Fatta 28 ára að ég er frekar góð í fótbolta

Arna Sif og liðsfélagarnir í Þór/KA fagna marki. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson
Arna Sif og liðsfélagarnir í Þór/KA fagna marki. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson

 

Strax að loknum síðasta leiknum hjá Þór/KA í Íslandsmótinu undir miðjan september óskaði heimasíðuritari eftir því að fá að setjast niður með fyrirliðanum Örnu Sif Ásgrímsdóttur til að gera upp tímabilið og bara almennt að ræða um fótboltann, félagið og hana sjálfa. Af mörgum og mismunandi ástæðum varð dráttur á að úr þessu yrði - en svo gerðist það.

Við sitjum í fundarherbergi á 2. hæð í Hamri, félagsheimili Þórs, með útsýni yfir heimavöllinn. Arna Sif hóf knattspyrnuferilinn einmitt í yngri flokkum Þórs, en var komin í meistaraflokkshópinn hjá Þór/KA þegar hún var 15 ára, árið 2007. Væntanlega getur hún og hefur miðlað af þessari reynslu til ungra leikmanna í dag. Komum að því síðar.

Hún hefur nú spilað sinn síðasta leik fyrir Þór/KA, í bili að minnsta kosti, því nýverið ákvað hún að söðla um og hefur samið við Íslandsmeistara Vals. Áður hafði hún hleypt heimdraganum og farið utan í atvinnumennsku eftir fyrstu átta árin á heimaslóðum. Hún spilaði í sænsku úrvalsdeildinni 2015, síðan með Val 2016 og 2017, Verona á Ítalíu í lok árs 2017 og svo aftur með Þór/KA frá 2018, þaðan sem hún var lánuð til Skotlands í upphafi þessa árs. Ásamt því að spila með Þór/KA undanfarin ár hefur Arna Sif meðal annars stundað nám við Háskólann á Akureyri og þjálfað yngri flokka hjá KA.

Margt gott í sumar, en vantaði mörkin

Byrjum á nýafstöðnu tímabili - nú eru um tveir mánuðir liðnir frá því að keppni lauk á Íslandsmótinu. Hvernig metur þú þetta tímabil núna út frá árangri og því sem verið er að gera hjá Þór/KA?

„Það var mjög auðvelt að horfa á töfluna og fara tala um að þetta hafi ekki verið gott sumar út af sætinu okkar í henni. Ég held að fyrst hafi maður kannski talað of hratt, bara ef maður horfir á það. Við erum vön að vera ofar og viljum alltaf vera nálægt toppnum en það gleymist kannski að taka inn í reikninginn þær breytingar sem hafa orðið síðustu ár,“ segir Arna Sif. Hér má skjóta inn til fróðleiks að á árunum 2008-2019 var Þór/KA eina liðið sem aldrei endaði neðar en í 4. sæti Íslandsmótsins.

„Ég held svona eftir á að hyggja þegar ég er aðeins búin að hafa tíma til að endurspegla sumarið og fara yfir – ég er búin að horfa á leiki aftur og það var bara margt þrælgott í þessu sumri. Mér fannst við betri en í fyrra á mjög mörgum sviðum. Það er eitthvað sem maður pældi ekkert endilega í af því að stigin voru ekki að koma, en sem fótboltalið og leikmenn fannst mér margt miklu betra en það var í fyrra og hálfpartinn galið að enda ekki með fleiri stig af því að mér fannst í sumum leikjum að við værum yfir á flestum sviðum, en það vantaði bara þessi blessuðu mörk.“

Arna Sif segir stelpurnar í Þór/KA því geta verið sáttar með tímabilið, sérstaklega þegar litið er til þess þegar stefnt er að því að gera betur en í fyrra og vaxa sem leikmenn, sem hún segir að þær hafi náð og geti verið ánægðar með.

