Karfan er tóm.
Stjórn Þórs/KA hefur samið við tvær af reyndustu knattspyrnukonum félagsins, Hörpu Jóhannsdóttur og Huldu Björg Hannesdóttur, til næstu tveggja ára.
Þær Harpa og Hulda Björg undirrituðu nýja samninga út tímabilið 2026 í gær. Báðar hafa verið lengi hjá Þór/KA, Harpa að hefja sitt 12. tímabil í meistaraflokki og Hulda Björg sitt 10. tímabil. Þær bætast í hóp eldri og yngri leikmanna sem hafa nú þegar endurnýjað sína samninga á undanförnum vikum. Enn og aftur er ánægjulegt að sjá heimakonurnar í Þór/KA halda tryggð við félagið og taka slaginn áfram í því metnaðarfulla starfi sem fram undan er og þeirri vegferð að vera ávallt eitt af þeim liðum sem keppir um þá titla sem í boði eru hér á landi.
Báðar náðu þær Harpa og Hulda Björg leikjaáföngum fyrir félagið á nýafstöðnu tímabili. Hulda Björg spilaði sinn 200. leik með meistaraflokki Þórs/KA í Keflavík 24. júlí. Í þeim leik spilaði Harpa sinn 99. leik fyrir Þór/KA og átti þar stóran þátt í 1-0 sigri liðsins. Sex dögum síðar spilaði hún 100. leikinn gegn Tindastóli á Sauðárkróki.
Harpa Jóhannsdóttir (1998) er markvörður og átti sína fyrstu innkomu í meistaraflokki félagsins árið 2014. Hún er því í raun að hefja sitt 12. tímabil með meistaraflokki félagsins. Fyrstu árin í meistaraflokkshópnum var hún einnig í mikilvægu hlutverki með 2. flokki félagsins og vann titla með liðinu, eins og hún hefur gert reglulega þegar þurft hefur, meðfram því að spila eða vera varamarkvörður í meistaraflokki, og þá miðlað af reynslu sinni til yngri leikmanna.
Harpa spilaði með Hömrunum í Inkasso-deildinni (næstefstu deild) á lánssamningi frá Þór/KA árið 2018. Á nýafstöðnu tímabili spilaði hún 17 meistaraflokksleiki í Bestu deildinni og Lengjubikarnum.
Harpa hefur spilað 104 leiki fyrir Þór/KA, þar af 65 í efstu deild. Samanlagt á hún að baki 127 leiki í meistaraflokki í KSÍ-mótum (Íslandsmóti, bikarkeppni, deildabikar og meistarakeppni) og eitt mark sem vítaskytta Hamranna. Þá á hún einnig að baki átta landsleiki með U17 og U16 landsliðum Íslands.
Harpa Jóhannsdóttir í leik með Þór/KA gegn Fylki í sumar. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.
Hulda Björg Hannesdóttir (2000) hefur lengst af spilað sem miðvörður í meistaraflokki, en hefur á undanförnum níu árum einnig spilað stöðu vængbakvarðar, auk þess að vera fyrirliði hluta þessa tíma. Hulda Björg er á meðal þeirra reyndustu í leikmannahópi Þórs/KA og er að hefja sitt 10. tímabil með meistaraflokki félagsins. Hún átti sínar fyrstu innkomur með meistaraflokki árið 2016 og var orðin fastamanneskja í byrjunarliði strax árið eftir. Á nýafstöðnu tímabili spilaði hún 30 leiki fyrir félagið í Bestu deildinni, Mjólkurbikar og Lengjubikar.
Hulda Björg á að baki 208 leiki með meistaraflokki Þórs/KA í KSÍ-mótum og Meistaradeild Evrópu, þar af eru 148 í efstu deild og fimm Evrópuleikir. Hún hefur skorað 12 mörk í þessum leikjum. Þá á hún að baki 30 leiki með U23, U19, U17 og U16 landsliðum Íslands.
Hulda Björg Hannesdóttir fagnar marki ásamt liðsfélögum sínum í sumar. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.