Kjarnafæðimótið: Öruggur sigur í sögulegum leik

Tilbúnar í leikinn.
Tilbúnar í leikinn.

Þór/KA2 mætti liði Tindastóls í fyrsta leik kvennadeildar Kjarnafæðimótsins í Boganum í gær og vann fimm marka sigur.

Okkar lið var skipað stelpum sem fæddar eru á árunum 2006-2010 og voru sumar þeirra að stíga sín fyrstu spor í meistaraflokksleik þó mótið sem slíkt sé ekki viðurkennt eða haldið af KSÍ og leikirnir því ekki opinberir meistaraflokksleikir þannig séð. Bríet Fjóla Bjarnadóttir (2010) kom við sögu í einum leik í Bestu deildinni í sumar, en í gær var hún í byrjunarliðinu hjá Þór/KA2 og skoraði tvö mörk. Liðið spilaði í aðalbúningi meistaraflokks og skemmtileg tilviljun að Bríet Fjóla fór í treyju númer tíu sem Sandra María Jessen notar að jafnaði.

Fjórar af þeim sem spiluðu í gær komu þar við sögu í fyrsta skipti með meistaraflokki. Tinna Sverrisdóttir (2007) stóð í markinu allan leikinn og þrjár aðrar komu inn sem varamenn, Eva S. Dolina-Sokolowska (2008), sem skoraði sjötta mark liðsins, Aníta Ingvarsdóttir (2009) og Ragnheiður Sara Steindórsdóttir (2009).

Þór/KA2 - Tindastóll 6-1 (2-0)

  • 1-0 Bríet Fjóla Bjarnadóttir (11')
  • 2-0 Ólína Helga Siþórsdóttir (35')
  • 3-0 Hildur Anna Birgisdóttir (49')
  • 4-0 Bríet Fjóla Bjarnadóttir (63')
  • 5-0 Amalía Árnadóttir (72')
  • 5-1 Birgitta Rún Finnbogadóttir (79')
  • 6-1 Eva S. Dolina-Sokolowska (90+3')


Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir og Leyla Ósk Jónsdóttir viðbúnar því að boltinn komi upp hægri kantinn. 

Það voru ekki aðeins knattspyrnukonurnar inni á vellinum sem voru að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki heldur var annar aðstoðardómaranna í sínu fyrsta verkefni í dómgæslu í meistaraflokki. Ekki nóg með það heldur dæmdi faðir hennar leikinn. Okkur ekki kunnugt um hvort þetta er í fyrsta skipti sem feðgin dæma saman leik hér á landi, en klárlega var þetta í fyrsta skipti í sögu mótshaldaranna, Knattspyrnudómarafélags Norðurlands, sem slíkt gerist. Þetta voru þau Leyla Ósk Jónsdóttir og Zakir Jón Gasanov, en Leyla Ósk er aðeins 14 ára, fædd 2009.


Dómaratríóið: Leyla Ósk Jónsdóttir, Zakir Jón Gasanov og Sveinn Þórður Þórðarson.


Varamenn Þórs/KA2. Eva S. Dolina-Sokolowska, Ragnheiður Sara Steindórsdóttir, Aníta Ingvarsdóttir, Katla Bjarnadóttir, Rut Marín Róbertsdóttir og Arna Rut Orradóttir.

Þetta var eini leikurinn sem fram fer í kvennadeild mótsins fyrir áramót, en fyrsti leikur hjá hinu Þór/KA-liðinu er áformaður sunnudaginn 7. janúar gegn FHL, samkvæmt leikjadagskrá mótsins. Næsti leikur hjá Þór/KA2 er einnig gegn FHL og er á dagskrá sunnudaginn 21. janúar.

Fleiri myndir úr leiknum má finna á Facebook-síðu Þórs/KA.