Til upprifjunar þá var mótið 2020 ekki klárað. Þór/KA náði að spila 16 leiki (af 18) og endaði í 7. sæti með 18 stig, jafn mörg og Þróttur og Stjarnan sem röðuðust ofar á markamun. Stigin voru 1,13 að meðaltali í leik. Liðið skoraði 20 mörk og fékk á sig 37. - Smellið hér til að skoða töfluna 2020.

Árið 2021 var í samanburði þannig að liðið endaði í 6. sæti, einu ofar en í fyrra, með 22 stig, jafn mörg og ÍBV en raðaðist að þessu sinni fyrir ofan á markamun. Markatalan var kannski það sem breyttist mest á milli ára þegar horft er á töfluna, en liðið skoraði 18 mörk í 18 leikjum og fékk á sig 23, næstfæst allra liða í deildinni. Stigin voru að meðaltali 1,22 í leik, sem er meira en í fyrra. - Smellið hér til að skoða töfluna 2021.


Arna Sif í leik gegn Þrótti. Mynd: Páll Jóhannesson/thorsport.is. 

Deildin ekki lélegri en áður

En hvað fannst Örnu Sif um deildina í ár í samanburði við undanfarin tímabil? Hvernig metur hún þróunina í deildinni, hjá einstökum liðum og svo hjá Þór/KA?

„Það var mikið talað um það fyrir tímabilið hvað hún yrði mikið slakari en í fyrra, í ljósi þess að það voru margar stelpur að fara í atvinnumennsku. Ég er ekki sammála að hún hafi verið lélegri, í rauninni, heldur bara að hún var jafnari og svo er það náttúrulega alltaf þannig þegar leikmenn fara og aðrir koma í staðinn, þá stíga þeir upp,“ segir hún og kveðst telja að deildin hafi í heild sinni verið fín.

„Það voru einhvern veginn allir sem gátu tekið stig af öllum. Liðin sem komu upp, þetta voru ekki örugg stig. Það hefur oft verið þannig í gegnum tíðina að nýliðar í deildinni eiga erfitt og þeir leikir ættu kannski að vera skyldusigrar. Það var alls ekki raunin núna, fannst mér. Þetta voru allt hörku leikir, alveg sama hvort þú varst að spila við toppliðin eða botnliðin.

Ég held að það sé líka bara jákvætt, það þarf ekki endilega að vera neikvætt þegar góðir leikmenn fara úr deildinni. Það býr til pláss fyrir aðra til þess að sýna sig og sanna og ég held að það sé alltaf svoleiðis að leikmenn sem eru kannski búnir að vera á mörkum þess að vera með þeim bestu, þeir verða betri,“ segir Arna og bætir við að leikmenn séu líka árinu eldri og þroskaðri, og þannig sé þróunin í rétta átt að hennar mati.

Aðspurð um hvaða lið, ef einhver, hafi komið henni á óvart segir hún ekki endilega að eitthvað lið hafi komið á óvart, en hins vegar sé gaman að sjá framfarirnar.

„Af því að ég var að tala um framfarir frá síðasta ári hjá okkur, þá var það klárlega hjá öllum öðrum líka,“ segir Arna Sif. Hún tekur Stjörnuna sem dæmi, bendir á að félagið hafi verið í uppbyggingarfasa sem virðist ganga vel. „Það var erfitt, svo var það minna erfitt og svo var það bara flott. Eins með Þrótt. Það er mjög gaman að sjá Þrótt, hvernig þær hafa verið að gera þetta. Ég held að það séu sérstaklega þessi tvö lið. Ég veit ekki hvort ég myndi segja að þau hafi komið á óvart, en það er gaman að sjá þetta ferli sem í gangi þar.“

Eitt af mínum bestu tímabilum

Arna Sif var valin besti leikmaður liðsins á lokahófi í haust. En hvað finnst henni sjálfri um frammistöðuna á þessu ári? Er hún sátt við eigið framlag?

