Fimm mörk og sigur í Keflavík

Byrjunarliðið gegn Keflavík. Fremri röð frá vinstri: Brooke Lampe, Harpa Jóhannsdóttir, Hulda Björg …
Byrjunarliðið gegn Keflavík. Fremri röð frá vinstri: Brooke Lampe, Harpa Jóhannsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir (f), Saga Líf Sigurðardóttir og Tiffany McCarty. Aftari röð frá vinstri: Unnur Stefánsdóttir, Vigdís Edda Friðriksdóttir, Hulda Karen Ingvarsdóttir, Margrét Árnadóttir, Andrea Mist Pálsdóttir og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir.

 

Andrea Mist Pálsdóttir og Margrét Árnadóttir skoruðu tvö mörk hvor og Tiffany McCarty eitt í 5-0 sigri gegn Keflavík í lokaleik Þórs/KA í Faxaflóamótinu.

Þór/KA stelpur mættu ákveðnar til leiks og voru sterkara liðið allan leikinn. Þjálfararnir tefldu fram öflugu liði, með blöndu af eldri og yngri leikmönnum, nýjum leikmönnum og heimastelpum. Tiffany McCarty kom til landsins á laugardagsmorguninn og spilaði sinn fyrsta leik með liðinu í gær.

Fyrsta markið kom á 24. mínútu. Brotið var á Ísfold Marý fyrir utan teig. Andrea Mist Pálsdóttir skoraði beint úr aukaspyrnunni af um 30-35 metra færi.

Á 36. mínútu fengu Keflvíkingar aukaspyrnu rétt framan við miðlínu. Andrea Mist skallaði boltann frá, til Vigdísar Eddu sem lék honum áfram og átti síðan stungusendingu inn fyrir vörn Keflvíkinga á hárréttu augnabliki. Tiffany McCarty komin á auðan sjó, fór framhjá markverðinum og renndi boltanum í netið. Fyrsta mark Tiffany fyrir Þór/KA, en hún kom til landsins daginn fyrir leik.

Þór/KA voru sterkari í fyrri hálfleiknum og spiluðu vel saman, sköpuðu færi og voru með 2-0 forystu í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var á svipuðum nótum.

Þrjú mörk í seinni hálfleiknum

Á 60. mínútu tóku Keflvíkingar hornspyrnu. Harpa greip boltann og sóknarmenn okkar hröðuðu sér fram völlinn. Harpa ákvað að hlaða í eina stoðsendingu, tók langt útspark, boltinn skoppaði framan við teig Keflvíkinga, markvörðurinn kom askvaðandi, en Margrét Árnadóttir lyfti boltanum snyrtilega yfir hana og í autt markið.

Fjórða markið kom á 73. mínútu. Þór/KA vann þá boltann framarlega á vellinum með góðri pressu, Tiffany McCarty, Unnur Stefánsdóttir og Margrét Árnadóttir léku sín á milli, Margrét fór upp að endalínu og renndi boltanum út í teiginn þar sem Andrea Mist Pálsdóttir átti frábært skor, viðstöðulaust, í mark Keflavíkur.

Margrét skoraði svo fimmta markið á 86. mínútu. Andrea Mist tók þá aukaspyrnu yfir á fjærstöng hægra megin, Hulda Björg Hannesdóttir kom boltanum fyrir og Margrét Árnadóttir skallaði í markið af eins metra færi eða svo.

Leikurinn var ekki algjör einstefna þótt tölurnar gætu bent til þess. Keflvíkingar fengu nokkur færi, en Harpa varði nokkrum sinnum mjög vel og hélt markinu hreinu. Vörnin var líka örugg í flestum sínum aðgerðum, eins og reyndar allt liðið.

Góð helgi, hröð heimför

Eins og áður hefur komið fram hélt liðið suður á föstudag, mætti Haukum á föstudagskvöld og svo Keflvíkingum í gær, sunnudag. Laugardagurinn var notaður til hvíldar og skemmtunar og svo var ekið í snarhasti heim eftir leik í gær í tilefni óárennilegrar veðurspár.

„Þetta var góð helgi fyrir liðið,“ sagði Perry Mclachlan, annar þjálfara Þórs/KA, í samtali við heimasíðuna. „Mikill spiltími, mjög blandað og ungt lið gegn Haukum, frábær reynsla fyrir hina ungu leikmenn sem fengu mínútur þar. Við tefldum fram reyndari leikmönnum í byrjunarliðinu gegn Keflavík og sýndum okkar bestu frammistöðu núna á undirbúningstímabilinu. Það er alltaf ánægjulegt að skora sex mörk og fá aðeins á sig eitt á 180 mínutna leiktíma. Við eigum enn langt eftir, mikil vinna framundan, en við erum á leið í rétta átt, þurfum bara að byggja upp leik fyrir leik.“

Þór/KA endaði í 2. sæti í Faxaflóamótinu með sjö stig - tveir sigrar, eitt jafntefli og eitt tap. Afturelding vann mótið með fullt hús stiga.

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Lokastaðan í mótinu.

Upptaka til sölu á Keflavík TV

Keflavík TV tók leikinn upp - náðu ekki að streyma beint vegna veikinda - og mögulegt er að horfa á upptökuna á keftv.is - kostar 1.000 krónur. 


Markaskorarar dagsins: Tiffany McCarty, Margrét Árnadóttir og Andrea Mist Pálsdóttir.