Brösótt byrjun í Bestu deildinni

Klárar í seinni hálfleikinn - sem var betri en sá fyrri hjá okkar stelpum.
Klárar í seinni hálfleikinn - sem var betri en sá fyrri hjá okkar stelpum.


Þrátt fyrir góðan ásetning tókst Þór/KA ekki að sækja gull í greipar Breiðabliks í fyrstu umferð Íslandsmótsins í gær. Niðurstaðan var 4-1 tap.

Fyrsti hálftíminn var hálfgerð martröð, þrjú mörk frá Blikum með góðan stuðning og stemningu úr stúkunni. Spennustigið virtist há leikmönnum í fyrri hálfleiknum. Blikar nýttu það vel og gerðu raunar út um leikinn í fyrri hálfleik. Hafi þriggja marka forysta ekki verið nóg þá bættu þær úr því strax í upphafi seinni hálfleiks með fjórða markinu.

Seinni hálfleikurinn var þó mun betri hjá okkar stelpum en sá fyrri. Nokkrum sinnum urðu til álitlegar stöður, einkum eftir hornspyrnur og aukaspyrnur, nokkur færi og skot á mark, en Telma Ívarsdóttir stóð þá vaktina í markinu. Því miður vantaði herslumuninn til að klára færin, þar til alveg í restina þegar Margrét Árnadóttir skallaði boltann, eða fleytti honum áfram, yfir markvörð Breiðabliks, eftir að Saga Líf hafði átt skot í varnarmann.

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Staðan í deildinni, leikjadagskrá og úrslit leikja á vef KSÍ.

Næsti leikur okkar í Bestu deildinni verður þriðjudaginn 3. maí og hefst hann kl. 18. Vakin er athygli á að leikurinn fer fram í Boganum.

Aðgangur að heimaleikjum okkar í sumar kostar 2.000 krónur fyrir fullorðna. Sala árskorta er í fullum gangi og sjá leikmenn um að taka við pöntunum.