Besta-efri-deildin: Þór/KA tekur á móti FH á laugardag kl. 14

Fyrsti leikur okkar í lokahluta Íslandsmótsins í knattspyrnu kvenna, Bestu deildinni, verður á Greifavellinum á morgun og hefst kl. 14. Hefðbundin upphitun fyrir leik, borgarar beint af grillinu og stelpurnar klárar í að skemmta okkur með sínum alkunnu töktum.

Þó hvorki sé Íslandsmeistaratitill, Evrópusæti né falldraugur í augsýn ætla stelpurnar að leggja sig allar í verkefnið síðustu vikur keppnistímabilsins, halda áfram að skemmta áhorfendum og ná í eins mörg stig og þær mögulega geta.
 
Við hvetjum fólk úr öllum bæjarhlutum til að mæta á leikina og styðja stelpurnar. Það skiptir máli.
 
Miðasala í Stubbi og við innganginn. Verið með í gleðinni!

 

Leikurinn á morgun verður sá fimmti þar sem þessi lið eigast við á árinu og reyndar fimmti leikstaðurinn þar sem þessi lið mætast. Allir leikirnir hingað til hafa unnist á útivelli. Fyrsti leikurinn var í Lengjubikarnum í mars, spilaður í Skessunni og þar hafði Þór/KA 2-1 sigur með mörkum Margrétar Árnadóttur og Söndru Maríu Jessen. Næsta viðureign var í annarri umferð Bestu deildarinnar í lok apríl og fór sá leikur fram á BIRTU-vellinum (Ásvöllum) í Hafnarfirði, heimavelli Hauka, þar sem Kaplakrikavöllur var ekki tilbúinn. Þór/KA vann aftur á úitvelli, í þetta sinn 4-0 með fjórum mörkum Söndru Maríu. Næst þegar liðin mættust var það í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar og þá var Kaplakrikavöllur í fínu standi. Enn vann Þór/KA á útivelli, í þetta skiptið 1-0 með marki Söndru Maríu. Fjórði útisigurinn í viðureignum þessara liða á árinu kom svo þegar FH vann 1-0 á VÍS-vellinum í byrjun júlí. Leikurinn á morgun verður spilaður á Greifavellinum (KA-velli), sem verður þá fimmti mætingarstaður þessara liða á árinu.

Viðureignir á árinu 2024

Viðureignir þessara félaga í efstu deild eru orðnar 25. Þór/KA hefur mun oftar haft betur, unnið 17 leiki á móti fjórum, en fjórum sinnum hafa liðin skilið jöfn.