Hulda Björg Hannesdóttir með 200 leiki í meistaraflokki

Leikur  Huldu Bjargar Hannesdóttur gegn Keflavík í gær var hennar 200. leikur í meistaraflokki þegar talin eru mót á vegum KSÍ (Íslandsmót, bikarkeppni, deildabikar, meistarakeppni) og Evrópuleikir. Af þessum 200 leikjum eru 140 í efstu deild Íslandsmótsins. Hulda Björg hefur leikið allan sinn meistaraflokksferil fyrir Þór/KA.

Hulda Björg er fædd árið 2000 og spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki í Lengjubikarnum 2016, þá á 16. ári og undir stjórn sama þjálfara og stýrir liðinu núna, Jóhanns Kristins Gunnarssonar. Fyrstu mínúturnar í meistaraflokksleik voru í 2-0 sigri á Selfyssingum í Boganum 19. mars 2016. Hún kom þá inn sem varamaður og spilaði rúman hálftíma. Þó rúm átta ár séu liðin frá þeim leik voru þá í leikmannahópi Þórs/KA fjórar ásamt Huldu Björg sem voru í byrjunarliði félagsins í leiknum í Keflavík í gær. Þetta eru þær Harpa Jóhannsdóttir, Margrét Árnadóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir sem voru í byrjunarliðinu í þessum leik 2016 og Karen María Sigurgeirsdóttir var varamaður eins og Hulda Björg.

Það leið svo ekki á löngu áður en Hulda Björg skoraði fyrsta markið í meistaraflokki, en það gerði hún í leik gegn Breiðabliki í Boganum 24. mars 2016, reyndar í 1-6 tapi. Fyrsta skipti sem hún var í byrjunarliði var í 5-1 sigri á FH í Boganum 12. febrúar 2017, í Lengjubikarnum.

Fyrsti leikur og í byrjunarliði í efstu deild var í 1-0 sigri á Val 27. apríl 2017, sem segja má að hafi gefið tóninn fyrir það sem koma skyldi það sumarið. Hún skoraði fyrsta markið sitt í Pepsi-deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, skömmu síðar í 4-1 útisigri gegn Fylki.

  • Fyrsti leikur í meistaraflokki: 19. mars 2016 - Selfoss heima
  • Fyrsta mark í meistaraflokki: 24. mars 2016 - Breiðablik heima
  • Fyrsti leikur í efstu deild: 18. maí 2016 - ÍA heima
  • Fyrst leikur í byrjunarliði: 12. febrúar 2017 - FH heima
  • Fyrsti leikur og í byrjunarliði í efstu deild: 27. apríl 2017 - Valur heima
  • Fyrsta mark í efstu deild: 7. maí 2017 - Fylkir úti


Hulda Björg, önnur frá vinstri, fagnar hér ásamt liðsfélögunum einu af mörkum liðsing gegn Fylki í sumar. Hulda Björg skoraði fyrsta markið sitt í efstu deild gegn Fylki í maí 2017. Mynd: Þórir Tryggva.

Leikirnir og mörkin

Svona hafa leikirnir og mörkin skipst á milli einstakra keppna

A-deild 140/8
Bikarkeppni   15/1
Deildabikar   38/3
Meistarakeppni KSÍ     2/0
Evrópukeppni     5/1
Samtals 200/13

Auk leikjanna 200 á Hulda einnig að baki 30 leiki með yngri landsliðum Íslands (U16, U17, U19 og U23).