Dagur sjálfboðaliðans – bestu þakkir fyrir störf ykkar!

Sjálfboðaliðar eru nauðsynlegir íþróttahreyfingunni og félagi eins og Þór/KA þar á meðal. Sjálfboðal…
Sjálfboðaliðar eru nauðsynlegir íþróttahreyfingunni og félagi eins og Þór/KA þar á meðal. Sjálfboðaliðastörfin eru fjölbreytt, en þessi mynd sýnir gæslumenn á leik hjá meistaraflokknum okkar í sumar. Þarna eru þeir Hjálmar Arinbjarnarson, Sigurgeir Svavarsson og Rainer Jessen, en þeir eru tíðir gestir á heimaleikjunum okkar. Mynd: Ármann Hinrik.
- - -

Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans er í dag. Meðal þess sem er í boði í dag er að ÍSÍ og UMFÍ bjóða sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar að koma í Íþróttamiðstöðina í Laugardal og halda upp á daginn. Þar verður haldið stutt málþing kl. 15 í dag. Sjá nánar hér neðar í fréttinni og á vef ÍSÍ.

Í dag er einnig síðasti dagur til að senda inn tilnefningar fyrir viðurkenninguna Íþróttaeldhugi ársins 2024, sjá krækju á skráningarform neðar í fréttinni. 

Félagið færir öllum sjálfboðaliðum sem komið hafa að starfinu hjá okkur á árinu bestu þakkir. Án ykkar væri starfið óframkvæmanlegt, það er svo einfalt. Áhersla á mikilvægi sjálfboðaliðans hefur aukist á undanförnum árum og hlutverk sjálfboðaliða fengið meiri athygli og hugað að því hvað og hvar er hægt að gera betur. Meðal annars skipaði ÍSÍ vinnuhóp sem ætlað var að fara yfir málefni sjálfboðaliða og skila af sér skýrslu um stöðu mála og nauðsynlegar aðgerðir. Skýrslan var kynnt á formannafundi ÍSÍ í nóvember og er nú aðgengileg á vef sambandsins. 

Sjá nánar í frétt á vef ÍSÍ: Sjálfboðaliðar: Hjarta íþróttahreyfingarinnar

Fjallað er um dag sjálfboðaliðans í frétt á vef ÍSÍ í dag. Þar segir: 

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans sem haldinn hefur verið frá árinu 1985 en það voru Sameinuðu þjóðirnar sem ákváðu að helga 5. desember öllum sjálfboðaliðum um allan heim! Árið 2022 var sett í gang hér á landi kynningarátakið Alveg sjálfsagt, sem þá var vitundarvakning um mikilvægi sjálfboðaliðans. Því miður hefur þróunin síðustu ár verið á þá leið að starf sjálfboðaliða hefur þótt sjálfsagt en á sama tíma hefur þátttaka dregist saman og því oft erfitt að manna mörg sjálfboðaliðastörf.

Íþróttahreyfingin á Íslandi hefur undanfarin ár verið drifin áfram af sjálfboðaliðum og væri ekki á þeim stað, sem hún er í dag, án allra þeirra sjálfboðaliða sem leggja félagi sínu lið við mörg störf. Má þar nefna stjórnir íþróttafélaga og deilda, fjáraflanir yngri flokka, skipulag barna- og unglingamóta, dómgæslu, miða- og veitingasölu, aðstoð við umgjörð leikja, söfnun og uppsetningu auglýsingaskilta og svo mætti lengi telja.

Það er ómetanlegt að hafa traust og gott fólk í kringum sig sem stendur vaktina í blíðu og stríðu og aðstoðar við lítil sem stór verkefni.

Í tilefni af degi sjálfboðaliðans munu ÍSÍ og UMFÍ bjóða sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar að koma í Íþróttamiðstöðina í Laugardal og halda upp á daginn. Klukkan 15:00 verður stutt málþing þar sem Íþróttaeldhugi ársins 2023, Guðrún Kristín Einarsdóttir mun segja sögu sína af sjálfboðastarfi fyrir íþróttahreyfinguna. Þá mun Jónas Hlíðar Vilhelmsson, formaður Fálka sem er feðraklúbbur í Val, segja frá þeirra starfi og að lokum mun Petra Ruth Rúnarsdóttir formaður Þróttar Vogum segja frá því hvað þátttaka í sjálfboðastarfi hefur gefið henni. Að dagskrá lokinni eða um kl.16 er öllum viðstöddum boðið í vöfflukaffi í boði Vilko og Mjólkursamsölunnar.

Það er von ÍSÍ að áfram munum við búa svo vel að geta leitað aðstoðar hjá sjálfboðaliðum svo íþróttahreyfingin megi halda áfram að dafna og eflast.

Að lokum viljum við minna á kosningu á Íþróttaeldhuganum 2023, en frestur til að senda inn tilnefningu er í dag, 5. desember. Smelltu hér til að senda tilnefningu!

ÍSÍ sendir öllum sjálfboðaliðum í íþróttahreyfingunni bestu kveðjur í tilefni dagsins og þakkar fyrir þeirra óeigingjörnu störf í þágu íþrótta í landinu!

Takk, sjálfboðaliðar!