„Ég er mjög sátt með mitt eftir síðasta tímabil. Þetta var pínu skrýtið allt saman, það var skrýtið undirbúningstímabil og mikið af stoppum. En það var gaman og skilaði mér miklu að fara út og fá fullt af leikjum. Ég kom til baka í góðu standi og er bara mjög sátt með mína frammistöðu,“ segir hún og þegar upp er staðið sé þetta mögulega eitt af hennar bestu tímabilum persónulega. „En það þarf eiginlega að taka inn í reikninginn að þetta er öðruvísi en þetta var fyrir nokkrum árum og mitt hlutverk hefur breyst mikið. Við erum verjast meira og það mæðir mikið á manni. En ég tel mig hafa gert það vel.“

„Það er búið að vera ferli í gangi hjá mér, mikil vinna í sjálfri mér og bara öllum hliðum íþróttarinnar, bæði líkamlega og andlega, sem ég er bara á góðum stað með. Bæði finnst mér ég uppskera í sumar sem fótboltakona og líka sem manneskja og það skilaði sér í að mér fannst ég betri leikmaður og fyrirliði, mér fannst ég geta gefið meira af mér,“ segir Arna Sif.

Hún kveðst hafa átt mun betri tíma í ár en í fyrra, vera í betra jafnvægi núna þó gengi liðsins hafi ekki verið eins og vonast var til. Árið í fyrra hafi verið erfitt og hún hafi tekið slæmt gengi liðsins inn á sig og átt erfitt með það hvað liðinu gekk illa.

„Ég tók það svo inn á mig í fyrra og tók því pínu persónulega. Ég var kannski ekki í góðu jafnvægi með það að ég skildi það ekki eftir hér (á svæðinu), ég fór með það heim og gat ekki sofið og var að stressa mig og pæla í því og allskonar svona. En mér fannst ég miklu betur í stakk búin fyrir það núna, bara í miklu meira jafnvægi og þroskaðri til að takast á við það og mér fannst það skila mér heilmiklu í sumar. Ég get alveg sagt það að ég er mjög ánægð með mína frammistöðu í sumar.“


Arna Sif í loftinu að berjast um boltann við Heiðdísi Lillýjardóttur í jafnteflisleik gegn Breiðabliki - þar sem Arna skoraði jöfnunarmarkið í uppbótartíma. Mynd: Þórir Tryggva.

Óhætt er að segja að hlutverk Örnu Sifjar í liðinu hafi verið stórt og hún áberandi í öllum leikjum, sem kemur kannski enn betur í ljós þegar liðið gengur í gegnum breytingar, missir leikmenn og nýjar og ungar stelpur taka við stærri hlutverkum.

Það eru kannski engar ýkjur að segja að þú sért með liðið og leikinn á herðunum í 90+ mínútur í hverjum leik. Finnst þér það taka meira á þig andlega og líkamlega að vera í þessari stöðu – eða er þetta bara einmitt það sem þú lifir fyrir, að vera alltaf í baráttunni, alltaf í eldlínunni?

„Það hafði klárlega verri áhrif á mig í fyrra og nú ætla ég ekki að sitja hérna og tala um að þetta hafi verið allt ég, eða ég hafi þurft að gera allt eða vera með einhverjar svona yfirlýsingar. En auðvitað, sem fyrirliði liðsins og reynslumesti leikmaður liðsins í svona ungu liði, auðvitað er ábyrgðin mikil. Ég er bara þannig manneskja að ég vil taka mikla ábyrgð og allt það, en ég átti erfitt með það í fyrra. Ég átti það alveg til kannski eftir leiki þegar ég kom heim þá var ég að pirra mig á þessari stöðu. Ég fann vel að ábyrgðin var mjög mikil á mér og átti smá erfitt með það. Svo var ekki að ganga vel og þá hlýtur það að vera mér að kenna, ég var ekki að gera þetta nægilega vel. Þetta var pínu vítahringur hvað það varðar,“ segir hún um tímabilið 2020.

