Jafntefli í markaveislu

Margrét Árnadóttir og Tiffany McCarty fagna marki Margrétar þegar hún skoraði með glæsilegum skalla …
Margrét Árnadóttir og Tiffany McCarty fagna marki Margrétar þegar hún skoraði með glæsilegum skalla eftir aukaspyrnu frá Andreu Mist Pálsdóttur og kom Þór/KA í 3-2. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

 

Þór/KA og KR gerðu 3-3 jafntefli í 9. umferð Bestu deildarinnar í kvöld. Þór/KA endar fyrri hluta mótsins í 8. sæti deildarinnar með 10 stig.

KR-ingar komust yfir strax á 5. mínútu með marki eftir hornspyrnu. Sandra María Jessen jafnaði þegar um 30 mínútur voru liðnar af leiknum, en aftur komust gestirnir yfir fyrir leikhlé og staðan 1-2 þegar leikmenn gengu til klefa.

Markaveislunni var ekki lokið og tvær aukaspyrnur frá Andreu Mist Pálsdóttur skiluðu mörkum og Þór/KA náði forystunni, 3-2. Fyrst var það Arna Eiríksdóttir sem jafnaði leikinn með góðum skalla eftir aukaspyrnu frá Andreu Mist og síðan Margrét Árnadóttir, einnig með skalla eftir aukaspyrnu frá Andreu Mist. Tvö frábær mörk eftir frábærar aukaspyrnur.

Þessi forysta var hins vegar tekin af Þór/KA-stelpum þegar dæmd var vítaspyrna undir lok leiksins. KR-ingar jöfnuðu úr vítaspyrnunni og þannig endaði leikurinn, 3-3 jafntefli, sem gerir lítið fyrir bæði liðin. 

Þór/KA endar því fyrri helming Bestu deildarinnar með 10 stig og færist niður í 8. sæti, en Keflavík er einnig með 10 stig og betri markatölu.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Staðan í deildinni, úrslit leikja og leikjadagskrá á vef KSÍ.

Myndasafn - Egill Bjarni Friðjónsson