Karfan er tóm.
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, stakk niður penna að loknu tímabili. Hugleiðingar Jóhanns Kristins eru í senn þakkir og ákall til okkar allra. Gefum Jóhanni orðið:
Kæru félagar í Þór/KA
Kærar þakkir fyrir tímabilið sem lauk á föstudaginn. Með þessum fátæklegu orðum vil ég koma á framfæri þakklæti til allra sem lögðu hönd á plóg til að hjálpa liðunum okkar í Þór/KA í sumar. Við sem stöndum að liðinu og leikmenn sjálfir gerum okkur grein fyrir öllum þeim handtökum, klukkustundum og allri þeirri þolinmæði sem til þarf til að starfið geti gengið vel. Kærar þakkir til allra sem komu þar að og lögðust á árarnar. Þetta er ómetanlegt og stjórn, þjálfarar og stelpurnar gerum okkur fulla grein fyrir því.
Stelpurnar okkar eru frábærar og eru auðvitað stjörnur tímabilsins. Miklar framfarir eftir ómælda vinnu sem þær hafa lagt á sig hafa skilað þeim enn framar í röð þeirra bestu og viljinn til að halda áfram og komast enn lengra er augljóslega til staðar.
Þetta kostar miklar fórnir og það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera metnaðarfull íþróttakona sem stefnir hátt í sinni íþrótt. Það koma oft tímabil þar sem erfitt er að horfa á jafnaldrana, skólafélagana og fjölskylduna gera eitthvað skemmtilegt sem ómögulegt er að taka þátt í vegna fótboltans. Það er ekki kannski rétt að tala um fórnir í þessu samhengi. Þetta er val. Stelpurnar hafa valið sér að leggja alla þessa vinnu á sig, lifa eftir því sem þarf til að ná sem lengst, hugsa stöðugt um matarræði, hvíld og svefn fyrir utan svo allar æfingarnar og leikina. Þetta er ekki sjálfsagt en þetta er val. Við erum dugleg að minna stelpurnar á að sá tími sem fer í fótboltaiðkun þeirra á lífsleiðinni er ekki langur í stóra samhenginu. Þegar því líkur eru tugir ára eftir sem þær geta gert það sem þær vilja. Hvort sem það er að lyfta sér reglulega upp, ferðast eða kaffæra sér í vinnu myrkranna á milli. En á meðan þær stunda fótboltann og þær reyna að ná eins langt í honum og hægt er, bæði fyrir sig og liðið sitt, þá er það okkar sem að þeim stöndum að styðja þær og þeirra val. Vera bæði stuðningur og hvatning. Bæði þegar gengur vel og illa.
Eftir góða sigra í yngri flokkunum og fínan árangur í meistaraflokki þá göngum við þjálfarar sáttir frá tímabilinu. Allt hrós á stelpurnar auðvitað en ég vil koma sérstökum þökkum til allra þeirra sem komu að þjálfun Þórs/KA á tímabilinu. Þetta er mikið starf og það er ekkert smáræðis umstang í kringum meistaraflokk, 2.flokk og 3.flokk sem sendi alls 6 lið til keppni í Íslandsmóti og bikarkeppni KSÍ. Hófst keppni í byrjun apríl og var spilað nokkuð reglulega þangað til núna. Þjálfararnir sem eru með okkur í þessu hafa staðið vaktina með stakri prýði og fagmennsku fram í fingurgóma. Frábært fólk sem við erum mjög heppin að hafa í okkar röðum.
Þór/KA vill alltaf meira og við þurfum meira. Stelpurnar okkar eru metnaðarfullar og gera miklar kröfur til sín. Það á að vera hvati til okkar hinna að búa svo um hnútana að umhverfið sé sem best fyrir þær til að bæta sig. Þó þær séu grjótharðar, harðduglegar og gefi aldrei tommu eftir í neinu þá eru þær, eins og við öll, viðkvæm blóm inn á milli. Ég og aðrir sem þetta lesa og eru komin á miðjan aldur og jafnvel meira, þekkjum vel að í garðræktinni er þetta ekki bara klippt og skorið allt saman. Þegar blómið blómstrar ekki, sama hvað það reynir, þá verðum við sem ræktendur að skoða fleiri hluti en blómið sjálft. Það er ekki nóg að reyna að laga það aftur og aftur. Við þurfum að huga að umhverfinu og aðstæðum. Það er eitt af því sem gerir starfið okkar svona fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt. Þær eru mismunandi, þarfirnar og persónuleikarnir eru aldrei allir eins. En þær eiga það sameiginlegt að hafa mikinn metnað fyrir fótboltanum og að ná lengra. Bæði sem einstaklingar og lið. Gerum umhverfi þeirra, aðbúnað og aðstæður þannig að þær geti allar blómstrað á sinn hátt.
Það er okkar skylda að hjálpa þeim eins mikið og mögulegt er! Hvað getum við gert betur? Hvernig er aðbúnaður hinna tveggja fótboltaliðanna í bænum? Er einhver munur á aðbúnaði, umgjörð og vinnu við þau lið annars vegar og okkar liðs í Þór/KA hins vegar? Ef svo er. Af hverju? Getur einhver bent á ástæðuna? Ég sé hana ekki.
Eigum við ekki bara að sameinast um það hér á Akureyri að koma eins fram við stelpurnar okkar sem eru í Bestu deildinni (efstu deild á Íslandi) og önnur lið sem eru í fremstu röð? Hvernig ætlum við að gera okkur vonir og væntingar, tala ekki um kröfur, að þær séu samkeppnishæfar innan vallar ef við erum það ekki utan vallar? Allt það góða fólk sem nú þegar vinnur fyrir liðið okkar (stjórn og sjálfboðaliðar) er að gera sitt allra besta. Það er að standa í mikilli baráttu fyrir stelpurnar okkar í sínum frítíma. En svo virðist sem vopnin séu af skornum skammti. Ég sé ekki ástæðuna fyrir því heldur. Hver ákveður að það sé alltaf minna til skiptanna fyrir þetta lið?
Viljum við að það sé eðlilegt viðhorf á Íslandi að íþróttafélögin okkar „tefli fram“ fótboltaliðum karla en leyfi kvennaliðunum að „vera með“.
Hvernig væri ef íþróttafélögin Þór og KA tækju sig í alvörunni saman og „tefldu fram“ sterku liði Þórs/KA með fullum stuðningi og gerðu það af heilhug, stolti og metnaði. Ekki bara „leyfa þeim að vera með“. Væri það ekki bara jákvætt fyrir bæði félög? Þór/KA, Akureyri og íþróttalíf á Norðurlandi almennt? Hvað gæti mögulega verið neikvætt við það?
Takk fyrir sumarið öll og áfram Þór/KA!