Besta deildin: Þór/KA tekur á móti Víkingi í kvöld

Stuttu landsleikjahléi og kærkominni hvíld lokið og nú fara átökin í Bestu deildinni aftur af stað. Þór/KA tekur á móti Víkingi á VÍS-vellinum í kvöld kl. 18.

Fyrir leikinn í kvöld eru liðin í 3. og 5. sæti. Þór/KA er með 24 stig í 3. sætinu og Víkingur með 16 stig í 5. sætinu. Í síðustu umferð vann Þór/KA 4-2 sigur á útivelli gegn Þrótti, en Víkingur tapaði 0-2 heima fyrir Val. 

Upphitun fyrir leik verður hefðbundin, grillið orðið heitt um fimmleytið, borgararnir ljúffengir sem fyrr. Þjálfaraspjall kl. 17:15 á pallinum við Hamar og eins og alltaf má vænta fjörugs og skemmtilegst fótbolta frá okkar konum. Fótboltaspjöldin enn til sölu í sjoppunni.

Fréttaritari man ekki eftir mörgum knattspyrnukonum sem hafa spilað meistaraflokksleiki fyrir bæði félögin. Tvær eru í röðum Víkinga núna sem höfðu áður spilað fyrir Þór/KA. Gígja Valgerður Harðardóttir stendur vaktina í miðri vörn Víkingsliðsins, en hún er fyrrverandi leikmaður með Þór/KA, spilaði samtals 100 leiki fyrir Þór/KA á árunum 2010-2013 og aftur 2015 og varð Íslandsmeistari með félaginu 2012. Ef Gígja kemur við sögu í kvöld verður það hennar 150. leikur í efstu deild, þar af eru 87 fyrir Þór/KA. Shaina Ashouri spilar í framlínunni í Víkingsliðinu, en hún spilaði fyrir Þór/KA síðari hluta sumars 2021. 

Þór/KA og Víkingur hafa aðeins einu sinni mæst í efstu deild, en það var fyrri viðureign liðanna í deildinni á yfirstandandi tímabili. Þór/KA vann þá 2-1 sigur í Víkinni. Sandra María Jessen og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir skoruðu mörkin. Fram að marki Ísfoldar hafði Sandra María skorað öll mörk liðsins í deildinni. Þessi félög hafa aðeins tvisvar mæst í meistaraflokki, en fyrri leikurinn var viðureign liðanna í Lengjubikarnum í febrúar.