Karfan er tóm.
Þór/KA vann sinn fjórða útisigur í Bestu deildinni í sumar þegar liðið sótti FH heim í gær og hafði með sigrinum sætaskipti við FH.
Með 17 íslenskar knattspyrnukonur og þar af 16 sem koma úr yngri flokkum Þórs og KA og eina úr Völsungi héldu Jóhann Kristinn og Pétur Heiðar í Hafnarfjörðinn í gær, hömruðu á trú á verkefnið og þori til að spila fótbolta og komu svo heim á þriðja tímanum í nótt eftir um það bil 777 kílómetra akstur samdægurs fram og til baka með þrjú stig í pokanum.
Sigur Þórs/KA var verðskuldaður, liðið skapaði sér fleiri hættuleg færi og hefði hæglega getað skorað fleiri mörk. FH-ingar fengu einnig hættuleg færi, en markverðir beggja liða stóðu sig frábærlega í gær.
Eina mark leiksins kom reyndar ekki fyrr en í seinni hálfleik, en með ólíkindum að ekki skyldi koma mark í fyrri hálfleiknum. Markverðir beggja liða sáu til þess. Í nokkur skipti voru okkar konur nálægt því að skora, Karen María fékk gott færi á fyrstu mínútu, Hulda Björg með skalla í samherja, Margrét með skot sem var meistaralega varið og Sandra María með skot sem var varið í þverslá og niður, bara til að nefna nokkur dæmi. Amalía skoraði mark, en var dæmd rangstæð.
Færin litu einnig dagsins ljós í seinni hálfleiknum, Hulda Ósk í dauðafæri, Sandra María sloppin ein í gegn en ranglega dæmd rangstæð, Agnes Birta með skallafæri eftir hornspyrnu og svo framvegis. Markmenn beggja liða áfram í stórum hlutverkum í seinni hálfleiknum eins og þeim fyrri.
Þór/KA fékk fleiri og hættulegri færi í fyrri hálfleiknum, en FH-ingar mættu betur út í seinni hálfleikinn en þann fyrri og voru að koma sér betur inn í leikinn þegar svarið kom að norðan. Eina mark leiksins kom því á mjög góðum tíma fyrir Þór/KA, ofan í vaxandi sjálfstraust heimakvenna.
Karen María Sigurgeirsdóttir þekkir það að skora sigurmark í 1-0 sigri á FH í Kaplakrika. Hún gerði það á 89. mínútu í leik þessara félaga 2017 og svo aftur í gær á 58. mínútu, vann þá boltann af varnarmanni og skoraði af yfirvegun.
Með sigrinum fór Þór/KA upp fyrir FH og situr nú í 4. sæti með 22 stig úr 14 leikjum, einu stigi meira en FH. Liðin höfðu sætaskipti í gær. Þróttur er næst fyrir ofan, með tveimur stigum meira en Þór/KA, en liðið á leik gegn Val í kvöld.
Næsti leikur Þórs/KA, og sá eini sem þarf að spila á mánudegi um verslunarmannahelgi, er gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. Leikurinn hefst kl. 16 á mánudag.