„En eins og ég nefndi áðan, staðan var svipuð í ár, aftur, langelst og reynslumest og allt þetta. En mér fannst ég bara miklu meira til í það og hafði líka alveg gaman af því. Það var einhver umræða í sumar að það hentaði mér vel að vera í liði eins og Þór/KA af því að við værum að verjast mjög mikið. Við erum með ungt lið, margir leikmenn að stíga sín fyrstu skref og eðlilega gera mistök. Þannig lærir maður og verður betri. En þá verður maður að vera tilbúin til að hjálpa og kannski þrífa upp, stundum í smá yfirvinnu. Ég var meira klár í það í ár og bara sátt með það.“

Covid-stoppin erfiðari en fólk gerir sér grein fyrir

Undanfarin tvö tímabil hafa verið óvenjuleg vegna heimsfaraldurs og mikilla áhrifa hans á æfingar og keppni. Hvernig hefur Arna Sif upplifað knattspyrnu og covid?

„Síðasta ár (2020) var bara eitthvað sem maður á eftir að hlæja að eftir einhvern tíma. Þetta var algjörlega galið með öllum þessum stoppum. Þetta er erfiðara en fólk sem er ekki í þessari stöðu gerir sér grein fyrir, að vera komin af stað og þurfa að stoppa, af því að það krefst mikils aga í þessum pásum, nú er þetta undir þér komið,“ segir hún og nefnir sérstaklega að þetta geti verið erfitt fyrir yngri leikmenn, þessu fylgi mikill agi og sé mikil vinna að viðhalda forminu með það í huga að tímabilið muni einhvern tímann byrja og þá þurfi þær að vera klárar í slaginn.

Hún segir árið í ár hafa verið öðruvísi. „En ég myndi ekki segja að ég hafi orðið mikið vör við það í ár, þetta var öllu léttara, bara svo lengi sem það kom ekki stopp. Áhorfendur eða ekki áhorfendur, mér fannst það ekki skipta höfuðmáli, þannig að þetta var ferlega furðulegt að upplifa síðasta ár, en þetta ár fannst mér svona nokkuð hefðbundið.“

Hvernig var munurinn á því að vera hér heima í faraldrinum á undirbúningstímabilinu 2020 og svo úti í Skotlandi hjá Glasgow City FC fyrstu mánuði ársins 2021?

„Þegar þetta var stoppað í fyrra þá var þetta bara þessar klassísku heimaæfingar og út að hlaupa. En úti í Skotlandi á þessu ári var allt reynt. Þeir mjólkuðu þetta eins og þeir gátu. Það sem við gátum fengið, við tókum það. Þótt það þýði að þjálfarinn þurfi að vera úti á velli í sex tíma með einn leikmann í einu í einhvern x tíma eða ekki. Það gekk alveg upp þannig að það var kannski munurinn að þótt þetta væri allt saman stopp þá fengum við einhvers staðar leyfi fyrir einhverju, þó það væri bara pínulítið. Við byrjuðum í byrjun mars að æfa sem lið, en í allan þennan tíma vorum við búnar að fá að æfa tvær og tvær saman, sem breytti bara heilmiklu þótt það sé aldrei það sama og að æfa í hóp og spila og allt þetta,“ segir Arna Sif og nefnir að í janúar og febrúar þegar þær voru tvær og tvær saman að æfa með bolta hafi gefist meiri tími til að sinna allskonar hlutum sem kannski væri ekki farið eins mikið í á venjulegum hópæfingum, meiri tími til að æfa sendingar og móttökur, sem dæmi. „Þetta var góður tími til að bæta sig í því. Þú ferð auðvitað í sendingar og þannig á æfingum, en þetta eru bara tvær og tvær að æfa þessa litlu hluti sem þú gerir í yngri flokkunum,“ segir hún og heldur áfram: „Þannig að það hjálpaði heilmikið til, fannst mér. Munurinn liggur kannski þar að það var smá svigrúm fyrir eitthvað sem var bara ekki leyft hérna heima,“ segir hún um samanburðinn á undirbúningstímabilinu hér heima 2020 og svo í Skotlandi á þessu ári.

