Karfan er tóm.
U19 landsliðið fer til Danmerkur í apríl, U17 til Albaníu í mars.
Tvær úr okkar hópi, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Jakobína Hjörvarsdóttir, spiluðu með U19 landsliðinu í undanriðli fyrir EM 2023, en sá riðill var spilaður í Litháen og vann Ísland riðilinn auðveldlega. Liðið er því á leiðinni í næsta stig undankeppninnar, riðlakeppni A-deildar, þar sem 28 lið berjast um sjö laus sæti í lokakeppninni.
Dregið hefur verið í riðlana og verður Ísland með Danmörku, Svíþjóð og Úkraínu í riðli. Spilað verður í Danmörku 3.-11. apríl, en sigurlið riðilsins fer í lokakeppnina sem fram fer í Belgíu 18.-30. júlí.
U17 landsliðið féll niður í B-deild eftir fyrstu umferð undankeppninnar í haust og á því ekki möguleika á að vinna sér sæti í lokakeppninni 2023. Liðið á hins vegar möguleika á að vinna sig aftur upp í A-deildina fyrir undankeppnina næsta haust, fyrir EM 2024 því nú tekur við deildakeppni með fyrirkomulagi eins og þjóðadeildin. Þar verður Ísland í riðli með Albaníu og Lúxemborg og verður sá riðill spilaður í Albaníu 15.-21. mars.
Þessar upplýsingar koma meðal annars fram í fréttum á vef KSÍ. Vonandi munum við eiga fulltrúa í báðum þessum liðum í næstu verkefnum - og í framtíðinni.