Karfan er tóm.
Kollubikarinn - sem veittur er í minningu Kolbrúnar Jónsdóttur - var afhentur í sjöunda sinn á lokahófi Þórs/KA á laugardagskvöldið. Hulda Björg Hannesdóttir fyrirliði er handhafi Kollubikarsins 2022.
Kollubikarinn er veittur til minningar um Kolbrúnu Jónsdóttur, fyrrverandi leikmann og stjórnarmann.
Við val á þeim leikmanni sem hlýtur Kollubikarinn eru hafðir til hliðsjónar eiginleikar sem prýddu Kollu sjálfa, áræðni, harka og dugnaður, svo einhverjir séu nefndir. Það er stjórn Þórs/KA sem velur þann leikmann sem fær Kollubikarinn hverju sinni.
Kolbrún starfaði lengi í kvennaráði Þórs/KA, en lést á árinu 2016, langt fyrir aldur fram.
Við afhendinguna var meðal annars lesin upp umsögn liðsfélaga Huldu Bjargar um hana, en hún hljómar svona:
Hulda er liðsfélaginn sem að þú myndir taka mér þér í stríð. Hún rífur þig áfram þegar þú ert að gefast upp, hrósar þér þegar þú ert að standa þig vel og lætur þig vita þegar þú þarft að gera betur. Eins og sannur leiðtogi á að vera. Hulda leggur sig alltaf fram, gerir aðra betri í kringum sig og er yndisleg manneskja. Allir vilja hafa eina Huldu í sínu liði!
Handhafar Kollubikarsins frá upphafi:
2016: Karen Nóadóttir
2017: Sandra María Jessen
2018: Arna Sif Ásgrímsdóttir
2019: Lára Einarsdóttir
2020: Heiða Ragney Viðarsdóttir
2021: Harpa Jóhannsdóttir
2022: Hulda Björg Hannesdóttir
Stjórn Þórs/KA fékk dætur Kolbrúnar, þær Ágústu Kristinsdóttur og Örnu Kristinsdóttur, sem hafa báðar komið mikið við sögu hjá Þór/KA, til að afhenda bikarinn. Ágústa lék um árabil með Þór/KA og starfar nú sem þjálfari hjá félaginu. Arna Kristinsdóttir hefur leikið bæði með Þór/KA og Hömrunum, ásamt því að hafa farið á lánssamningi til Tindastóls.
Arna Kristinsdóttir, Ágústa Kristinsdóttir og Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður Þórs/KA.