Karfan er tóm.
Þór/KA hefur ráðið fjóra þjálfara fyrir 2. og 3. flokk út næsta tímabil, en félagið tekur nú við rekstri 3. flokks sem undanfarin tvö ár hefur verið samstarfsverkefni unglingaráða félaganna.
Birkir Hermann Björgvinsson og Pétur Heiðar Kristjánsson verða saman aðalþjálfarar beggja flokka og þær Ágústa Kristinsdóttir og Harpa Jóhannsdóttir þeim til aðstoðar. Elma Eysteinsdóttir hefur starfað sem styrktarþjálfari hjá Þór/KA undanfarið ár og mun halda því áfram, bæði með meistaraflokki og yngri flokkunum.
Fjórmenningarnir hafa áralanga reynslu af þjálfun í yngri flokkum og meistaraflokki. Ágústa, Birkir og Pétur hafa meðal annars þjálfað 3. flokk Þórs/KA/Hamranna undanfarin tvö ár, eftir að unglingaráð félaganna hófu samstarf og tefldu fram sameiginlegu liði. Árangur liðanna í 3. flokki hefur verið góður þessi tvö ár, þar sem þau hafa ýmist unnið titla eða verið í toppbaráttu í þeim mótum sem liðin hafa tekið þátt í. Lið Þórs/KA/Hamranna í 2. flokki hefur nokkrum sinnum unnið Íslandsmót og bikarkeppni á undanförnum árum, en tók ekki þátt í Íslandsmótinu þetta árið.
Ágústa Kristinsdóttir (1994) er fyrrverandi leikmaður hjá Þór/KA, á að baki 77 meistaraflokksleiki með Þór/KA og Hömrunum, þar af fimm Evrópuleiki. Hún hefur starfað við þjálfun yngri flokka frá 2010 með einu hléi, fyrst í nokkur ár hjá KA, síðasta árið hjá Þór og nú hjá Þór/KA. Ágústa er sem stendur í fæðingarorlofi, en mun koma til með að aðstoða við þjálfun eftir að því lýkur.
Birkir Hermann Björgvinsson (1982) hóf þjálfaraferilinn 2008 og hefur jafnframt þjálfun yngri flokka hjá Þór verið starfsmaður unglingaráðs knattspyrnudeildar Þórs, haft umsjón með mótum og situr í stjórn knattspyrnudeildar Þórs. Hann á að baki 55 leiki í meistaraflokki með Vaski, Vinum, Draupni og Magna, auk þess að hafa spilað í Danmörku.
Harpa Jóhannsdóttir (1998) er markvörður í úrvalsdeildarliði Þórs/KA og hefur starfað við þjálfun yngri flokka hjá KA undanfarin ár. Hún hóf störf sem almennur þjálfari hjá yngri flokkum KA haustið 2013 og hefur síðustu misseri einnig þjálfað markverði. Hún á að baki 54 leiki á milli stanganna hjá Þór/KA og Hömrunum.
Pétur Heiðar Kristjánsson (1982) hóf þjálfaraferilinn 2001 og á því 20 ára þjálfaraafmæli á þessu ári. Hann á að baki 232 leiki í meistaraflokki með Þór, Leiftri/Dalvík, Vinum, Keflavík, Hömrunum/Vinum, Dalvík/Reyni, KA, Magna og Nökkva, auk þess að hafa spilað í Noregi um tíma. Hann hefur starfað við þjálfun yngri flokka bæði hjá Þór og KA, verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá KA og er nú einnig aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Dalvík/Reyni.
Stjórn Þórs/KA býður nýja og gamla þjálfara velkomna til starfa. Árangur stúlknaliða félaganna á undanförnum árum, sem og árangur sameiginlegs liðs í 3. flokki, gefur fyrirheit um bjarta framtíð og spennandi verkefni fram undan hjá okkar efnilegu og góðu þjálfurum.
Stjórnin og þjálfarar vilja jafnframt hvetja stelpur á aldrinum 15-19 ára til að halda áfram – eða byrja aftur – að æfa og hafa gaman af fótbolta. Eitt af markmiðum stjórnarinnar og þjálfarateymisins er að bjóða upp á sveigjanleika fyrir leikmenn þannig að hver og ein geti æft á sínum forsendum með tilliti til fjölda æfinga, álags og verkefna.
Æfingar hjá 2. og 3. flokki hefjast þriðjudaginn 19. október, en þessir flokkar æfa bæði í Boganum og á KA-vellinum.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig þátttöku liðanna okkar í mótum næsta árs verður háttað, en það mun skýrast út frá samsetningu leikmannahópsins á næstu mánuðum.
Ráðning þjálfara núna miðast við 2. og 3. flokk þar sem aldurssamsetning hópsins er þannig að nánast allar sem skráðar eru í Hamrana og eru hér á landi eru enn gjaldgengar með 2. flokki. Þær sem eldri eru og verða að sjálfsögðu áfram velkomnar á æfingar.