Karfan er tóm.
Ársfundur fyrir Þór/KA var haldinn í dag. Fimm breytingar eru á stjórn. Reksturinn í jafnvægi, en þörf á auknum tekjum.
Fundurinn var með hefðbundnu sniði, stuttur og laggóður.
Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar, fór yfir starfsemina á liðnu ári. Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, kynnti ársreikning í fjarveru fráfarandi gjaldkera. Þá fór Jón Stefán Jónsson, annar aðalþjálfara meistaraflokks, stuttlega yfir þeirra vinnu og væntingar.
Rekstur félagsins var í jafnvægi og samtölur svipaðar og árið á undan, en hvort tveggja tekjur og gjöld drógust saman frá árinu 2020. Smávægilegt tap var á rekstrinum á liðnu ári. Fram kom í ársskýrslu og yfirferð um reikninga að þrátt fyrir jafnvægi í rekstrinum sé alltaf þörf á nýjum og meiri tekjum til að standa straum af rekstri félagsins, sem nú inniheldur meistaraflokk, 2. flokk og 3. flokk.
Fimm af sjö sem sátu í stjórn á liðnu ári gáfu ekki kost á sér áfram, en það eru þau Anný Björg Pálmadóttir, Ólafur Svansson, Sólveig Tryggvadóttir, Stefán Freyr Jóhannsson og Víðir Rósberg Egilsson. Ólafur og Stefán Freyr höfðu starfað í stjórninni í nokkur ár, en hin þrjú komu inn í stjórnina fyrir ári. Fráfarandi stjórnarfólki eru þökkuð störf þeirra í þágu félagsins.
Dóra Sif Sigtryggsdóttir og Guðrún Una Jónsdóttir gáfu áfram kost á sér til setu í stjórninni. Ný inn í stjórn eru þau Bjarni Freyr Guðmundason, Björgvin Hrannar Björgvinsson, Hlynur Hallsson, Íris Egilsdóttir og Nanna Björnsdóttir.
Heimasíðan þakkar fráfarandi stjórnarfólki fyrir störf þess í þágu félagsins og býður nýtt fólk velkomið til þessara skemmtilegu starfa.