Karfan er tóm.
Nú eru liðnar rúmar þrjár vikur frá því að keppni lauk í Pepsi Max-deildinni og tímabært að líta til baka yfir nokkrar tölur, fjölda leikja, leikjaáfanga og fleira. Auðvitað allt til gamans gert.
Þór/KA endaði í 6. sæti deildarinnar þetta árið, sæti ofar en í fyrra þegar mótinu var aflýst áður en því lauk. Stigin í sumar urðu 22, jafn mörg og hjá ÍBV, en markamunur okkar var tveimur mörkum betri en ÍBV.
Liðið gerði óvenju mörg jafntefli, alls sjö í deildinni, en við vitum ekki hvort þetta er met í efstu deild kvenna. Að auki var jafnt eftir venjulegan leiktíma og framlengingu í eina bikarleiknum okkar þetta árið.
Hulda Björg Hannesdóttir er eini leikmaður liðsins sem spilaði allar mínútur í öllum leikjum í deild og bikar. Það eru 18 leikir (1.440 mínútur) í deildinni og einn leikur með framlengingu (120 mínútur) í bikarkeppninni. Þessi talning er að sjálfsögðu án viðbótartíma í leikjum.
Aðeins tveir leikmenn, Karen María Sigurgeirsdóttir og Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir, komu við sögu í öllum leikjum liðsins þegar Lengjubikar og Kjarnafæðismótið eru talin með, alls 27 leikjum; fjórum í Kjarnafæðismótinu, fjórum í Lengjubikar, einum í bikar og 18 í deildinni. Hulda Björg og Saga Líf Sigurðardóttir komu við sögu í 26 leikjum á árinu.
Hulda Björg spilaði 2.354 mínútur þegar öll mótin eru tekin með, flestar mínútur allra leikmanna. Hún spilaði allar mínútur í öllum leikjunum 26 nema í leiknum gegn Fylki í Lengjubikarnum þar sem hún kom út af á 74. mínútu.
Fjórar tóku þátt í öllum 18 leikjum liðsins í deildinni í sumar. Auk Huldu Bjargar voru það Karen María Sigurgeirsdóttir, Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir og Colleen Kennedy.
Það háði gengi liðsins nokkuð að erfiðlega gekk að skora mörk. Liðið skoraði 12 mörk í fjórum leikjum í Kjarnafæðismótinu, 10 mörk í fjórum leikjum í Lengjubikarnum, eitt mark í einum leik í bikarkeppninni og 18 mörk í 18 leikjum í deildinni.
Þór/KA fékk á sig næstfæst mörk allra liða í Pepsi Max-deildinni í sumar, eða 23. Aðeins Valur fékk á sig færri mörk, 17, þar af tvö frá Þór/KA.
Af þeim 23 mörkum sem liðið fékk á sig komu 13 frá þremur efstu liðunum, eða fjögur frá Val, fimm frá Breiðabliki og fjögur frá Þrótti.
Þór/KA fékk stig á móti öllum liðum í deildinni nema Þrótti. Eitt stig gegn Val, Breiðabliki, Stjörnunni og Selfossi, fjögur stig gegn ÍBV, Keflavík og Fylki og öll sex stigin sem í boði voru gegn Tindastóli.
Árangur liðsins var mun betri á útivöllum en á heimavelli.
Á útivelli er liðið með þriðja besta árangur allra liða í deildinni, á eftir Val og Breiðabliki.
Fjórir sigrar komu á útivöllum (ÍBV, Tindastóll, Keflavík og Fylkir), þrjú jafntefli (Valur, Selfoss, Stjarnan) og aðeins tvö töp (Breiðablik og Þróttur).
Á heimavelli kom hins vegar aðeins einn sigur (Tindastóll), fjögur jafntefli (ÍBV, Fylkir, Breiðablik og Keflavík) og fjórir ósigrar (Selfoss, Stjarnan, Þróttur og Valur). Þór/KA var í 7. sæti yfir árangur á heimavelli.
Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrirliði var verðlaunuð á lokahófi sem besti leikmaður liðsins, en hún var til dæmis oftast allra leikmanna í liði umferðarinnar hjá Morgunblaðinu, eða níu sinnum. Eflaust í liði ársins hjá fleiri miðlum. Hún spilaði þó aðeins 15 leiki liðsins í deildinni þar sem hún var í láni hjá Glasgow City FC í vetur og fram í maí, eftir að mótið var byrjað. Í einkunnagjöf Morgunblaðsins var Arna Sif í fimmta sæti með 15 M.
Alls komu 24 leikmenn við sögu í leikjum liðsins í Pepsi Max-deildinni í sumar. Þar af voru níu leikmenn að spila sínar fyrstu mínútur í deildinni, fjórir erlendir leikmenn og fimm sem fæddar eru á bilinu 1998-2005. Engin þeirra var þó að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik þar sem þessar fimm áttu allar að baki leiki með Hömrunum.
Á myndinni hér að neðan má sjá lista yfir alla leikmenn sem komu við sögu hjá líðinu í sumar. Taflan sýnir leikjafjölda í deild, bikarkeppni, meistarakeppni og Evrópukeppni.
Fyrst er samanlagður leikjafjöldi og síðan sundurliðiða eftir félögum hjá þeim leikmönnum sem spilað hafa með öðrum liðum hérlendis - sem eru Hamrarnir, KR, Tindastóll, Valur og Völsungur. Tólf af þeim 24 leikmönnum sem komu við sögu í leikjum sumarsins eiga einnig að baki leiki með Hömrunum.
Erlendu leikmennirnir sem komu við sögu hjá okkur í sumar eiga að baki meistaraflokksleiki í sex löndum (Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð, Finnlandi, Króatíu og Úganda), en að auki hafa þær Arna Sif og María Catarina spilað erlendis - Arna Sif í Svíþjóð, Ítalíu og Skotlandi og María í Skotlandi.