Besta deildin: Þriðja sætið áfram þrátt fyrir tap

Þór/KA heldur þriðja sæti Bestu deildarinnar að loknum 11 umferðum þrátt fyrir 0-1 tap á heimavelli fyrir FH í gærkvöld.

Þrátt fyrir nokkur færi í fyrri hálfleiknum tókst Þór/KA ekki að skora og kom það liðinu í koll þegar upp var staðið. Gestirnir tryggðu sigurinn með marki úr víti seint í fyrri hálfleiknum.

Þór/KA - FH 0-1 (0-1)

Eðlilegt leikjaálag?

Óhætt er að fullyrða að leikjaálag undanfarinna vikna sé farið að segja til sín í frammistöðu leikmanna og liða í Bestu deildinni, þar á meðal hjá Þór/KA eins og meðal annars kom fram í viðtali við Jóhann Kristin Gunnarsson þjálfara á vefmiðlinum fotbolti.net. Kannski mætti kalla það kaldhæðni örlaganna að sigurinn á FH í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar skuli vera einn af áhrifaþáttum í leik gærkvöldsins varðandi orku og ferskleika í leik liðanna. Þór/KA spilaði nefnilega 120 mínútna leik síðastliðið föstudagskvöld á meðan FH fékk viku á milli leikja.

Uppsetning Íslandsmóts og bikarkeppni hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir félögin, sambandið og mótanefndina fyrir næsta tímabil, ekki aðeins vegna þess möguleika að íslenska landsliðið komist á lokamót EM heldur almennt vegna leikjaálags, hvað þá hjá liðum sem eiga landsliðskonur og/eða fara í Evrópukeppni.

Hvert stefnum við með þessu áframhaldi? Hvað ætlum við að gera ef Ísland kemst á lokamót EM næsta sumar og verður jafnvel reglulegur þátttakandi á lokamótum á komandi árum?

Til að sýna dæmi um það sem hér er rætt birtum við hér að neðan dagsetningar á leikjum Þórs/KA frá því að Íslandsmótið hófst - heimaleikir eru bláir, útileikir rauðir og svo bætum við landsleikjum inn á milli (svartir).

  • Apríl: 21 - 27
  • Maí: 2 - 9 - 14 - 18 - 24 - 31ú (landsleikur í Austurríki 31. maí)
  • Júní: 4h - 8 - 11 - 15 - 21 - 25 - 28 - (landsleikur Laugardalsvelli 4. júní)
  • Júlí: 3 - 7 - 12h - 16ú - 19 - 24 - 30 - (landsleikur á Laugardalsvelli 12. júlí og í Póllandi 16. júlí)
  • Ágúst: 10 - 15 - 25 - úrslitaleikur Mjólkurbikarkeppninnar er á dagskrá 16. ágúst. Það þýðir væntanlega að troða þarf leikjum sem Breiðablik og Valur eiga að spila í 17. umferð mótsins (við Þrótt og Fylki) inn á milli leikja annars staðar, að líkindum um eða strax eftir verslunarmannahelgina.
  • Leikdagar í efri/neðri: 31.08/01.09 - 07.09. - 13.09./14.09. - 22.09. - 29.09. - 05.10.
  • Leikmenn Vals og Breiðabliks spila leiki í Meistaradeild Evrópu 4. og 7. september. Takist þeim vel upp í þessum leikjum og komist áfram bíða þeirra einnig leikir 18./19. og 25./26. september.
  • Landsliðskonur úr Þór/KA og öðrum liðum spila í Póllandi á þriðjudegi (16), ferðast aftur til Íslands á miðvikudegi og eiga svo að vera klárar í næsta deildarleik á föstudegi (19). Tvær úr Þór/KA eru einmitt á leið í slíka leikjatörn, Sandra María Jessen og Lidija Kuliš. Breiðablik á einn leikmann í íslenska landsliðinu og Valur þrjá. Mismunandi þó hve mikið þessir leikmenn munu spila í landsleikjunum. Ef við gerum sem dæmi ráð fyrir að Sandra María og Lidija spili verulegan hluta af landsleikjunum sem fram undan eru í júlí spila þær báðar sjö leiki í júní og sjö í júlí, flesta eða alla leikina með Þór/KA í byrjunarliði og oftast allar 90 mínúturnar (eða 120 eins og í undanúrslitum bikarkeppninnar).

Hvað er til ráða?

