Karfan er tóm.
Þór/KA fór upp að hlið Þórs/KA2 á toppi kvennadeildar Kjarnafæðimótsins með 4-0 sigri á Tindastóli í gær. Bæði lið eru með níu stig og mætast í lokaleik deildarinnar.
Þrátt fyrir mörg ágæt tækifæri leit aðeins eitt mark dagsins ljós í fyrri hálfleik. Sandra María Jessen skoraði þá af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Karen Maríu Sigurgeirsdóttur.
Annað mark liðsins kom ekki fyrr en eftir tæplega klukkutíma leik, eða á 57. mínútu, og var áþekkt því fyrsta. Agnes Birta Stefánsdóttir skoraði þá af stuttu færi eftir hornspyrnu Karenar Maríu. Margrét Árnadóttir bætti við þriðja markinu tíu mínútum síðar og enn var það Karen María sem átti stoðsendinguna, sína þriðju í þessum leik og þá sjöundu í mótinu. Fjórða markið kom svo undir lokin þegar Sandra María fór upp vinstri kantinn, sendi boltann fyrir markið, en boltinn fór af varnarmanni Tindastóls í markið.
Tindastóll - Þór/KA 0-4 (0-1)