Karfan er tóm.
Það verður bongó, borgari og bolti hjá okkur laugardaginn 28. maí. Þór/KA mætir Haukum í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarins. Við hitum upp í Hamri frá kl. 13.
Upphitunin verður þó sennilega utanhúss ef veðurspár ganga eftir því það verður bongó á Akureyri ef marka má spár. Í boði eru borgari og drykkur á 1.500 krónur, en einnig verður hægt að kaupa miða í happdrætti meistaraflokks á 2.000 krónur (eða þrjá á 5.000 kr.).
Þjálfararnir, Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, líta upp frá undirbúningi leiksins og kíkja á stuðningsfólk í Hamri kl. 13:05, ræða liðið, leikinn og lífið.
Miðaverð á leikinn er eins og í deildinni, 2.000 krónur fyrir fullorðna. Vakin er athygli á að árskortin gilda ekki á bikarleiki.
Þessi lið hafa mæst átta sinnum alls í öllum mótum. Sex sinnum hefur Þór/KA sigrað og tvisvar orðið jafntefli. Liðin hafa einu sinni mæst í bikarkeppninni, en það var í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar þann 3. september 2020. Þór/KA vann þann leik, 3-1, og fór áfram í undanúrslit, en því miður var mótið blásið af vegna heimsfaraldursins áður en undanúrslitin fóru fram.