Karfan er tóm.
Það var ekki aðeins spilaður fótbolti á föstudagskvöldið þegar Þór/KA tók á móti Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikarkeppninnar.
Undanfarið hefur farið fram vinna sem ætlað er að bæta stemninguna og umgjörðina í kringum heimaleiki liðsins og hefur hópur áhugasamra kvenna tekið sig saman um þetta verkefni. Þó veðrið hafi ekki hjálpað til tókst engu að síður að búa til skemmtilega stemningu í kringum leikinn í undanúrslitum Mjólkurbikarkeppninnar á föstudagskvöldið. Niðurstaða leiksins því miður ekki eins og óskað var, en liðið eflist með hverri raun og hefur sannað sig sem eitt af toppliðum landsins.
Fyrir leikinn var boðið upp á ís, andslitsmálningu, tónlist og hamborgara á pallinum við Hamar og happdrættisnúmerum dreift frítt til allra sem mættu á leikinn. Í leikhléi voru dregnir út veglegir vinningar sem fengust með stuðningi velviljaðra fyrirtækja. Eftir leik var áhugasömum boðið að hitta stelpurnar í liðinu inni í Hamri og fá áritanir á mynd sem hafði verið útbúin sérstaklega fyrir þetta tækifæri með öllum leikmönnum í hópnum.
Í leikhléinu voru svo einnig afhentir styrkir til fjögurra aðstandenda kvennakvöldsins sem haldið var í byrjun maí, körfuknattleiksdeildar Þórs, blakdeildar KA, hantboltaliðs KA/Þórs og knattspyrnuliðsins okkar. Fulltrúar þessara fjögurra aðila mættu niður á völl í leikhléinu og tóku við styrkjum frá kvennakvöldsnefndinni.
Styrkir afhentir. Fulltrúar aðstandenda kvennakvöldsins og fulltrúar kvennakvöldsnefndarinnar. Frá vinstri: Amelía Ýr Sigurðardóttir, leikmaður blakliðs KA, Bjarney Sigurðardóttir, frá kvennakvöldsnefndinni, Kristín A. Jóhannsdóttir, leikmaður KA/Þórs, Erlingur Kristjánsson, frá stjórn KA/Þórs, Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, Eva Björk Halldórsdóttir, frá kvennakvöldsnefndinni, Elsa Björg Pétursdóttir, frá kvennakvöldsnefndinni, Maddie Sutton og Eva Wium Elíasdóttir, leikmenn körfuknattleiksliðs Þórs, og Linda Guðmundsdóttir, frá kvennakvöldsnefndinni.