Karfan er tóm.
Þór/KA mætir Val í 2. umferð Bestu deildarinnar í Boganum í kvöld kl. 18.
Valur mætti Þrótti í fyrstu umferðinni og hafði 2-0 sigur. Þór/KA fór á Kópavogsvöll og mátti þola 4-1 tap fyrir Breiðabliki.
Í byrjunarliði Vals í leiknum gegn Þrótti voru fimm leikmenn sem ýmist koma frá Þór/KA eða hafa á einhverjum tímapunkti leikið með liðinu. Þetta eru þær Sandra Sigurðardóttir (Þór/KA/KS 2001-2004), Arna Sif Ásgrímsdóttir, sem fór að loknu tímabilinu 2021, en hafði áður spilað með Val 2016-2017, Anna Rakel Pétursdóttir, sem fór frá Þór/KA til Svíþjóðar haustið 2018 og þaðan í Val 2021. Lára Kristín Pedersen og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir spiluðu með Þór/KA 2019 en eru núna báðar hjá Val.
Eins og fram hefur komið hér á síðunni hafa félögin og Arna Eiríksdóttir samið um að Arna leiki með Þór/KA í sumar á lánssamningi. Í því felst meðal annars að Arna hefur ekki heimild til að spila leikina gegn Val. Það er því ljóst að þjálfarar Þórs/KA þurfa að gera að minnsta kosti eina breytingu frá leiknum við Breiðablik, en þar kom Arna beint inn í byrjunarliðið og stóð sig með prýði.
Vakin er athygli á að undanþágu þurfti frá KSÍ til að fá að spila leikinn í Boganum og í tengslum við það eru að ýmsu leyti strangari reglur hvað varðar áhorfendasvæði, umferð áhorfenda og fleira. Þetta er þó ekki flókið, en helstu atriði sem hafa þarf í huga er að áhorfendur fari ekki inn á öryggissvæðið (grasið) við hliðarlínuna heldur haldi sig á tartanefninu. Áhorfendur mega ekki vera við enda vallarins, aðeins í stúkunum að vestanverðu.
Gæslufólk mun jafnframt hindra för áhorfenda við útgöngudyr á ákveðnum tímum, það er þegar dómarar og liðin ganga til leiks og til klefa í leikhléi og að loknum leik. Umferð um undirgöngin milli Bogans og Hamars er eingöngu leyfileg leikmönnum, dómurum og starfsfólki leiksins. Áhorfendum er óheimilt að fara inn á leikvöllinn í leikhléinu. Þetta eru ekki flóknar reglur fyrir fólk sem hefur sótt kappleiki undanfarini tvö ár á tímum covid-takmarkana.
Því miður tókst ekki að hafa árskortin tilbúin fyrir stuðningsmannakvöldið í gær, en kortin verða til afhendingar við innganginn fyrir leikinn í dag – og að sjálfsögðu einnig til sölu fyrir þau sem ekki hafa nú þegar náð sér í árskort. Árskortið kostar 15.000 krónur. Innifalið í árskortinu er aðgangur á alla heimaleiki liðsins í Bestu deildinni (ekki í bikarkeppninni) og fyrir tvo leiki einnig hamborgari og drykkur.
Miðaverð á stakan leik er 2.000 krónur fyrir fullorðna, en frítt er fyrir börn. Miðasala í Stubb-appinu og við innganginn.
Stuðningsfólk er hvatt til að fjölmenna í Bogann og láta vel í sér heyra. Öflugur stuðningur úr stúkunni skiptir máli.
Staðan, úrslit og leikjadagskrá á vef KSÍ.