Ellie Moreno til liðs við Þór/KA

Stjórn Þórs/KA hefur samið við bandarískan leikmann, Ellie Moreno, út yfirstandandi tímabil.

Ellie Moreno kemur frá Florida. Hún er sóknar- og/eða miðjumaður og hefur leyst stöður framarlega á vellinum með háskólaliði sínu í Bandaríkjunum, UCF (University of Central Florida).

Með því að fá Ellie Moreno til liðs við Þór/KA er markmiðið einfaldlega að styrkja þann öfluga hóp sem félagið hefur nú þegar yfir að ráða, auka breiddina og vera betur í stakk búið að takast á við meiðsli og önnur forföll sem geta komið upp og hafa komið upp á tímabilinu.

„Við erum ánægð með hópinn okkar í Þór/KA og ætlum okkur klárlega að vera samkeppnishæf í mótum sumarsins. Koma Ellie styrkir hópinn og þéttir raðirnar fyrir komandi átök,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarss, þjálfari Þórs/KA, um komu leikmannsins til félagsins.

Stjórn Þórs/KA, þjálfarateyminu og þeim sem starfa í kringum liðið, ásamt leikmannahópnum, er full alvara í því að berjast um alla þá titla sem í boði eru. Liðið fór alla leið í úrslitaleik Lengjubikarsins á dögunum sem sýnir að Þór/KA á erindi í fremstu röð - og þar viljum við vera.