Karfan er tóm.
Þór/KA hífði sig upp í sjötta sæti Pepsi Max-deildarinnar með 2-1 sigri á Fylki í Árbænum í dag.
Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið, en Fylkir þurfti nauðsynlega á stigum að halda til að halda sæti sínu í deildinni.
Eftir kröftugar fyrstu mínútur heimaliðsins náðu leikmenn Þórs/KA að spila sinn leik og gerðu það oft og tíðum mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Liðið spilaði oft vel saman og náði góðum sóknum sem skiluðu mörkum.
Karen María Sigurgeirsdóttir náði forystunni fyrir Þór/KA á 22. mínútu. Vel spiluð sókn skilaði boltanum til Karenar hægra megin í teignum þar sem hún lék á varnarmann Fylkis og skoraði örugglega af stuttu færi. Þetta var fimmta mark Karenar Maríu í deildinni í sumar, en hún er markahæst í liði Þórs/KA. Ekki liðu nema fimm mínútur þar til Fylkir hafði jafnað. Katla María Þórðardóttir skoraði á 27. mínútu.
Þegar komið var fram í viðbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Shaina Ashouri sitt fyrsta mark fyrir Þór/KA, en hún kom sem kunnugt er til okkar í sumarglugganum. Hulda Karen átti þá langa og háa sendingu fram völlinn þar sem Margrét Árnadóttir skallaði boltann aftur fyrir sig áfram í átt að marki Fylkis. Shaina tók við honum, var á undan varnarmönnum og með einfaldri gabbhreyfingu fór hún framhjá markverði Fylkis og renndi boltanum í netið.
Þór/KA fór því inn í klefa í leikhléinu með 2-1 forystu. Seinni hálfleikurinn einkenndist af mikilli baráttu, Þór/KA vildi skora þriðja markið til að herða tökin á leiknum og Fylkir beinlínis varð að bæta við marki og helst mörkum til að halda í vonina um að forðast fall. Bæði lið fengu nokkur þokkaleg tækifæri til að bæta við mörkum, en tókst ekki. Harpa Jóhannsdóttir varði meðal annars nokkrum sinnum mjög vel og sá um að Þór/KA hélt forystunni. Niðurstaðan því 2-1 sigur Þórs/KA og þrjú stig með í rútuna norður.
Með sigrinum hífði liðið sig upp í 6. sæti deildarinnar með 21 stig, tveimur stigum á undan ÍBV og tveimur stigum á eftir Stjörnunni. Þetta var fjórði útisigur liðsins í sumar, en eins og áður hefur komið fram hefur liðinu gengið mun betur á útivelli en heimavelli. Af 21 stig hafa 15 stig komið í útileikjum, en aðeins sex stig heima.
Staðan í deildinni og úrslit leikja (ksi.is).
Leikskýrslan (ksi.is).
Úrslit: Fylkir - Þór/KA 1-2 (1-2)
Mörk: Karen María Sigurgeirsdóttir 22', Shaina Ashouri 45'.
Gul spjöld: Margrét Árnadóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Shaina Ashouri.
Leikmannahópurinn: Harpa Jóhannsdóttir, Steingerður Snorradóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Margrét Árnadóttir, Saga Líf Sigurðardóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir (f), Colleen Kennedy (Ísfold Marý Sigtryggsdóttir 75'), Arna Kristinsdóttir (Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir 68'), Shaina Ashouri, Hulda Karen Ingvarsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir.
Ónotaðir varamenn: Sara Mjöll Jóhannsdóttir, Rut Matthíasdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir.
Næsti leikur: Þor/KA - Keflavík, sunnudaginn 12. september kl. 14.
Fyrir og eftir leik. Símamyndir úr Árbænum.