En styrktu þessir erfiðleikar hópinn hjá Þór/KA, það að takast á við covid og allt sem því fylgdi, sérstaklega árið 2020?

„Já, ég myndi segja að þetta hafi styrkt hópinn að einhverju leyti. Maður var í miklum samskiptum við allar, og kannski einhverjar sem maður er ekkert alltaf mikið að ræða við, bara að tékka hvernig þeim gangi. Við vorum duglegar með alla þessa samfélagsmiðla, leyfa hver annarri að fylgjast með, hvað við vorum að gera, hvað við vorum að borða og allskonar þannig hluti. Ég held að það hafi alveg styrkt hópinn talsvert," segir hún og bendir á að þegar ekkert mátti gera hafi gefist meiri tími, en síðan hafi það verið ótrúlega gott þegar loksins mátti byrja aftur.

„Ég held að þetta hafi klárlega áhrif á okkur sem og bara öll lið. Þú æfir ekki íþróttina. Það er eitt að fara út að hlaupa og fara og senda á milli og svo er bara allt annað að spila leikinn. En ég er ekkert að væla yfir því, þetta hafði jafn mikil áhrif á okkur og alla aðra, en það var kannski það eina sem var sjáanlegt, það var kannski meiri vorbragur yfir þessum leikjum þegar það loksins byrjaði. Það var augljóst að liðin voru ekki búin að vera að spila mikið.“

Arna Sif 17 ára í leik með Þór/KA 2009. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Var sjálf feimin og fór með veggjum í byrjun

Eins og oft hefur komið fram hafa orðið miklar breytingar á liðinu hjá Þór/KA undanfarin ár og margar ungar stelpur að fá tækifæri og stærri hlutverk innan liðsins. Óvenju ungt lið, en hugsar Arna Sif til baka til áranna þegar hún var sjálf á þessum aldri og var að byrja í meistaraflokki, núna þegar hún hefur verið að spila með þessum ungu stelpum sem fyrirliði og reyndasti leikmaður liðsins?

„Já, það er auðvelt og gaman að hugsa til baka, bara að sjá muninn á leikmönnum sem eru að koma upp og hvernig maður var sjálfur. Þetta eru bara börn og ég var bara barn og það er gaman að sjá hvernig þær eru núna versus hvernig ég var sjálf. Ég gleymi aldrei þegar ég var að mæta á fyrstu æfingarnar, ég fór bara með veggjum, var feimin og ef einhver sagði mér að fara þangað þá fór ég þangað. Ég bar mikla virðingu fyrir þessu liði og leikmönnunum sem voru, þetta skipti máli og maður vildi vera þarna og til í að gera hvað sem er til að þóknast þeim, í rauninni.

Það er gaman að sjá að það eru alls konar karakterar sem koma upp, sumar kannski feimnari og láta lítið fyrir sér fara og aðrar sem eru þannig að maður sér að þær eru mættar til að vera þarna, fullar af sjálfstrausti og láta í sér heyra og svona. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað þetta er stór og flottur hópur af mjög efnilegum stelpum.“

En hvernig er samanburðurinn á þessum ungu leikmönnum núna og þegar þú varst að byrja í meistaraflokki. Sérðu framfarir í því að ungir leikmenn í dag, bæði hér og í öðrum liðum, séu betri en þú og jafnöldrur þínar voru fyrir tvítugt?

„Ég veit það ekki, já væri kannski alveg hægt að segja það. Ég myndi segja að það séu fleiri góðar. Þegar ég er að koma upp þá voru ekkert mjög margar. Á þeim tíma var ég ein úr mínum árgangi og held ég bara tvær úr '91 árganginum sem voru komnar upp í meistaraflokk. En þú sérð að núna síðustu tvö ár hafa kannski verið þrjár, fjórar, fimm í hóp og margar sem munu koma inn í þetta núna úr 3. flokki, bara af því að það er ótrúlega mikið af mjög efnilegum stelpum og það er stutt skref upp í meistaraflokkinn núna. Munurinn gæti verið þar að það eru fleiri góðar.“

Þú getur allt sem þú vilt!

