Karfan er tóm.
Stelpurnar okkar í 2. flokki U20, þar sem liðið heitir Þór/KA/Völsungur/THK, tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn þó liðið eigi enn eftir einn leik í A-deildinni. Síðar í mánuðinum taka stelpurnar á móti liði Selfoss í úrslitaleik bikarkeppni 2. flokks U20. Nokkrar af þeim sem komið hafa við sögu í leikjum liðsins í sumar voru að vinna Íslandsmeistaratitil saman með liðum frá Þór/KA fjórða árið í röð og nokkrar þriðja árið í röð.
Fyrir leikinn í dag voru tvö lið í þeirri stöðu að eiga möguleika á að vinna mótið, en Þór/KA/Völ/THK hefði þó nægt eitt stig úr síðustu tveimur leikjunum. Fyrir leikinn í dag var okkar lið með 30 stig og Selfoss með 28 og á einn leik eftir. Af tveimur tapleikjum okkar liðs það sem af er kom einmitt annar á móti Selfossi á útivelli. En stelpurnar okkar voru ekkert á því að ná sér aðeins í eitt stig í dag heldur vildu þær öll þrjú stigin, eins og alltaf.
Það var vissulega smá spenningur í loftinu í Boganum þegar leikur hófst enda gerðu bæði leikmenn og aðstandendur sér grein fyrir því að sigur þýddi að liðið væri búið að vinna titilinn. Ekki gott að segja hvort taugarnar spiluðu inn í færanýtinguna, en lengst af gekk liðinu illa að koma boltanum í mark Víkinga þrátt fyrir að skapa sér mörg góð tækifæri til þess. Það tókst þó einu sinni í fyrri hálfleik, en síðan var bið eftir fleiri mörkum.
Mörkin létu bíða eftir sér
Fyrsta markið kom á 37. mínútu þegar Bryndís Eiríksdóttir fékk boltann á miðjunni eftir útspark Víkinga og átti flotta stungusendingu inn á teiginn þar sem Eva S. Dolina-Sokolowska var mætt og afgreiddi boltann í netið. Þetta var eina mark fyrri hálfleiksins og raunar eina markið í venjulegum leiktíma því staðan var 1-0 alveg fram í viðbótartíma í seinni hálfleik. Fyrr vildi boltinn ekki aftur í markið þrátt fyrir fjölmörg góð færi.
Bríet Fjóla Bjarnadóttir er næstmarkahæst í A-deild 2. flokks U20 með tíu mörk í 13 leikjum í sumar. Mynd: Ármann Hinrik.
Bryndís Eiríksdóttir lét sér ekki nægja að eiga stoðsendingu heldur bætti hún við öðru markinu með skalla eftir hornspyrnu frá Anítu Ingvarsdóttur. Þriðja markið kom svo skömmu síðar þegar Anna Guðný Sveinsdóttir átti fyrirgjöf frá hægri, eftir að hún fékk boltann frá áðurnefndri Bryndísi. Ísey Ragnarsdóttir var mætt inn á teiginn, hirti fyrirgjöfina og skallaði boltann í markið.
Þriggja mynda syrpa af marki Bryndísar Eiríksdóttur á 90. mínútu. Myndir: Ármann Hinrik.
Með sigrinum tryggði liðið sér Íslandsmeistaratitilinn þó það eigi enn einum leik ólokið. Þór/KA/Völsungur/THK er komið í 33 stig, hefur spilað 13 leiki, unnið 11 og tapað tveimur. Selfyssingar eru í 2. sæti með 28 stig og eiga einn leik eftir og geta því ekki náð okkar liði að stigum.
Þetta er annað árið í röð sem lið frá Þór/KA vinnur Íslandsmeistaratitilinn í 2. flokki U20. Í fyrra hét liðið Þór/KA/Völsungur, en í ár bættust Tindastóll, Hvöt og Kormákur við (THK)
Þór/KA/Völsungur/THK - Víkingur 3-0 (1-0)
Nánar verður farið yfir ýmsar tölur og fróðleik í mótum sumarsins eftir að þeim lýkur. Tökum samt aðeins forskot á talnafróðleikinn.
Emelía Ósk Krüger fyrirliði fer framhjá leikmanni Víkings. Mynd: Ármann Hinrik.
Fyrirliðinn Emelía Ósk Krüger lyftir bikarnum og liðsfélagarnir fagna með. Mynd: Ármann Hinrik.
Tvær af þeim sem hafa unnið saman Íslandsmeistaratitla með liðum Þórs/KA fjögur ár í röð, Emelía Ósk Krüger og Bríet Jóhannsdóttir. Mynd: Ármann Hinrik.
Tinna Sverrisdóttir markvörður er vön að meðhöndla verðlaunagripi. Mynd: Ármann Hinrik.
Leiknum var streymt á YouTube-rás Þórs/KA, en þó náðist ekki að hefja útsendingu fyrr en eftir að leikurinn var hafinn. Dálitlir tækniörðugleikar komu niður á gæðum útsendingarinnar og af einhverjum ókunnum ástæðum datt hljóðið út þegar langt var liðið á leikinn. En hér er hægt að sjá næstum allan leikinn ásamt verðlaunaafhendingunni.