Karfan er tóm.
Hamrarnir luku keppni í 2. deildinni föstudaginn 27. ágúst. Í sumar spiluðu 16 stelpur sinn fyrsta meistaraflokksleik með liðinu og átta skoruðu sín fyrstu mörk í meistaraflokki.
Margar stelpur sem enn eru gjaldgengar í 3. flokki hafa skipt yfir í Hamrana, en eru á sama tíma einnig gjaldgengar í 3. flokki þar sem keppt er undir heitinu Þór/KA/Hamrarnir.
Hamrarnir hafa teflt fram mjög ungum leikmönnum nokkur undanfarin keppnistímabil og það breyttist ekkert í sumar.
Markahæst af leikmönnum Hamranna í sumar varð Margrét Mist Sigursteinsdóttir, sem skoraði átta mörk. Þrír leikmenn komu við sögu í öllum þrettán leikjum liðsins í deild og bikar, þær Margrét Mist, Rebekka Lind Aðalsteinsdóttir og Una Móeiður Hlynsdóttir. Ítarlegri tölfræði upplýsingar má finna á sér síðu með tölfræði Hamranna..
Síðsumars lækkaði meðalaldurinn enn meir þegar reyndustu leikmenn liðsins, Hafrún Mist Guðmundsdóttir, Lilja Björg Geirsdóttir, Rósa Dís Stefánsdóttir og Tinna Arnarsdóttir héldu allar vestur um haf til að stunda háskólanám og spila fótbolta. Emilía Eir Pálsdóttir er einnig vestanhafs við háskólanám og fótboltaiðkun, en hún tók sér frí í sumar og spilaði ekkert með Hömrunum. Rósa Dís, Lilja Björg og Hafrún Mist voru allar að hefja nám sitt vestra, en Tinna og Emilía Eir eru á öðru ári.
Á myndinni hér til hægri eru Rósa Dís Stefánsdóttir, Lilja Björg Geirsdóttir, Tinna Arnarsdóttir og Hafrún Mist Guðmundsdóttir að loknum kveðjuleik sínum í sumar, gegn Fjölni í Grafarvoginum.
Nokkur liðanna í 2. deildinni hafa brugðið á það ráð að fá til sín erlenda leikmenn til að styrkja sig og gera atlögu að því að fara upp um deild á meðan Hamrarnir byggja eingöngu á heimaleikmönnum og mörgum mjög ungum eins og áður sagði. Efnilegustu stelpurnar úr 3. flokki hafa auk þess verið í leikmannahópnum í meistaraflokki Þórs/KA og því ekki gjaldgengar með Hömrunum.
Kröfurnar um árangur í stigum talið eða sæti í deildinni eru því ef til vill einhverjar aðrar þegar á allt er litið. Úrslitin gætu auðvitað stundum verið hagstæðari, en reynslan er dýrmæt og framfarirnar sannarlega til staðar.
Keppnin í 2. deild var með óvenjulegu sniði þetta árið og tók mið af því að 13 lið skráðu sig til leiks. Því þótti of mikið að spila tvöfalda umferð eins og tíðkast hefur. Ákveðið var að spila einfalda umferð og síðan að fjögur efstu liðin spiluðu til úrslita um tvö laus sæti í Lengjudeildinni.
Eftir á að hyggja hefði verið meiri skynsemi í því að efsta liðið færi beint upp, en liðin í 2.-5. sæti færu í umspil um hvaða lið myndi fylgja því upp.
Hvað Hamrana varðar verður ekki litið framhjá því að fjölmargar stelpur hafa fengið dýrmæta reynslu og spilað sína fyrstu meistaraflokksleiki. Hér að neðan er listi yfir þær stelpur sem spiluðu sinn fyrsta meistaraflokksleik í sumar - samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu eins og miðað er við í talningu hjá KSÍ (deild, bikar, meistarakeppni, Evrópa), en nokkrar af þessum spiluðu fyrstu leikina með Hömrunum fyrr á árinu í Kjarnafæðismótinu.
