Powerade, banani og boltasækir. Einn knattspyrnuleikur er meira en bara 11 á móti 11 inni á vellinum.
Fróðleiksmolar um fótbolta og ferðalög.
- Sigurinn í Eyjum í gær var fyrsti sigur Jóhanns Kristins Gunnarssonar þjálfara með Þór/KA á Hásteinsvelli.
- Sigurinn var þó sá fjórði hjá Þór/KA á sex árum. Undir stjórn Halldórs Jóns Sigurðssonar (Donna) vann liðið í fyrsta skipti í Eyjum 2018 og svo aftur 2019. Andri Hjörvar Albertsson var þá aðstoðarþjálfari Donna og hann stýrði liðinu, ásamt Perry Mclachlan, til sigurs í Eyjum 2021.
- Þór/KA hefur í mörg ár notið góðrar þjónustu Norlandair þegar liðið þarf að komast til Vestmannaeyja, hafa þá flogið beint frá Akureyri. Af óviðráðanlegum orsökum gat liðið þó ekki flogið beint til Eyja að þessu sinni og ekki heldur í fyrravor þegar liðin mættust. Bæði árin fór því aukadagur í leikinn þar sem liðið ferðaðist suður daginn fyrir leikdag og svo til Eyja á leikdegi.
- Gárungarnir (hverjir sem þeir eru) höfðu á orði í ferðinni að þessu sinni að þetta hefði verið æfingaferðin í ár því ekið var til Hvolsvallar á laugardag og fyrir góðvilja heimamanna þar var tekin létt æfing á grasi. Eftir góða gistingu á Hótel Hvolsvelli, staðgóðan morgunverð (sem er undirstaðan að gifturíku dagsverki) og nokkuð ljúfa siglingu til Eyja skilaði þessi formúla þremur stigum, sem var tilgangur ferðarinnar.
- Hér væri hægt að koma með fróðleiksmola um leikmannahópinn, meiðsli og forföll, en það verður ekki gert. Við mættum með 16 leikmenn til Eyja og byrjuðum með 11 leikmann inni á vellinum eins og öll lið, alltaf. „Það kemur alltaf maður í manns stað,“ sagði Hulda Ósk Jónsdóttir í viðtali við Mogga að leik loknum. Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.
Við látum bara myndirnar segja meira en þúsund orð.
Jóhann Kristinn ræðir við Karen Maríu Sigurgeirsdóttur í æfingaferðinni til Hvolsvallar.
Æft á Hvolsvelli ... Hvolsvallarvelli?
Á nánast öllum æfingum er keppni í einhverju í lokin. Það tekur sigurliðið yfirleitt nokkra stund að ákveða uppstillinguna og þá er kjörið að byrja að smella af á meðan.
Síðan verður yfirleitt eitthvað skemmtilegt til.
Varamannabekkurinn á Hásteinsvelli er einhver sá veglegasti á landinu. Steinsteypt hús, tuttugu sæti og útsýnið hrífandi ... ef það er ekki þoka. Bekkurinn okkar - stelpurnar sjálfar - eru líka álíka harðar og steinsteypa.
Krista Dís kann að halda á sér hita í roksúldinni í Eyjum.
Powerade, bananar og boltasækir. Einn knattspyrnuleikur er meira en bara 11 á móti 11 inni á vellinum.
Skurður í vörina, fimm spor saumuð, fljótandi fæði í fjóra daga ... en mark frá Söndru Maríu og liðið hélt heim með Herjólfi með þrjú stig í pokanum.
Jakobína er að vinna heimildamynd um íþróttameiðsli. Dominique veit sennilega ekki að hún er í mynd.
Kolluteppin eru alltaf með í för og halda hita á leikmönnum og öðrum á bekknum. Framleidd til minningar um Kolbrúnu Jónsdóttur.