Karfan er tóm.
Keppni í Bestu deildinni er hafin að nýju eftir langt EM-hlé. Þór/KA tekur á móti Aftureldingu á morgun, þriðjudaginn 9. ágúst, kl. 17:30.
Það þarf líklega ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þessa leiks, eftir brösótt gengi hjá okkar liði það sem af er móti. Þór/KA situr núna í 8. sæti deildarinnar með 10 stig, jafn mörg og Keflavík sem hefur betri markamun. Fyrir neðan eru KR með sjö stig og svo Afturelding með sex stig. Það er því full ástæða til að hvetja okkar fólk til að fjölmenna á völlinn og hvetja stelpurnar til sigurs. Þegar á móti blæs er einmitt enn mikilvægara að fá fólk á völlinn og finna stuðninginn.
Þór/KA hafði sigur í fyrri leik liðanna sem fram fór syðra. Í þeim leik skoraði Sandra María Jessen mark eftir aðeins 17 sekúndur. Afturelding náði að jafna í fyrri hálfleiknum, en Arna Eiríksdóttir skoraði seint í leiknum og tryggði okkur 2-1 sigur. Þessi lið hafa mæst 15 sinnum í efstu deild, fyrst árið 2008. Þór/KA hefur sigrað 12 sinnum, einu sinni hefur orðið jafntefli og Afturelding hefur tvisvar unnið. Ef tekin eru úrslit leikja þessara liða í öllum mótum er Þór/KA með 13 sigra í 17 leikjum, eitt jafntefli og fjórum sinnum hefur Afturelding sigrað.
Þór/KA hóf keppni eftir EM-hléið með heimsókn á Hlíðarenda síðastliðinn fimmtudag. Afleitar fyrstu mínútur í leiknum urðu okkar stelpum að falli, en Valur skoraði tvö mörk á innan við tíu mínútum í byrjun. Valur var áfram vissulega sterkara liðið á vellinum og skapaði sér fleiri færi, en Þór/KA sótti þó í sig veðrið eftir þessa slæmu byrjun og fengu stelpurnar til dæmis tvö mjög góð færi til að minnka muninn í 2-1, en tókst ekki. Valur bætti síðan við þriðja markinu í seinni hálfleik og lokatölur því 3-0.
Staðan í deildinni, úrslit leikja og leikjadagskrá á vef KSÍ.