Óvenjuleg knattspyrnutímabil 2020 og 2021

Byrjunarlið Þórs/KA gegn Val 27. júlí 2021. Fremri röð frá vinstri: Colleen Kennedy, Hulda Björg Han…
Byrjunarlið Þórs/KA gegn Val 27. júlí 2021. Fremri röð frá vinstri: Colleen Kennedy, Hulda Björg Hannesdóttir, Harpa Jóhannesdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir og Saga Líf Sigurðardóttir.
Aftari röð frá vinstri: Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir, Hulda Karen Ingvarsdóttir, Margrét Árnadóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrirliði. Mynd: Páll Jóhannesson.

 

Undanfarin tvö keppnistímabil hafa um margt verið óvenjuleg hjá okkur í Þór/KA – eins og öðrum liðum. Áhrif heimsfaraldurs hafa verið mikil á æfingar og keppni allt frá því í mars 2020, en þau verða ekki tíunduð hér. Á sama tíma hefur félagið gengið í gegnum mikla endurnýjun þegar lykilleikmenn hafa leitað annað, farið utan í atvinnumennsku og svo framvegis.

Eins og komið hefur fram á öðrum vettvangi má segja að félagið hafi misst hálft byrjunarlið eftir tvö keppnistímabil í röð 2018 og 2019. Þetta reynir á og ábyrgðin færist á aðrar heðrar – hjá okkur í flestum eða öllum tilvikum á yngri herðar en áður. Mikil endurnýjun hefur orðið á leikmannahópnum og margar ungar og bráðefnilegar stelpur fengið sín fyrstu tækifæri með liðinu og spilað sína fyrstu leiki í efstu deild. Slík uppbygging tekur tíma, en mun skila sér í enn öflugri leikmannahópi á næstu misserum.

Ókláruð mót 2020

Eins og kunnugt er var Íslandsmótið blásið af áður en keppni lauk haustið 2020, eftir að þá hafði tvisvar verið stoppað og frestað vegna heimsfaraldursins. Með góðum sigrum í lokaumferðunum, fyrst á útivelli gegn FH og svo á heimavelli (í Boganum) gegn Selfossi, náðum við í 18 stig og röðuðumst í 7. sætið, en með jafnmörg stig og Þróttur og Stjarnan í 5. og 6. sætinu.

Við áttum þá tveimur leikjum ólokið, útileik gegn KR og heimaleik gegn Þrótti. Jafnframt höfðum við tryggt okkur sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar og áttum að mæta KR á útivelli – en af því varð ekki því bikarkeppnin var blásin af eins og Íslandsmótið.

Vantar að skora mörk

Markatalan í 16 leikjum sumarið 2020 var 20-37. Núna þegar 16 leikjum er lokið af Íslandsmótinu 2021 höfum við náð í sama stigafjölda og í fyrra, 18 stig í 16 leikjum, en markatalan er 16-22. Aðeins eitt lið hefur fengið á sig færri mörk það sem af er mótinu. Í sumar hefur liðið fengið mun færri mörk á sig en í fyrra – en því miður hefur vantað upp á að skora fleiri mörk til að landa sigrum og safna fleiri stigum.

Liðinu hefur gengið mun betur á útivelli en heimavelli í sumar. Af fjórum sigrum hafa þrír komið á útivelli – og fyrsti sigurinn á heimavelli kom ekki fyrr en 17. ágúst þegar við unnum Tindastól, 1-0. Aðeins þriðjungur stiga liðsins hefur komið á heimavelli – einn sigur og þrjú jafntefli, en 12 af 18 stigum hafa komið á útivelli í þremur sigrum og þremur jafnteflum.

Tveir erfiðir leikir eftir

Þegar þetta er skrifað og birt eru tvær umferðir eftir af mótinu. Leikur dagsins í dag – laugardaginn 4. september – er á útivelli gegn Fylki. Við fáum svo Keflvíkinga í heimsókn norður í lokaumferðinni sunnudaginn 12. september. Bæði þessi lið eru fyrir neðan okkur í töflunni og eiga í harðri baráttu um að forðast fall og má því búast við tveimur hörkuleikjum hjá stelpunum okkar núna í fyrrihluta septembermánaðar.