Karfan er tóm.
Sandra María Jessen spilaði allan leikinn þegar Ísland vann Wales á Laugardalsvelli á föstudag í fyrsta leik liðsins í nýrri Þjóðadeild. Hún verður aftur í eldlínuni með landsliðinu í kvöld þegar Ísland mætir Þýskalandi á útivelli.
Byrjunarliðið gegn Þýskalandi hefur verið tilkynnt og þar er Sandra María aftur á meðal þeirra 11 sem hefja leikinn.
Leikur Íslands og Þýskalands hefst kl. 16:15 og verður í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.
Þór/KA átti þrjá, eiginlega fjóra, fulltrúa í U23 landsliðinu sem fór til Marokkó og mætti liði heimakvenna í tveimur æfingaleikjum í Rabat.
Hulda Björg Hannesdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir voru valdar í þann hóp, ásamt Maríu Catharinu Ólafsdóttur Gros, sem nú leikur með Fortuna Sittard í Hollandi.
Þær komu allar mikið við sögu í báðum leikjunum. Markalaust jafntefli varð í seinni leiknum í gær, en Ísland vann fyrri leikinn 3-2. Karen María skoraði eitt markanna og Jakobína átti stoðsendingu í einu markanna.
Við áttum einnig fjóra fulltrúa í U19 landsliðinu sem hélt til Noregs og mætti Norðmönnum og Svíum í æfingamóti. Liðið tapaði 2-3 fyrir Svíum og 1-3 fyrir Norðmönnum. Iðunn Rán Gunnarsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir voru í byrjunarliðinu í báðum leikjum. Steingerður Snorradóttir var í byrjunarliðinu í fyrri leiknum, en hún og Amalía Árnadóttir komu inn sem varamenn í seinni leiknum.