Karfan er tóm.
Ísfold Marý Sigtryggsdóttir er ein fimm kvenna sem tilnefndar eru í kjöri á íþróttakonu KA fyrir árið 2023.
Ísfold Marý verður tvítug á árinu og hefur leikið 79 meistaraflokksleiki í mótum á vegum KSÍ, þar af 72 með Þór/KA og sjö með Hömrunum. Hún á að baki 54 leiki í efstu deild með Þór/KA. Landsleikirnir með U19, U18 og U15 eru samtals 15.
Kjörinu verður lýst á 96 ára afmæli KA.
Í umsögn um hana segir á vef KA:
Ísfold Marý átti gott tímabil með Þór/KA sem endaði í 6. sæti í Bestudeildinni. Hún er vel spilandi og fjölhæfur leikmaður sem getur leyst hvaða stöðu sem er mjög vel eins og kom á daginn í sumar þar sem hún spilaði í bæði öftustu og fremstu línu.
Hún var einnig öflug fyrir yngri landslið Ísland en þar var hún í sterku U19 ára sem tók þátt í lokakeppni EM í Belgíu. Þar tók hún þátt í öllum leikjum liðsins og endaði hún og liðsfélagar hennar í 5.-6. sæti. Sá góði árangur gaf þeim umspilsleik um sæti á lokakeppni HM U20. Hún tók þátt í þeim leik gegn Austuríki sem tapaðist.