Karfan er tóm.
Þór/KA tapaði 2-1 gegn Aftureldingu í gær í leik sem átti að hefjast í Mosfellsbænum kl. 14, en hófst í Kórnum í Kópavogi kl. 15:30.
Dagurinn var tekinn snemma og yfirgáfum við Akureyri um kl. 6:50. Ferðin sóttist mjög vel, ekkert vesen á leiðinni, en þegar við ókum inn í Mosfellsbæinn bætti í vindinn og fór að snjóa. Völlurinn alhvítur þegar við mættum á leikstað og einhver misskilningur eða skortur á samskiptum varð til þess að starfsfólk á staðnum vissi aðeins af leiknum með stuttum fyrirvara.
Þrátt fyrir góðan vilja höfðu starfsmenn þó varla undan að hreinsa völlinn og ljóst að hann yrði tæplega leikhæfur. Engu að síður var ákveðið að reyna, liðin fóru út á völl að hita upp, en aðstæður héldu bara áfram að versna. Fyrst var ákveðið að fresta leiknum um 15 mínútur, en fljótlega var tekin ákvörðun um að fara aftur inn í hús. Strax var með hefðbundnum og óhefðbundnum leiðum farið að leita leiða til að spila leikinn inni. Með hjálp góðs fólks fengum við inni í Kórnum og þar hófst leikurinn kl. 15:32.
Í tengslum við þetta komu svo upp vangaveltur hvort það væri verjandi að setja leiki á úti á þessum árstíma þegar lið ferðast um langan veg, hvort sem það er utan af landi til suðvesturhornsins eða öfugt. Skjótar veðurbreytingar geta gert velli óleikhæfa á stuttum tíma og það kostar sitt, bæði að ferðast og ef gista þarf aukanótt út af frestuðum leik. Hvað þá ef ekki er spilað og fara þarf aðra ferð fyrir sama leik. Er ekki bara best að slíkir leikir séu alltaf settir á innanhúss?
Afturelding komst í 2-0 með tveimur mörkum með stuttu millibili, á 32. og 36. mínútu. Þór/KA tókst ekki að svara fyrir þessi mörk í fyrri hálfleiknum.
Eftir frekar slakan fyrri hálfleik lifnaði yfir okkar liði í þeim seinni og það skilaði á endanum marki, þótt slysalegt væri. Þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik sendi Saga Líf Sigurðardóttir boltann frá vinstri að nærstönginni og varð varnarmaður Aftureldingar fyrir því óláni að sparka boltanum í eigið mark.Þetta reyndist eina mark seinni hálfleiksins.
Lokatölur urðu 2-1, Aftureldingu í vil.
Heimferðin var svo að hluta í stíl við tilfærslu og frestun, því þegar komið var inn í Norðurárdal í Skagafirði mætti okkur þykkt kóf og nánast ekkert ústýni - og rútunni því dólað inn dalinn, yfir Öxnadalsheiðina og niður Öxnadalinn, oft aðeins með sýn á eina eða í mesta lagi tvær vegstikur.
Næsti leikur liðsins er gegn Þrótti. Leikurinn fer fram í Boganum laugardaginn 5. mars og hefst kl. 17.