Fjórði útisigurinn, fjórða sætið

Þór/KA vann sinn fjórða útisigur í Bestu deildinni í sumar þegar liðið sótti FH heim í gær og hafði með sigrinum sætaskipti við FH.

Með 17 íslenskar knattspyrnukonur og þar af 16 sem koma úr yngri flokkum Þórs og KA og eina úr Völsungi héldu Jóhann Kristinn og Pétur Heiðar í Hafnarfjörðinn í gær, hömruðu á trú á verkefnið og þori til að spila fótbolta og komu svo heim á þriðja tímanum í nótt eftir um það bil 777 kílómetra akstur samdægurs fram og til baka með þrjú stig í pokanum.

  • 0-1  -  Karen María Sigurgeirsdóttir (58').

Sigur Þórs/KA var verðskuldaður, liðið skapaði sér fleiri hættuleg færi og hefði hæglega getað skorað fleiri mörk. FH-ingar fengu einnig hættuleg færi, en markverðir beggja liða stóðu sig frábærlega í gær.

Markverðirnir í stuði

Eina mark leiksins kom reyndar ekki fyrr en í seinni hálfleik, en með ólíkindum að ekki skyldi koma mark í fyrri hálfleiknum. Markverðir beggja liða sáu til þess. Í nokkur skipti voru okkar konur nálægt því að skora, Karen María fékk gott færi á fyrstu mínútu, Hulda Björg með skalla í samherja, Margrét með skot sem var meistaralega varið og Sandra María með skot sem var varið í þverslá og niður, bara til að nefna nokkur dæmi. Amalía skoraði mark, en var dæmd rangstæð.

Færin litu einnig dagsins ljós í seinni hálfleiknum, Hulda Ósk í dauðafæri, Sandra María sloppin ein í gegn en ranglega dæmd rangstæð, Agnes Birta með skallafæri eftir hornspyrnu og svo framvegis. Markmenn beggja liða áfram í stórum hlutverkum í seinni hálfleiknum eins og þeim fyrri.

Karen elskar Kaplakrikann

Þór/KA fékk fleiri og hættulegri færi í fyrri hálfleiknum, en FH-ingar mættu betur út í seinni hálfleikinn en þann fyrri og voru að koma sér betur inn í leikinn þegar svarið kom að norðan. Eina mark leiksins kom því á mjög góðum tíma fyrir Þór/KA, ofan í vaxandi sjálfstraust heimakvenna.

Karen María Sigurgeirsdóttir þekkir það að skora sigurmark í 1-0 sigri á FH í Kaplakrika. Hún gerði það á 89. mínútu í leik þessara félaga 2017 og svo aftur í gær á 58. mínútu, vann þá boltann af varnarmanni og skoraði af yfirvegun.

Sætaskipti við FH

Með sigrinum fór Þór/KA upp fyrir FH og situr nú í 4. sæti með 22 stig úr 14 leikjum, einu stigi meira en FH. Liðin höfðu sætaskipti í gær. Þróttur er næst fyrir ofan, með tveimur stigum meira en Þór/KA, en liðið á leik gegn Val í kvöld.

Næsti leikur Þórs/KA, og sá eini sem þarf að spila á mánudegi um verslunarmannahelgi, er gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. Leikurinn hefst kl. 16 á mánudag.

Fróðleiksmolar

  • Þór/KA hefur haldið markinu hreinu í sjö leikjum af 14 sem liðið hefur spilað í deildinni.
  • Aðeins í þremur af 14 leikjum liðsins í sumar hafa bæði lið skorað mark eða mörk
  • Af sex útileikjum hefur Þór/KA unnið fjóra, alla með 1-0, gegn Stjörnunni, ÍBV, Keflavík og nú FH.
  • Í tveimur síðustu leikjum hefur einn erlendur leikmaður verið í leikmannahópi félagsins og enginn í leiknum þar á undan. 
  • Í þremur síðustu leikjum hafa tvær spilað sínar fyrstu mínútur í Bestu deildinni, Arna Rut Orradóttir og Júlía Margrét Sveinsdóttir, og tvær að auki í fyrsta skipti í leikmannahópnum í leik í Bestu deildinni, Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Bríet Kolbrún Hinriksdóttir.
  • Í þessum sömu þremur leikjum hafa 22 íslenskar knattspyrnukonur verið á skýrslu og koma þær allar nema ein úr röðum yngri flokka Þórs og KA. Auk Melissu Lowder í markinu er Hulda Ósk Jónsdóttir sú eina sem spilaði ekki með yngri flokkum Þórs eða KA, en hún hóf ferilinn með Völsungi þar sem hún spilaði tvö tímabil í meistaraflokki, síðan tvö með KR og hefur svo verið óslitið með Þór/KA frá tímabilinu 2016, ef frá eru taldir nokkrir mánuðir með háskólaliði Notre Dame í Bandaríkjunum 2021. Hún er þannig á áttunda tímabili sínu með Þór/KA.
  • Sandra María Jessen handleggsbrotnaði illa í leik 21. júní og hefur misst af þremur leikjum. Hún er engu að síður enn næstmarkahæst í deildinni (ásamt nokkrum öðrum) með fimm mörk.