Karfan er tóm.
Þór/KA mætir Keflavík í 2. umferð Bestu deildarinnar á Greifavellinum kl. 16 í dag. Grillað fyrir leik, árskortin komin í dreifingu. Fjölmennum og styðjum stelpurnar!
Við ætlum að hefja sumarið með hvelli fyrir fyrsta heimaleikinn og grilla við Greifavöllinn fyrir leik. Borgarar beint af grillinu og kaldir drykkir með, góð upphitun fyrir leikinn og svo þurfum við stuðning og stemningu innan sem utan vallar.
Keflvíkingar eru að koma í aðra norðurferðina í röð því þær mættu liði Tindastóls á Króknum í fyrstu umferðinni og gerðu markalaust jafntefli. Þór/KA fór sem kunnugt er í Garðabæinn í fyrstu umferðinni og kom heim með þrjú stig þaðan eftir 1-0 sigur á Stjörnunni.
Leikir Þórs/KA og Keflavíkur í fyrrasumar voru fjörugir. Þór/KA vann báða leikina, fyrst 3-2 á Þórsvellinum í byrjun júní og svo 3-1 í Keflavík um miðjan september.
Þessi lið hafa mæst 14 sinnum í efstu deild. Þór/KA er með níu sigra, en Keflavík fjóra. Þessir fjórir sigrar Keflvíkinga komu allir á árunum 2006 og 2007. Markalaust jafntefli varð í leik liðanna á Þórsvellinum 2021, en aðra leiki þessara liða í efstu deild frá 2008 vann Þór/KA. Oft hefur verið mikið skorað í leikjum þessara liða í efstu deild, þrjú mörk frá Þór/KA og tvö frá Keflavík að meðaltali.
Myndin hér að neðan sýnir þessar tölur - skjáskot úr gagnagrunni KSÍ. Ef smellt er á myndina er hægt að sjá lista yfir þessa leiki á vef KSÍ.