Karfan er tóm.
Fimm mörk, þrjú stig og Þór/KA færði sig upp um eitt sæti í Bestu deildinni með sigri á Tindastóli í gærkvöld. Þegar á allt er litið hefði sigurinn hæglegaa getað orðið stærri.
Þór/KA vann fimm marka sigur á liði Tindastóls í 9. umferð Bestu deildarinnar í gærkvöld. Þegar á allt er litið hefði sigurinn hæglega getað orðið stærri.
Öll mörkin komu á síðasta hálftíma leiksins og er ekki fjarri lagi að tala um sigur hugarfarsins. Liðið vann sig út úr áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Sandra María Jessen handarbrotnaði. Meiðsli Söndru Maríu höfðu greinilega áhrif á leik liðsins í upphafi seinni hálfleiks, en saman vann liðið sig í gegnum mótlætið og yfirtók leikinn gjörsamlega á nokkrum mínútum.
Fyrri hálfleikurinn gaf ekki beint fyrirheit um markaregn, og þó. Þegar á allt er litið komust okkar stelpur nokkrum sinnum í þokkaleg og jafnvel mjög góð færi, en yfirleitt vantaði eitthvað örlítið upp á að úr þeim yrðu mörk. Skot í þverslá, aukaspyrna sem dæmd rétt fyrir utan teig á brot sem var inni í teig, gestirnir bjarga á línu, skot framhjá úr dauðafæri. Á öðrum degi hefðu öll þessi atvik getað gefið mörk, en boltinn fór ekki í netið og þá telja færin ekki, markalaust eftir fyrri hálfleikinn.
Stærstu tíðindi fyrri hálfleiksins voru um leið mikið áfall fyrir Þór/KA liðið. Sandra María átti þá skot að marki sem fór í varnarmann og þaðan hrökk boltinn aftur í vinstri hönd hennar. Sandra María þurfti að fara af velli og var flutt með sjúkrabíl á slysadeild. Gríðarlegt áfall fyrir hana sjálfa fyrst og fremst, en hafði greinilega og eðlilega mikil áhrif á liðsfélagana líka.
Gestirnir náðu að skora snemma í seinni hálfleiknum, fyrirgjöf og skalli, en dæmt brot á sóknarmann Tindastóls. Skiptar skoðanir um réttmæti. Eftir að okkar stelpur náðu að hrista af sér áfallið vegna meiðsla Söndru Maríu yfirtóku þær leikinn og létu ekkert stöðva sig.
1-0 – Dominique Randle (62‘)
Jakobína tekur horn, varnarmenn Tindastóls ná ekki að koma boltanum frá og hann fellur fyrir Dominique í miðjum teignum. Hún á gott skot með vinstri og nær forystunni fyrir Þór/KA með sínu fyrsta marki fyrir Þór/KA og auðvitað þar með einnig sínu fyrsta marki í Bestu deildinni.
2-0 – Karen María Sigurgeirsdóttir (64‘)
Örstuttu eftir fyrsta markið fylgdi kné kviði og staðan allt í einu orðin 2-0. Amalía Árnadóttir á sendingu upp hægri kantinn þar sem Hulda Ósk tók við boltanum, fór inn í teiginn og sendi á Karen Maríu sem renndi boltanum í markið alveg út við stöng.
3-0 – Una Móeiður Hlynsdóttir (68‘)
Hulda Ósk sendi boltann fram völlinn þar sem Una Móeiður skallaði boltann áfram og var síðan á undan varnarmanni Tindastóls í boltann og renndi honum svo framhjá markverðinum.
4-0 – Hulda Ósk Jónsdóttir (79‘). Stoðsending: Hulda Björg Hannesdóttir
Hulda Björg átti sendingu fram á Huldu Ósk sem lék upp að teignum og snaraði fram skærunum á móti varnarmanni Tindastóls, fyrst á röngunni, svo á réttunni, aðeins til hægri og sendi boltann svo með skemmtilegum snúningi í markið.
5-0 – Hulda Ósk Jónsdóttir (víti) (90+2‘)
Hulda Ósk skoraði úr víti eftir að varnarmaður Tindastóls hafði knúsað boltann í markteignum. Hulda Ósk á reyndar sjálf höfundarrétt að aðdragandanum, fór skemmtilega framhjá varnarmanni og renndi á Bríeti inn í markteignum, skot Bríetar varið, Amalía ætlar að pota boltanum í markið en hann fer í fangið á varnarmanni Tindastóls.
Úrslit leikja í 9. umferðinni voru áhugaverð. Þrjú af fjórum liðum sem voru fyrir ofan Þór/KA gerðu jafntefli í kvöld. Með sigrinum á liði Tindastóls færði Þór/KA sig upp um eitt sæti, fór upp fyrir Þrótt og situr nú í 4. sæti með 15 stig. Liðin fyrir ofan eru með 20, 17 og 16 stig.
Í leikslok var að venju valin ein úr hvoru liði sem „Sprettir leiksins“ og hlutu að launum gjafabréf frá Sprettinum. Aldís María Jóhannsdóttir hlaut þann heiður í liði gestanna, en það þarf líklega ekki að koma neinum á óvart að Hulda Ósk Jónsdóttir – með tvö mörk, tvær stoðsendingar og höfundarrétt að vítinu – var valin úr okkar liði.
Næsti leikur liðsins verður einnig heimaleikur, þegar Stjarnan kemur norður sunnudaginn 25. júní. Þar á eftir kemur svo útileikur gegn Keflavík 4. júlí og heimaleikur gegn ÍBV 9. júlí. Eftir þessa þrjá næstu leiki kemur svo landsleikjahlé og væntanlega einnig hlé vegna frestunar leikja í tengslum við lokamót EM U19 landsliðsins.