Ef þú fengir tækifæri til að segja eitthvað við 15-17 ára gömlu Örnu Sif eftir það sem þú hefur upplifað og lært í gegnum ferilinn. Hvað myndirðu segja við hana?

„Vá, ég myndi segja svo margt. Ég myndi breyta á allan hátt hvernig ég talaði við hana. Eitthvað sem ég er búin að læra núna og ég fæ bara liggur við tár í augun að hugsa til þess að vera búin að fara í gegnum allan þennan feril sem er að mörgu leyti flottur og búin að gera alls konar hluti og fá að upplifa marga geggjaða hluti – er að hafa meiri trú á sér, af því að við getum allt sem við viljum. Ég var mjög sein að fatta það, þrátt fyrir að hafa farið í atvinnumennsku og landslið og allt þetta. Það var alltaf einhver púki á öxlinni sem bara: Já, þau munu sjá að þú getur þetta ekki. Það kemur að því að þau sjá að þú ert ekki nógu góð. - Maður gerði þetta alveg, en það er ógeðslega leiðinlegt að fara alla þessa leið með einhvern á öxlinni. Þú ert að þræta við hann og hann vinnur oftast. Ég myndi segja við 14, 15, 16 ára Örnu: Þú getur allt sem þú vilt!

Finnst þér vanta meiri áherslu á þennan þátt, að þjálfa og vinna með andlegu hliðina?

„Alveg 100%. Þetta er eitthvað sem ég hef verið að vinna í, ég var að tala um sjálfsvinnu áðan, eitthvað sem ég hef verið að vinna mikið í núna kannski síðasta eitt og hálft, að verða tvö ár, að ég er 28 ára þegar ég fatta að ég er kannski bara frekar góð í fótbolta. Ég er kannski bara frekar verðug, bæði alls sem ég hef fengið og gert. Ég er búin að fara í svo marga hringi með þetta, hvað sé hægt að gera. Því ég myndi elska að hjálpa yngri leikmönnum, bara að sjá það aðeins fyrr. Mikilvægi andlegs styrks og sjálfsástar.

Ég er ekki að segja að við þurfum að verða snillingar eða meistarar í því 15 ára. Maður er bara barn og óþroskaður og á eftir að taka út heilmikinn þroska og það er partur af lífinu. Þú átt eftir að hlaupa á veggi og það er bara partur af því. Þú þarft að gera það og þarft að sjá það sjálf og í því er alltaf lærdómur og þroski. En ef maður gæti hjálpað einhverjum að sjá það bara aðeins fyrr, það er draumurinn minn. Við eyðum öllum vetrinum í Boganum á fótboltaæfingum, við æfum fullt af klukkutímum í Baldvinsstofu í líkamlegan styrk. Við eyðum engum mínútum í andlegan styrk, engum. Það fyrir mér er bara alveg jafn mikilvægt, ef ekki mikilvægara en allt hitt. Af því að ef hausinn á þér og þessi partur eru ekki í lagi þá skipta þessir klukkutímar í Boganum eða ræktinni ekki eins miklu máli.“


Arna Sif í lokaleik sínum með Þór/KA - í bili að minnsta kosti - gegn Keflavík í 18. umferð Íslandsmótsins. Mynd: Þórir Tryggva.

Atvinnumennskan erfið en lærdómsrík

Ungar knattspyrnukonur dreymir margar um að komast út í atvinnumennsku og hafa nokkrar úr okkar röðum átt því láni að fagna að fá að upplifa þann draum í lengri eða skemmri tíma. Eins og nefnt var í upphafi hefur Arna Sif komið við í þremur löndum utan Íslands. Kannski geta þessar ungu stelpur eitthvað lært af hennar reynslu. En hvernig upplifir Arna sjálf þessi tímabil á ferlinum?

