Í lok tímabilsins 2024 – Jóhann Kristinn Gunnarsson skrifar

Jóhann Kristinn Gunnarsson. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.
- - -
Jóhann Kristinn Gunnarsson. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.
- - -

Þá er löngu og ströngu tímabili lokið og gerði Þór/KA sér glaðan dag í gærkvöldi til að gera upp árið. Viðurkenningar, frábært lokahófsskaup leikmanna, glæsilegur matur og allt eins og best verður á kosið. Stjórn og sjálfboðaliðar aðrir unnu frábærlega að öllu svo leikmenn og þjálfarar gætu endað tímabilið á góðu nótunum. Takk öll fyrir gott kvöld!

Síðasti kaflinn á tímabilinu sjálfu gekk ekki nógu vel hjá okkur í Þór/KA. Við náðum of fáum góðum úrslitum og fylgdum því ekki eftir góðu gengi framan af sumri. Margir tala um vonbrigði og það er bara allt í góðu. Þá vitum við að það er verið að gera eitthvað rétt í Þór/KA. Þegar væntingar og kröfur um að vera í toppbaráttu á öllum vígstöðvum eru orðnar miklar þýðir það bara að stelpurnar hafa unnið sér inn þá virðingu og eru komnar á þann stall í boltanum.

Það liggur mikil vinna að baki liðinu og þeim uppgangi sem er í gangi hjá Þór/KA. Stjórn, sjálfboðaliðar, foreldrar og starfsteymið allt hefur gert alveg frábæra hluti. Það er allt á uppleið og stelpurnar hafa verið alveg stórkostlegar í þessu öllu saman. Lagt alveg óhemju mikið á sig.

Endaspretturinn olli okkur í liðinu vonbrigðum og það er sárt að ná ekki að klára mótið með stæl eins og við ætluðum að gera. Fyrir fólkið okkar, áhorfendur, stuðningsfólk og styrktaraðila. Breiðablik urðu verðskuldað íslandsmeistarar og óskum við þeim til hamingju með það. Glæsilegt sumar hjá þeim. Víkingar, nýliðar í deildinni enda í 3.sæti á sínu fyrsta tímabili og það er stórkostlegur árangur. Innilegar hamingjuóskir til þeirra með frábært sumar.

Um leið og við lítum um öxl og minnumst sigra og glæsilegra kafla í mótinu þá ætlum við ekki að gleyma okkur í að tína bara hið jákvæða til. Þó nú taki við verðskulduð og langþráð pása þá eru allir í Þór/KA staðráðnir í að nota sér þessa tilfinningu sem var ríkjandi eftir lokaflautið í síðasta leik tímabilsins. Hún verður bensín á þá vinnu sem hefst eftir pásuna. Hún verður drifkrafturinn ásamt metnaði og hungri í meira til að leggja enn meira á sig til að færa liðið sitt ofar. Koma Þór/KA enn hærra.

Umgjörð og umhverfi í Þór/KA er enn að batna og er að verða það gott að leikmenn sækjast í að vera hér og jafnvel koma hingað til að bæta sig og ná árangri. Það er markmið Þór/KA að gera enn betur í þeim efnum. Það er allt hægt ef samtakamátturinn er beislaður á þann hátt að fólk og félög leggja saman krafta sína til að gera kvennaliðinu á Akureyri enn hærra undir höfði. Það á að vera keppikefli okkar hér að stækka og efla kvennaliðið okkar fyrir þær stelpur sem eru í boltanum og eru á leiðinni upp í meistaraflokkinn. Fyrir alla. Stelpur á öllum aldri í fótbolta eiga það skilið að við gerum eins vel í þessum málum og við mögulega getum.

Það eru allir að gera það sem þeir geta í starfinu. Ég vil þakka öllum kærlega fyrir allt sem þeir hafa gert fyrir Þór/KA á árinu. Leikmönnum sérstaklega og samstarfsfólki, stjórn, styrktaraðilum og sjálfboðaliðum. Við vitum að við getum enn betur og við ætlum okkur það. Það efast enginn hér um að við getum komið Þór/KA í toppbaráttu í öllum keppnum. Efniviðurinn hér er mikill og liðið samheldið og sterkt.

Þrátt fyrir fyrirsagnir og viðtöl í tilfinningahita eftir lokaflaut í leikjum sumarsins þá vörpum við ekki ábyrgð á gengi okkar yfir á neinn annan en okkur sjálf. Hvorki þjálfari né leikmenn. Leikmenn gera alltaf allt sem þeir geta og ég veit að þeim svíður sárt að geta ekki alltaf sýnt frábæra leiki, frábærar frammistöður. Þjálfarinn ber svo ábyrgð á gengi liðsins og það skal skýrt tekið fram að hvorki starfsmenn leiksins (dómarar) né aðrir í kringum fótboltann bera einhverja meiri ábyrgð á útkomu leikjanna okkar en þjálfarinn. Oft erum við ósátt við eitthvað. En þegar allt kemur til alls þá snýst þetta um að taka ábyrgð, rýna hvað við getum gert betur – og gera svo betur næst.

Við eigum frábært lið, frábæra einstaklinga sem hafa verið að sópa til sín verðlaunum (mörk, besti leikmaður, stoðsendingar) og liðsheild sem er að mínu mati einstök á landinu. Þetta er ekki sjálfsagt og að baki þessu öllu saman liggur mikil og þrotlaus vinna.

Nú njóta leikmenn þess að geta andað léttar, hvílt þreytta skrokka og hugsa um eitthvað annað en fótbolta um stund. Þær eiga það skilið eftir langa törn.

Kærar þakkir öll sem eitt aftur og enn fyrir tímabilið 2024 hjá Þór/KA. Með von um að fá enn fleiri að starfinu fyrir næsta tímabil og enn fleiri á völlinn. Við ætlum okkur stóra hluti og við vitum að við getum náð háleitum markmiðum okkar. Það gerum við ef allir leggjast á eitt. Félög, fólk og fyrirtæki.

Við förum hærra saman.

Áfram Þór/KA!

Hér er Jóhann Kristinn ásamt flestum þeim sem komu að þjálfun og öðrum störfum í kringum meistaraflokk og yngri flokka Þórs/KA. Frá vinstri: Margrét Árnadóttir, Björk Nóadóttir, Hannes Bjarni Hannesson, Iðunn Elfa Bolladóttir, Sigurbjörn Bjarnason, Jóhann Kristinn Gunnarson, Jóhann Hreiðarsson og Hulda Björg Hannesdóttir. Á myndina vantar Pétur Heiðar Kristjánsson, Aron Birki Stefánsson, Ölmu Sól Valdimarsdóttur og Taníu Sól Hjartardóttur.

Næstum öll stjórnin samankomin á lokahófi félagsins. Birgir Örn Reynisson, Kristín Elva Viðarsdóttir, Dóra Sif Sigtryggsdóttir, Guðrún Una Jónsdóttir og Steinunn Heba Finnsdóttir. Á myndina vantar Nönnu Björnsdóttur.

Jóhann Kristinn Gunnarsson ásamt þremur úr þjálfarateyminu í leik í sumar. Frá vinstri: Jóhann Hreiðarsson, Jóhann Kristinn Gunnarssson, Pétur Heiðar Kristjánsson og Aron Birkir Stefánsson. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.