Karfan er tóm.
Tvö lið frá Þór/KA mættust í úrslitaleik á Íslandsmóti B-liða í Boganum í gærkvöld, en þau tóku þátt í Íslandsmótinu sem Þór/KA og Þór/KA2. Þór/KA lék í svörtum búningum í þessum leik og Þór/KA2 í hvítum búningum.
Fyrsta markið kom á 17. mínútu þegar Eva S. Dolina-Sokolowska skoraði fyrir Þór/KA (svartar). Sunneva Elín Sigurðardóttir bætti við öðru marki seint í fyrri hálfleiknum og staðan 2-0 í leikhléi. Sunneva bætti svo við sínu öðru marki á fyrstu mínútu seinni hálfleiksins og útlitið orðið dökkt fyrir hvíta liðið.
Stelpurnar í Þór/KA2 voru þó ekkert á því að gefast upp. Þær fengu víti á 48. mínútu sem Karítas Anna F. Leósdóttir skoraði úr af öryggi og hún bætti svo öðru marki tæpum tíu mínútum síðar og munurinn allt í einu kominn niður í eitt mark.
Við þetta æstust leikar og varð úr nokkur spenna á lokakaflanum enda vildu bæði liðin vinna leikinn og hampa bikarnum. Mörkin urðu þó ekki fleiri og Þór/KA vann leikinn 3-2 og teljast því Íslandsmeistarar B-liða.
Þetta var skemmtilegur endir á sumrinu hjá 3. flokki og leikurinn í gærkvöld báðum liðum og þjálfurum þeirra til sóma. Sannarlega fullt af sigurvegurum í báðum liðum þó svo að í þessum leik hafi aðeins annað liðið getað staðið uppi sem sigurvegari og hampað bikarnum. Gull og silfur í Íslandsmóti B-liða er heldur ekki svo slæmt.
Egill Bjarni Friðjónsson mætti á leikinn með myndavélina á lofti og tók myndirnar sem fylgja fréttinni. Fleiri myndir Egils Bjarna má finna í myndaalbúmi - sjá hér.
Bikarinn á loft. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
Gull: Þór/KA (svartar). Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
Silfur: Þór/KA2 (hvítar). Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
- - -
Sumarið verður svo gert upp með alls konar tölum og fróðleik síðar í haust.