„Svíþjóð var að flestu leyti bara frábær tími. Ég fer út ung, ég er 22ja ára þegar ég fer út og þá bara – ég veit það núna, en vissi það ekki þá – er bara mjög óþroskuð líka. Bæði um lífið og sérstaklega sjálfa mig. Ég fer þarna út 2015 og mun aldrei gleyma að þetta var ógeðslega spennandi og maður var búin að tala um þetta lengi að þetta væri draumurinn, en svo þegar kom að þessu þá varð ég bara mjög hrædd og kvíðin. Ég fer á viku „trial“ og gengur vel og bara flott. Næstsíðasta daginn talar þjálfarinn við mig og segir: Hvernig líst þér á að spila með okkur næsta sumar? Við viljum semja við þig. – Mín fyrstu viðbrögð voru bara að fara að gráta. Og hann segir: Ég vona að þetta séu gleðitár. Ég bara: Já þetta eru alveg ... – En ég var bara að springa úr hræðslu. Það voru fyrstu viðbrögðin, Oh, my God! Ég þarf að gera þetta og ég þarf að flytja að heiman og ég þarf að vera ein. – Það var ekkert eitthvað: Geggjað, þeir vilja fá mig, til hamingju þú og njóttu þess. – Fyrstu þrjá mánuðina þar, ég held að ég hafi grátið á hverjum einasta degi af heimþrá. Það var alveg á mörkunum: Farðu bara heim, þetta er erfitt. Farðu bara heim í kósí þægindarammann þinn.

Ég er mjög stolt af þeim tíma að hafa gert þetta eins og ég gerði það. Þetta var ótrúlega erfitt og fyrstu mánuðina, ég var að tala um þennan púka á öxlinni áðan. Það var mjög erfitt hvað það varðar. Ég var alltaf að bíða eftir að þeir myndu sjá að ég væri ekki nógu góð. Nú kemst upp um þig. Þeir munu fatta það, bíddu bara. – Þannig að ég er mjög stolt af því og það þroskaði mig. Ég tók út rosalega mikinn þroska þarna á þessum tíma. Þarna breyttist margt og þú varst að sjá um þig sjálf og gera þetta. Þú varst búin að ákveða að vera þarna og þú verður að klára það. Ég var alltaf að tala um að ég vildi að ég hefði gert þetta betur, en ég gerði þetta bara drulluvel þrátt fyrir allt sem maður var að díla við í hausnum á sér, þannig að ég er mjög stolt af því. Þarna lendi ég rauninni í svona fyrsta mótlætinu á mínum ferli. Ég hafði á þessum tíma með Þór/KA spilað alla leiki, verið heppin með meiðsli og haft það bara mjög gott. Ég byrja fyrstu tvo leikina úti og svo meiðist ég aðeins og missi af næstu tveimur leikjum. Þegar ég er orðin heil þá missi ég sæti mitt í byrjunarliðinu og byrja ekki næstu 5 leiki minnir mig. Og það var í raun mjög þroskandi því hvað ætlarðu að gera þá? Fara í fýlu og væla yfir því að vera ekki að spila eða ætlarðu að leggja meiri vinnu á þig og koma þér inn í liðið aftur. Það tók smá tíma en ég endaði á að spila alla leiki eftir sumarfríið í deildinni. Það var mjög þroskandi,“ segir Arna Sif um Svíþjóðardvölina, en hún var hjá Kopparbergs/Göteborg 2015.

Eftir árs dvöl í Svíþjóð og tvö ár hjá Val lá leiðin aftur út, í þetta skiptið til Verona á Ítalíu. En þar voru aðstæður og ýmislegt ekki eins og best var á kosið og ekki í samræmi við það sem lofað var þannig að dvölin varð styttri en áformað var í upphafi.

