Karfan er tóm.
Þór/KA er ekki bara öflugt og áhugavert meistaraflokkslið í fremstu röð í Bestu deildinni heldur rekur félagið einnig 2. og 3. flokk og þar er margt áhugavert í gangi, þjálfarar og leikmenn að standa sig gríðarlega vel í umhverfi þar sem leikjum, ferðalögum og ýmsum verkefnum hefur fjölgað og kostnaður aukist. Erfitt rekstrarumhverfi virðist þó ekki hafa nein áhrif á árangurinn því staða allra okkar liða er mjög góð núna á miðju sumri.
Núna er nokkurt hlé á leikjadagskrám hjá 3. flokki svo við ætlum að nota tækifærið og skoða stöðuna hjá liðunum okkar. Rétt er að leggja áherslu á að þó við teljum hér upp markatölu og hverjar hafa skorað mest þá er ekki með því verið að gera lítið úr hlut annarra leikmanna. Það er liðið sem vinnur eða tapar, leikmenn í öllum stöðum skipta máli og enginn leikmaður skorar án þess að liðsfélagarnir eigi þar einnig hlut að máli.
Þór/KA teflir fram þremur liðum í 3. flokki í Íslandsmótinu og einu í bikarkeppninni. Gengi þessara liða hefur verið afbragðs gott það sem af er sumri og tímabært að taka einn hring, skoða stöður og fleira. Í fyrra tefldi félagið fram tveimur liðum í keppni A-liða í 3. flokki og einu í keppni B-liða. Árangurinn í fyrra var frábær, A1 varð Íslands- og bikarmeistari og A2 vann sig upp í A-riðil í lokalotunni í fyrrahaust. Ákveðið var að taka aðeins eitt sæti í keppni A-liða, en senda þess í stað tvö lið í keppni B-liða. B-liðið varð í 2. sæti í A-riðli og fór í úrslitakeppni, vann í undanúrslitum, en tapaði úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitil B-liða.
Þór/KA2 er með afgerandi forystu í B-riðlinum þegar liðið hefur leikið sjö leiki. Stelpurnar hafa unnið sex leiki og aðeins tapað einum, eru í efsta sætinu með 18 stig, en næsta lið er með níu stig eftir fimm leiki. Sex lið eru í riðlinum sem spila tvöfalda umferð, samtals tíu leiki á lið, þannig að Þór/KA á eftir þrjá leiki. Þegar mótið er skoðað á vef KSÍ vantar inn úrslit í einum leik hjá okkar stelpum, en þær unnu Stjörnuna/Álftanes um liðna helgi, 4-2. Þór/KA hefur unnið sex leiki og aðeins tapað einum. Markatalan er 22-8.
Mótið á vef KSÍ.
Leikir sem Þór/KA2 á eftir: Afturelding (H), Afturelding (Ú), Stjarnan/Álftanes (H).
Rósa Signý Guðmundsdóttir og Karitas Anna F. Leósdóttir hafa skorað mest af okkar stelpum með þessu liði og flest mörk allra í þessum riðli ásamt leikmanni Fylkis, en þær hafa báðar skorað sex mörk.
Þór/KA er í efsta sæti riðilsins með 18 stig, hefur unnið sex leiki og tapað einum. Grótta/KR kemur fast á hæla liðsins með 15 stig og hefur leikið einum leik minna. Markatalan hjá Þór/KA er 33-8. Sjö lið eru í riðlinum og spiluð tvöföld umferð þannig að Þór/KA á eftir að spila fimm leiki, þar á meðal heimaleik gegn Gróttu/KR. Eva S. Dolina-Sokolowska hefur verið iðin við að skora fyrir þetta lið, er komin með 12 mörk í sjö leikjum og er langmarkahæst í riðlinum. Eva Hrund Hermannsdóttir hefur skorað fimm mörk.
Mótið á vef KSÍ.
Leikir sem liðið á eftir: Grótta/KR (H), HK (H), Breiðablik/Augnablik (Ú), Haukar (Ú), FH/ÍH (H)
Í keppni B-liða eru þrír riðlar. Tvö efstu liðin úr A-riðli fara í fjögurra liða úrslitakeppni, auk efsta liðs í B- og C-riðlum. Það gæti því farið svo að Þór/KA verði með tvö lið í undanúrslitum í Íslandsmóti B-liða. Þessi úrslitakeppni fer fram um og upp úr miðjum september.
Bikarkeppni: Liðið er komið í átta liða úrslit og á þar eftir að spila leik gegn Gróttu/KR. Hafði áður unnið RKV 3-0.
Íslandsmótið í keppni A-liða fer núna í annað skiptið fram í þremur lotum og geta lið farið upp eða niður á milli riðla eftir hverja lotu. A-liðið frá Þór/KA hefur frá upphafi mótsins í fyrra verið í A-riðlinum. Þór/KA vann fyrstu lotuna, sem hófst í byrjun mars, og fór í gegnum hana án þess að tapa leik. Niðurstaðan varð 19 stig úr sjö leikjum, sex sigrar og eitt jafntefli, markatalan 30-12. Rebekka Sunna Brynjarsdóttir og Ísey Ragnarsdóttir voru markahæstar í riðlinum, skoruðu átta mörk hvor.
Mótið - 1. lota - á vef KSÍ.
Gengið okkar liðs í 2. lotunni var ekki alveg jafn gott og í þeirri fyrstu. Liðið hefur lokið sínum leikjum, vann fjóra, en tapaði þremur og endar í 4. eða 5. sæti riðilsins með markatöluna 30-15. Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Ísey Ragnarsdóttir skoruðu flest mörk fyrir Þór/KA í 2. lotunni, sjö mörk hvor. Þór/KA er áfram í A-riðli í lokalotunni, en sigurliðið í þriðju og síðustu lotunni vinnur Íslandsmeistaratitilinn. Leikirnir í 3. lotunni fara fram á tímabilinu 12. ágúst til 25. september.
Mótið - 2. lota á vef KSÍ.