Amalía Árnadóttir |
Angela Mary Helgadóttir + fyrsta mark |
Anna Guðný Sveinsdóttir |
Arna Rut Orradóttir |
Ester Helga Þóroddsdóttir + fyrstu mörkin |
Friðbjörg Anna Gunnarsdóttir |
Heiðrún Hafdal Björgvinsdóttir |
Helga Dís Hafsteinsdóttir |
Helga Dís Magnúsdóttir |
Hildur Jana Hilmarsdóttir + fyrsta markið |
Krista Dís Kristinsdóttir + fyrstu mörkin |
María Björk Friðriksdóttir + fyrsta markið |
Ólína Helga Sigþórsdóttir + fyrsta markið |
Sandra Björk Hrannarsdóttir |
Sonja Björg Sigurðardóttir + mörk í Kjarnafæðismótinu |
Fyrsta mark í meistaraflokki:
Angela Mary, Ester Helga, Hildur Jana, Krista Dís, María Björk, Ólína Helga og Tinna Arnarsdóttir
Ákveðið var í vetur að senda lið til keppni hvort tveggja í nafni Hamranna í 2. deildinni og Þórs/KA/Hamranna í 2. flokki - sem síðan breyttist í samstarf við Tindastól og var skráð undir nafninu Þór/KA/Tindastóll/Hamrarnir. Því miður þróuðust mál þannig að ekki reyndist unnt að manna bæði liðin og var lið 2. flokks því dregið úr keppni í Íslandsmótinu skömmu fyrir mót.
Ákveðið var að taka þátt í bikarkeppni 2. flokks. Þar mættu stelpurnar liði Gróttu/KR í 16 liða úrslitum og sigruðu, 1-0. Liðið vann síðan sigur á Fjölni, 2-1, í átta liða úrslitum og átti að mæta Breiðabliki/Augnabliki í undanúrslitum. Sú viðureign fór þó aldrei fram, af furðulegum ástæðum sem ekki verða raktar hér. Breiðabliki/Augnabliki var dæmdur 3-0 sigur og okkar stelpur þar með úr leik í bikarkeppninni - á heldur ósanngjarnan hátt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
Leikmannahópurinn að loknum 1-0 sigri á Gróttu/KR í 16 liða úrslitum bikarkeppni 2. flokks 10. júní. Standandi, frá vinstri: Heiðrún Hafdal Björgvinsdóttir, Anna Guðný Sveinsdóttir, Arna Rut Orradóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir, María Björk Friðriksdóttir, Friðbjörg Anna Gunnarsdóttir, Sandra Björk Hrannarsdóttir , Ester Helga Þóroddsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, Rebekka Lind Aðalsteinsdóttir, Margrét Mist Sigursteinsdóttir og Kristín Björg Emanúelsdóttir. Fremri röð: Steingerður Snorradóttir, Hildur Jana Hilmarsdóttir, Helga Dís Magnúsdóttir, Hildur Marín Bergvinsdóttir og Helga Dís Hafsteinsdóttir. |
Byrjunarliðið í bikarleik 2. flokks 10. júní. Aftari röð frá vinstri: Iðunn Rán Gunnarsdóttir, María Björk Friðriksdóttir, Friðbjörg Anna Gunnarsdóttir, Sandra Björk Hrannarsdóttir, Ester Helga Þóroddsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir. Fremri röð: Steingerður Snorradóttir, Hildur Jana Hilmarsdóttir, Helga Dís Magnúsdóttir, Hildur Marín Bergvinsdóttir og Helga Dís Hafsteinsdóttir. |
Leikmenn ráða ráðum sínum í stuttu meiðslastoppi í leik gegn Einherja á Vopnafjarðarvelli. Lilja Björg Geirsdóttir fyrirliði, Angela Mary Helgadóttir, Rósa Dís Stefánsdóttir og Hafrún Mist Guðmundsdóttir. |
|
Hamrastelpurnar hafa gert klefann sinn í kjallara Hamars að sínum og sett á hann skemmtilegan svip. |