  • Sameina Lengjubikarinn og Mjólkurbikarinn og spila bikarkeppnina með svipuðu formi og til dæmis er gert í Svíþjóð?
  • Byrja fyrr og spila lengra fram á haustið, sætta sig þá við þær takmarkanir sem fylgja því að spila leiki innanhúss, stilla kröfum um aðstöðu þá þannig í hóf að ekki þurfi endalaust að sækja um undanþágur til að spila í ákveðnum húsum?
  • Í sumum löndum eru fastir leikdagar í hverri viku og nánast allir leikir spilaðir innan þess ramma, til dæmis eru velflestir leikir í þýsku Bundesligunni spilaðir á sunnudögum, næstum alltaf viku frí á milli leikja og lítið sem ekkert hringl með leikjadagsetningar. Það þýðir að rútínan á milli leikja er í fastari skorðum og bæði leikmenn og stuðningsmenn geta gengið að ákveðnum leikdögum sem vísum. Myndi slíkt fyrirkomulag vera til bóta hér á landi?

Fjölhæfur sjúkraþjálfari

Snúum okkur að öðru og léttara hjali.

Þór/KA býr að þeirri gæfu að eiga góða að í öllum stöðum og öllum verkefnum sem fylgja því að reka knattspyrnulið í efstu deild. Eitt af því sem alltaf er hægt að bæta og gera meira er stemning í kringum liðið og á leikjum. Mörg knattspyrnufélög og -lið eiga sér félagssöng eða hvatningarlag, en það hefur vantað í herbúðir Þórs/KA enda liðið angi af samstarfi tveggja félaga sem hvort um sig hefur sín lög.

En eins og áður sagði eigum við góða að og fólkið í kringum liðið er fjölhæft og getur alls konar. Sjúkraþjálfarinn Hannes Bjarni Hannesson tók sig til og snaraði fram lagi, Hærra saman, henti því inn á Spotify, „bara svona til að leyfa stelpunum að heyra,“ eins og hann sagði við fréttaritara síðunnar í upphitun fyrir leikinn í gær, en ætlaði samt ekki að koma því á framfæri opinberlega að hann væri maðurinn á bakvið lagið. Stelpurnar hrifust af laginu og vilja helst heyra það tvisvar til þrisvar sinnum í upphitun.

Við viljum auðvitað að fleiri fái að njóta tónsmíðarinnar og hér eru herlegheitin - en lofum um leið ítarlegri umfjöllun um höfundinn á næstunni.

Molar og fróðleikur

  • 3 - Þrjár hafa verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum liðsins í Bestu deildinni til þessa, samtals 11 leikjum að meðtöldum leiknum gegn FH í gærkvöld. Þetta eru þær Hulda Björg Hannesdóttir, Margrét Árnadóttir og Sandra María Jessen. Hulda Björg og Margrét hafa einnig verið í byrjunarliðinu í öllum þremur leikjum liðsins í Mjólkurbikarkeppninni.
  • 3 - Þrjú lið voru ekki með fullmannaða bekki í 11. umferðinni. Stjarnan og Breiðablik voru með fimm varamenn og FH sex, en leyfilegt er að vera með sjö varamenn. Tengist það leikjaálaginu? Þessi félög eru öll með venslalið (Álftanes, Augnablik/Smára og ÍH). Kæmi betur út fyrir þessi lið að leggja meiri áherslu á 2. flokk og hafa þannig úr fleiri leikmönnum að velja þegar hópurinn þynnist vegna meiðsla?
  • 4 - Í framhaldi af vangaveltum hér að ofan um leikjaálag er athyglivert að skoða úrslit leikja í 11. umferðinni. Fimm leikir, samtals fjögur mörk! Fjórum leikjum lauk með 1-0 sigri og einum með markalausu jafntefli. Væntanlega líflegur markaþátturinn úr þessari umferð.
  • 4 - Leikurinn í gær var fjórða viðureign þessara liða á árinu. Liðin mættust í Lengjubikarnum 9. mars, í fyrri umferð Bestu deildarinnar 27. apríl, í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar 11. júní og svo í gær, sem var þá fjórða viðureign liðanna á um 16 og hálfri viku.
  • 19 - Alls hafa 19 leikmenn fengið að spreyta sig í byrjunarliðinu í leikjum liðsins í deildinni til þessa. Fjórar hafa að auki komið inn á sem varamenn í nokkrum leikjum, en aldrei verið í byrjunarliðinu.
  • 20 - Margrét Árnadóttir og Sandra María Jessen hafa spilað 20 leiki í Lengjubikar, Bestu deildinni og Mjólkurbikar frá 10. febrúar (rúmar 20 vikur). Sandra María auk þess tekið þátt í fjórum landsleikjum og spilað þar 18, 24, 55 og 90 mínútur.