„Ítalía var bara eins og Ítalía var. Það var ótrúlegt ævintýri. Ég veit ekki hvað ég á að segja um það, þetta var bara allt skrýtið frá byrjun til enda. En bara eins og með allt sem þú lendir í í lífinu, það er alltaf einhver lærdómur þarna. Þetta var ekki gaman og margt sem hefði mátt vera öðruvísi, en ég lærði ótrúlega margt þar líka.“

Eftir Ítalíudvölina kom hún aftur heim og gekk að nýju til liðs við Þór/KA í upphafi árs 2018. Í upphafi þessa árs fór Arna Sif síðan til Glasgow City FC í Skotlandi, á lánssamningi frá Þór/KA.

„Glasgow var svo allt önnur upplifun. Ég var á þeim tíma búin að vinna mikið í mér og var búin að þroskast mikið. Ég var búin að læra inn á mig, vissi hver ég var og hvað ég gat og var bara frekar ánægð með það. Í staðinn fyrir að fara út og vera eitthvað að bíða eftir að þetta myndi mistakast eða að ég væri ekki nógu góð eða eitthvað þá fór ég bara með því hugarfari að ég væri að fara að sýna þeim hvað ég er frábær og hvað ég er góð, og hvað ég get þetta vel – og líka pínu til að sanna fyrir mér að ég get þetta alveg. Það var alveg dásamlegur tími og þetta kom á mjög góðum tímapunkti í mínu lífi. Var eins og ég hef nefnt búin að vera að vinna mikið í mér og það var geggjað að fara og skipta um umhverfi, hugsa ekki um neitt nema sjálfa mig og geta eytt tíma í að bæta mig og halda áfram þessari vinnu,“ segir hún um dvölina í Skotlandi.

Eins og hún benti á er alltaf einhver lærdómur, hvort sem upplifunin og reynslan er góð eða slæm.

„Þannig að þetta eru ólíkar reynslur allar þrjár, en ég er gríðarlega stolt af þeim öllum og svona í dag, þótt margt af þessu hafi verið erfitt þá lærði ég ótrúlega margt og þetta allt saman þroskaði mig gríðarlega.“

Hópurinn í lokaleiknum, en myndin er tekin að loknu markalausu jafntefli gegn Keflavík þann 12. september 2021. Þarna eru þrjár fæddar 2005, tvær 2004, tvær 2001 og þrjár árið 2000. Mynd: Páll Jóhannesson.

Mikilvægt að hafa trú á eigin getu

Með þennan feril í huga og þá reynslu sem þú hefur núna bæði hér heima og af atvinnumennsku, hvað myndirðu ráðleggja ungum stelpum sem kannski hafa sjálfar þann draum að ná langt?

„Það er mjög margt sem ég myndi ráðleggja þeim. Ég gæti talað í fleiri, fleiri mínútur um það. En það er kannski bara það sama og ég var að segja áðan með það sem ég vildi segja við unga Örnu Sif, að hafa óbilandi trú á sér af því að, aftur, við getum allt sem við viljum. Trúðu því bara. Vertu viss í því hvað þú vilt gera og gerðu það bara fyrir þig. Þú ert ekki að gera þetta fyrir neinn annan. Þetta er mikil vinna en svo 100% þess virði þegar maður nær markmiðinu sínu, þú uppskerð eins og þú sáir,“ segir Arna Sif.

„Þetta er bara vinna eins og allt annað og ef við erum tilbúnar að leggja hana á okkur þá bara „go for it“. Kýla á það og njóta ferðalagsins. Það munu verða erfiðleikar, en það er bara partur af því. Það er gott tækifæri til að læra og þroskast og við getum alltaf tekið einhvern lærdóm út úr því,“ segir Arna Sif Ásgrímsdóttir, nú fyrrverandi leikmaður og fráfarandi fyrirliði Þórs/KA.

Við þökkum Örnu Sif kærlega fyrir að deila upplifun sinni og lærdómi með okkur og óskum henni góðs gengis á nýjum vettvangi.

-hi