti í úrslitaleiknum. Því miður þykir meginþorra knattspyrnuáhugamanna mun sjálfsagðara að mæta á leiki karlaliða, óháð árangri, en leiki kvennaliða. Þetta á ekki aðeins við um Akureyri. Hér þarf hugarfarsbreytingu. Svo einfalt er það.
  • 190 - Margrét Árnadóttir spilaði sinn 190. meistaraflokksleik samanlagt í KSÍ mótum, Evrópukeppni og Seríu A á Ítalíu. Þar af eru 185 fyrir Þór/KA.
  • 200 - Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði sinn 200. meistaraflokksleik, samanlagt í KSÍ mótum og Evrópukeppni. Þar af eru 148 leikir fyrir Þór/KA, 28 fyrir Breiðablik og 11 fyrir Hamrana.

Litið um öxl: Þór/KA - Stjarnan 2-2 (24.04.2018)

Leikurinn í gærkvöld var ekki fyrsta jafntefli Þórs/KA og Stjörnunnar eftir 90 mínútna leik í Lengjubikarnum og ekki fyrsta vítaspyrnukeppnin á milli þessara liða. Þór/KA og Stjarnan mættust í úrslitaleik Lengjubikarsins 24. apríl 2018, einnig í Boganum. Eftir 90 mínútna leik var staðan jöfn 2-2.

Fjórar úr byrjunarliði Þórs/KA í úrslitaleiknum 2018 tóku þátt í leiknum í gærkvöld. Hulda Ósk Jónsdóttir, Margrét Árnadóttir og Hulda Björg Hannesdóttir byrjuðu báða þessa leiki fyrir Þór/KA, Andrea Mist Pálsdóttir byrjaði leikinn 2018 fyrir Þór/KA og kom inn á í seinni hálfleik fyrir Stjörnuna í gærkvöld. Anna María Baldursdóttir byrjaði báða leikina fyrir Stjörnuna. 

Ýmislegt hafði gengið á í leiknum áður en kom að vítaspyrnukeppninni. Helena Jónsdóttir, markvörður Þórs/KA, meiddist og þurfti að fara af velli á 9. mínútu eftir að Katrín Ásbjörnsdóttir, fyrrum leikmaður Þórs/KA, hafði skorað fyrir Stjörnuna. Inn kom Sara Mjöll Jóhannsdóttir sem átti eftir að setja mark sitt á leikinn. Tveimur mínútum eftir markvarðaskiptinguna hjá Þór/KA fékk aðstoðarþjálfari Stjörnunnar rautt spjald. Leiknum var streymt á YouTube, en eitthvað var tæknin að stríða á upphafsmínútum útsendingarinnar og takmarkað sem hægt er að sjá af dramanu í byrjun leiks.

Harpa Þorsteinsdóttir jók forystuna í tvö mörk fyrir Stjörnuna á 27. mínútu þegar hún pressaði Söru Mjöll í markinu, vann af henni boltann og renndi honum í markið. Til gamans má geta þess að eiginmaður hennar, Akureyringurinn Jóhannes Karl Sigursteinsson, er núverandi þjálfari Stjörnunnar. Sara Mjöll vissi það ekki þá, en hún átti eftir að ná fram hefndum gegn Hörpu og Stjörnuliðinu.

Á 31. mínútu minnkaði Stephany Mayor muninn í 1-2 með marki úr vítaspyrnu. Brotið var á Margréti Árnadóttur, örlagavaldinum í leik liðanna í gærkvöld, og vítaspyrna dæmd. Hér má sjá vítið: 

Eftir um 20 mínútna leik í seinni hálfleik fékk varnarmaðurinn Bianca Sierra að líta gula spjaldið eftir að hafa gert athugasemd við dómgæslu þegar brotið var á Stephany Mayor. Bianca klappaði fyrir dómaranum þegar hún fékk gula spjaldið, eða það gefur dómarinn til kynna þegar leikmenn leituðu skýringa, og uppskar annað í sama lit og rautt í framhaldinu því gulur plús gulur er rauður. Dómari leiksins var reyndar sá sami og var varadómari í leik liðanna í gærkvöld.

Aðdragandinn að rauða spjaldinu:

Um 13 mínútum eftir brottvísunina fékk Þór/KA horn. Andrea Mist Pálsdóttir, sem í dag er leikmaður Stjörnunnar, tók hornspyrnuna og gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr hornspyrnunni, sendi boltann í hliðarnetið fjær og jafnaði leikinn í 2-2. „Þvílík löpp,“ sagði hinn geðþekki Pétur Heiðar Kristjánsson, sem lýsti leiknum í YouTube-streyminu. Þór/KA búið að jafna í 2-2, einum færri. Þar við sat, jafnt eftir 90 mínútna leik og gripið til vítaspyrnukeppni, eins og í leiknum í gærkvöld.

Í vítaspyrnukeppninni var það Sara Mjöll Jóhannsdóttir, sem áður var nefnd, sem reyndist örlagavaldurinn. Hún náði ekki aðeins að skáka vítaskyttum Stjörnunnar heldur bjargaði hún einnig vel í viðbótartíma seinni hálfleiks, á 94. mínútu, með frábærri tæklingu vel utan við vítateig og hélt lífi í liðinu sínu.

Reyndir leikmenn klikkuðu á vítunum

  • 0-0 - Stjarnan hóf vítaspyrnukeppnina, eins og í gærkvöld. Leikmaður nr. 26, Harpa Þorsteinsdóttir, tók fyrstu spyrnuna, en Sara Mjöll varði.
  • Í gærkvöld var það einnig leikmaður nr. 26, Andrea Mist Pálsdóttir, sem tók fyrstu spyrnu vítaspyrnukeppninnar.
  • 1-0 - Arna Sif Ásgrímsdóttir náði forystunni með fyrstu vítaspyrnunni fyrir Þór/KA.
  • 1-1 - Annað víti Stjörnunnar tók Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, sem vissi ekki þá að ári seinna yrði hún leikmaður Þórs/KA. Þórdís Hrönn skoraði af öryggi.
  • 2-1 - Næstu spyrnu fyrir Þór/KA tók bandarísk/mexíkóski miðjumaðurinn Ariana Calderon og skoraði af öryggi.
  • 2-2 - Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði úr þriðju spyrnu Stjörnunnar.
  • 3-2 - Þá var komið að Lillý Rut Hlynsdóttur, sem setti boltann alveg út við stöng hægra megin. Þór/KA enn í bílstjórasætinu.
  • 3-2 - Lára Kristín Pedersen tók fjórðu vítaspyrnu Stjörnunnar, en Sara Mjöll varði auðveldlega. Eins og með Þórdísi Hrönn þá vissi Lára Kristín það ekki þá að ári seinna yrði hún leikmaður Þórs/KA.
  • 4-2 - Lára Einarsdóttir mætti næst á punktinn og skoraði öruggilega - Lengjubikarinn tryggður.
  • Sömu niðurstöðutölur úr báðum vítaspyrnukeppnunum, Þór/KA vann 4-2. Í gær var spilað um að komast í úrslitaleikinn, en í apríl 2018 var spilað um sigur í mótinu.

 

Vítaspyrnukeppnin á YouTube: